Aldarsaga UMSK 1922-2022

76 gestamót heldur félagið 23. febrúar, og verður það með líkum hætti.40 Eins og sjá má af textanum voru gestamótin alfarið komin í umsjá félagsins sem þar með naut góðs af innkomunni eins og maklegt var. Næstu árin voru haldin tvö gestamót hvern vetur, bæði fyrir og eftir áramót. Aðsókn var sæmileg og ágóðinn kom sér vel í tóma sjóði félagsins. Smám saman dró þó úr aðsókninni og eftir fámennt gestamót í desember 1931 var ákveðið að fækka mótunum og láta eitt mót á ári duga. Þetta lánaðist vel um sinn og gestunum fjölgaði fremur en hitt. Svo fór aftur að síga á ógæfuhlið og árið 1937 var svo komið að halli varð af gestamótinu sökum fámennis. Sama gerðist árið eftir og þá varð hallinn heilar 232 krónur. Félagið sótti um styrk vegna þessa bæði til UMSK og UMFÍ og var það samþykkt á báðum stöðum. En eftir þetta þótti fullreynt með að gestamótin bæru sig og haustið 1938 var samþykkt að halda ekki gestamót nema UMSK óskaði þess og tæki á því fjárhagslega ábyrgð. Sem vænta mátti heyrðist hvorki stuna né hósti frá héraðssambandinu í þá áttina og þar með runnu hin eitt sinn svo vinsælu gestamót sitt skeið á enda. Stuggað við stóra bróður Eins og rakið hefur verið var Ungmennafélag Íslands fremur veikburða framan af og fór ekki að styrkjast fyrr en búið var að leggja fjórðungssamböndin niður. Stjórn UMFÍ var kosin til þriggja ára í senn og talsvert mæddi á stjórninni á árunum 1921–1923 á meðan þessar breytingar gengu yfir. Á þingi UMFÍ árið 1921 lét Jónas Jónsson frá Hriflu af formennsku sambandsins en við tók Magnús Stefánsson sem kom frá Ungmennafélagi Reykjavíkur. Gjaldkeri var félagi hans Jón Kjartansson kennari og ritari var Guðrún Björnsdóttir frá Aftureldingu í Mosfellssveit. Meðstjórnendur voru Guðmundur Davíðsson og Guðmundur Jónsson frá Brennu, báðir úr Reykjavík. Þessir aðilar báru ekki gæfu til samstarfs og von bráðar fór að hvessa á stjórnarheimilinu. Guðrún Björnsdóttir var skörungur mikill og henni þótti hægt ganga að koma áríðandi málum áleiðis. Hún vildi boða til aukaþings hjá UMFÍ haustið 1922 til að bæta úr þessu en það fékkst ekki samþykkt. Þá sagði hún sig úr stjórninni samdægurs og gekk á dyr. Formaðurinn, Magnús Stefánsson, fylgdi í kjölfarið og sagði sig úr stjórninni vorið 1923. Þá hafði skorist hart í odda með honum og Jóni Kjartanssyni. Eftir sátu þrír menn í stjórninni en hún var vitanlega lömuð eins og gefur að skilja þegar formaður og ritari voru farnir burt sinn veg. Í raun var stjórn UMFÍ svo gott sem óstarfhæf. Bæði hin burtförnu voru úr röðum UMSK og Guðrún meira að segja ritari stjórnar þar einnig. Guðbjörn Guðmundsson, formaður UMSK, tók nú af skarið og beitti sér fyrir því að aðildarfélög sambandsins sendu áskoranir til UMFÍ um að boða til aukaþings haustið 1923. Undir þetta tók stjórn UMSK og minnti á í bréfi til stjórnar UMFÍ að bæði Borgfirðingar og Vestfirðingar hefðu gert slíkt hið sama. Skorti ekki brýningar í bréfinu sem lauk á þessa leið: Við viljum einnig benda á að Sambandsstjórnin er nú algerlega ólögmæt þar sem Sambandsstjóri hefir nú látið af sínu starfi í stjórninni og þar sem enginn annar en Sambandsþing getur kosið Sambandsstjóra og enginn tekið sér þá stöðu án samþykkis Sambandsþings, hlýtur Ungmennafélagsskapurinn á Íslandi að hrekjast sem höfuðlaus her þar sem hver fer fram eftir eigin vilja til næsta þings. Og vilja þeir sem enn eru eftir á þessu stjórnarflaki taka á sig þá ábirgð að láta skeika að sköpuðu með Ungmennafélagsskapinn um heils árs bil? Við vonum ekki.41 Jón Kjartansson kennari, gjaldkeri UMFÍ 1922. Guðmundur Jónsson frá Brennu, stjórnarmaður UMFÍ 1922. Guðrún Björnsdóttir í Grafarholti, ritari UMFÍ 1922. Magnús Stefánsson, dyravörður, formaður UMFÍ 1922. Guðmundur Davíðsson kennari og síðar þjóðgarðsvörður, stjórnarmaður UMFÍ 1922.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==