71 Með kjarnanum úr þessum 160 manna hópi voru haldnir sjö fundir í Iðnó á tímabilinu frá 8. nóv. 1923 til 3. maí 1924. Þeir voru allfjölmennir og að meðaltali voru 75 manns á hverjum fundi. Fyrirkomulag þeirra var svo sem tíðkaðist hjá góðum ungmennafélögum. Eftir söng og upplestur fundargerðar var tekið til umræðu „eitthvert þeirra málefna er næst lágu til úrlausnar og framkvæmda fyrir félögin og virtust til heilla og frama fyrir þjóðina og þroska fyrir félögin,“ eins og sagði í skýrslu stjórnarinnar. Á eftir umræðum var gefið fundarhlé og þá var sungið og spjallað saman en síðan sest að sameiginlegri kaffidrykkju. Yfir kaffinu kynntist fólkið fljótt og vel og setti þetta sérstakan gleðiblæ á samkomurnar. Þá var komin röðin að gestum fundarins að segja frá félögum sínum og fyrirkomulagi þeirra. Á fyrsta fundi var sagt frá Þrastaskógarför Aftureldingar, á þeim næsta frá útivist í Þórsmörk og Bifröst í Borgarfirði var kynnt á þeim þriðja. Þá sögðu víðförlir ferðalangar frá ferðum sínum sem var mikið nýnæmi mörgum heimalningum sem þarna voru. Svo voru lesin upp frumsamin kvæði og smásögur. Allir fundir hófust og þeim lauk með söng íslenskra ljóða. Á öðrum fundi var samþykkt að hafa handskrifað blað sem lesið yrði upp á fundum. Það hlaut nafnið Farfuglar og þar með var komið nafnið á þessa fundi aðkomufólks í höfuðstaðnum. Þeir voru eftir þetta nefndir Farfuglafundir og urðu afar vinsælir hjá mörgum aðkomumönnum sem voru hálf rótlausir í borginni en eignuðust þarna sinn félagslega vettvang. Blaðanefnd var skipuð fyrir hvern fund til að skrifa í blaðið og stóðu blaðanefndir sig svo vel að stundum reyndist nauðsynlegt að skipta blaðinu niður á tvo fundi sökum ofgnóttar efnis. Allir voru fundirnir auglýstir með prentuðum fregnmiðum sem komið var fyrir í glugga prentsmiðjunnar Acta og þar fengu væntanlegir fundargestir upplýsingar um næsta fund. Á síðasta fundinum um vorið var dagskráin fjölbreytt og lauk með „dansi og öðrum frjálsum skemmtunum“ eins og sagði í fundarboðinu. Þar var einnig sungið sérprentað kvæði um upplifun fundanna eftir ungmennafélaga sem í hógværð sinni nefndi sig S.G.V. Það var undir laginu Þú vorgyðja svífur og endaði á þessum hendingum: Vér fundumst sem gestir á fjarlægri strönd / en fljúgum sem vinir í átthagalönd. Eftir þessa ágætu byrjun var það eindreginn vilji manna að halda farfuglafundunum áfram. Haustið 1924 voru aftur send bréf til allra ungmennafélaga og þau beðin að láta vita um félagsmenn sína í Reykjavík. Nú voru útbúin eyðublöð og send með til útfyllingar. Þetta bar þann árangur að 45 ungmennafélög sendu upplýsingar um 255 félaga sína til UMSK. Þar var tíundað hvaðan þeir væru, dvalarstaður skráður og ef viðkomandi var einhverjum sérlegum kostum búinn eins og íþróttum, mælskulist, ritfærni eða góðri söngrödd var þess einnig getið. Sem dæmi var Kristinn Stefánsson, Völlum í Svarfaðardal, „sæmilega máli farinn og ritfær“ og félagi hans, Baldvin Jóhannsson á Dalvík, hafði „stundað sund, glímur og fleiri íþróttir.“ Jónína Jónsdóttir af Skeiðum hafði sungið diskant í félaginu og félagi hennar, Sigríður Runólfsdóttir frá Syðri-Brúnavöllum, var „vel máli farin og ritfær.“ Ungmennafélagið Dagsbrún í Landeyjum tilkynnti aðeins einn félaga, Oddgeir Jónsson í Hallgeirsey, en hann hafði líka „verið ritari [og stundað] glímur, hlaup, stökk [og var] tenór.“ Margir höfðu til síns ágætis nokkuð en Jón Óskar Pétursson, formaður Ingólfs í Holtum, tók það fram um átta félaga sína sem hann tilkynnti, að þeir væru byrjendur og væru „eiginlega um það leyti að [læra að] þekkja og meta gildi félagsskaparins.“ Frá hausti 1924 til vors 1925 voru haldnir sjö fjölmennir farfuglafundir í Iðnó. Að vanda var mest lagt í síðasta fundinn um vorið og lauk honum með dansi sem stóð til klukkan þrjú um nóttina. Aðgangur kostaði tvær krónur og var kaffið innifalið. Þeir voru sem fyrr auglýstir með fregnmiðum þar sem dagskránni var lýst og menn hvattir til að mæta. Fyrir þriðja fundinn var sent út dæmigert dreifibréf sem hljóðaði svo: UMSK 3. sameiginlegur fundur allra ungmennafélaga utan Reykjavíkur verður haldinn þriðjudaginn 9. des. kl. 8 síðd. í Iðnó. Eftir að flutt verður inngangserindi um ætlunarverk og gagnsemi ungmennafélaganna verður rætt um hvernig fyrirmyndarfélag eigi að vera og á hvern hátt því takmarki verði náð og hvað beri að varast í starfrækslu félaganna og svo framvegis. Blaðið Farfuglar verður lesið upp, sagðar félagafréttir og fleira og fleira. Ennfremur kaffidrykkja að vanda. Ísfirðingurinn Guðmundur Jónsson frá Mosdal, var um tíma ritari UMFÍ.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==