Aldarsaga UMSK 1922-2022

70 vilja allar hver sitt, en eiga þó allar eitt sameiginlegt. – Þær gera engar neitt. Það er gumað af, hvað alt eigi að vera þjóðlegt og rammíslenskt og stúlkurnar flýta sjer að stýfa af sjer hárið og sauma sjer reiðbuxur eftir nýustu Parísartísku fyrir hátíðina.30 Í 2. tölublaðinu birtist voldugt kvæði um Skarphéðin Njálsson eftir helsta skáld héraðsins, Kolbein Högnason í Kollafirði. Þá voru þættir um íslenska leiki og hvatning til að mæta á farfuglafundi. Forsíðuna prýddi teikning af vasklegum víkingi sem átti að minna ungmennafélaga á að vita hvað þeir vildu og stefna að því. Í 3. tölublaðinu hóf Guðmundur Benediktsson þjóðernistilfinninguna til skýjanna og sagði að hún ein gæti „leitt þjóð vora upp í hlíðarnar þar sem sólin skín og angandi blómin brosa við ljósinu.“ Eitthvað voru Drengsmenn uppteknir við vorverkin þegar kom að aprílblaðinu því ekkert efni kom frá þeim. Þess í stað birtust þar þrjár skrúðmiklar greinar eftir Guðbjörn Guðmundsson. Hann var ómyrkur í máli í hvatningargrein sem nefndist Hví hikar þú? Niðurlag hennar var á þessa leið: Veistu ekki að þú, hver einasti einstaklingur, ert kominn og kallaður í þetta þjóðfjelag til að tína saman brotin sem skærast skína úr þjóðlífsmynd fortíðarinnar og skapa trausta þjóðrækniskeðju framtíðarinnar? Eða vilt þú verða hlekkurinn sem svíkur og slítur keðjuna? Hví hikar þú? Rís upp ungi maður og berstu djarft! Þitt stríð skal verða fyrir guð þinn, frelsið og fósturjörð þína. Ella ert þú – hvað?31 Farfuglafundirnir Á hverju hausti streymdi mikill fjöldi ungmennafélaga af landsbyggðinni til náms og atvinnuleitar í Reykjavík. Þar með misstu þeir sambandið við sín ungmennafélög og sumir týndust alveg úr félagsskapnum. Þetta þótti stjórn UMSK illa farið og nú kom þeim í hug að ná til þessa unga fólks og bjóða því að starfa innan sambandsins yfir vetrartímann. Helsta ráðið til þess var að skrifa stjórnum allra ungmennafélaga og biðja þau að senda skrá yfir félagsmenn sína sem væru farfuglar í Reykjavík yfir veturinn. Og í framhaldinu bjóða þeim á fund til að „leitast við að bæta upp þær ánægjustundir er þeir færu á mis við vegna fjarveru sinnar frá félagsbræðrum og systrum, fjarlægir félagslífinu og samstarfinu,“ eins og stóð í bréfinu. Ungmennafélög landsins voru þá orðin um 140 svo þetta var ekkert áhlaupaverk. Bréfin voru send í lok ágúst 1923 en aðeins átta félög svöruðu. Þau lýstu öll yfir ánægju sinni með þetta framtak og sendu lista yfir samtals 80 félagsmenn sína er héldu til í höfuðstaðnum. Markviss leit varð til þess að fjölgaði í hópnum og innritaðir voru 160 ungmennafélagar frá 40 félögum víðsvegar að af landinu. Guðbjörn Guðmundsson var óþreytandi að leita að einmana ungmennafélögum í höfuðstaðnum. Hann bjó svo vel að vera prentari og sendi út fjölmörg prentuð bréf til að boða þeim fagnaðarerindið. Hér kemur sýnishorn af bréfi því sem hann sendi ungmennafélögum sem frést hafði um en höfðu ekki verið tilkynntir: Við höfum frétt á skotspónum að þú sért félagi í Umf. [nafn félags] og sendum þér því hérmeð bréf þau er við nú sendum öllum þeim ungmennafélögum utan af landi sem hér dvelja og sem stjórnir félaganna hafa sent okkur nöfn á. Frá stjórn þíns félags höfum við ekkert fengið en þar sem við vonum að það sé rétt að þú sért félagi í þessu félagi biðjum við þig að taka með þér á fundinn alla þá úr þínu félagi sem þú veist að dvelja nú hér í bænum eða láta undirritaðan vita í síma 948 eða 1391, sem allra fyrst nöfn þeirra og dvalarstað. Með bestu kveðjum. F. h. héraðsstjórnarinnar Guðbjörn Guðmundsson32 Fregnmiði auglýsir Farfuglafund UMSK í febrúar 1924.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==