Aldarsaga UMSK 1922-2022

67 tveggja tíma hlé og þá ýmist skoðuðu menn staðinn eða gengu til leikja í gjánni. Síðan tóku við talsverð ræðuhöld ýmissa merkismanna en samkomunni var slitið klukkan sex. Héldu menn þá heim glaðir í lund. Veður var hið besta og átti það sinn þátt í ánægjunni. Merkilegast fannst mönnum að samkoman hófst og endaði á tilsettum tíma sem þótti fremur óvanalegt. Samfundir í sveitinni Samfundir UMSK héldu velli lengi vel en þeirra er lítt getið í frásögnum. Eina slíka getur þó að líta í Hreiðari heimska, blaði Umf. Drengs eftir formanninn, Bjarna Ólafsson í Vindási. Þar segir hann frá samfundi sem haldinn var í Árnesi við Laxá í Kjós 12. júní 1932. Þangað komu 35 félagar úr Velvakanda, þar af 12 úr yngri deild en ekki nema tveir frá Aftureldingu. Svo voru á að giska 40 fundarmenn úr röðum heimamanna en erfitt var að áætla fjölda þeirra „því þeir voru yfirleitt mjög flöktandi á fundinum, sífellt að koma og fara,“ sagði Bjarni Ólafsson. Eftir setningarræðu formannsins voru vikivakar stignir um stund. Sól skein í heiði og bjuggust menn til fjallgöngu á Reynivallaháls. Fyrst þurfti að ferja alla yfir ána á bátkænu og gekk það slysalaust. Svo var gengið á Hálsinn og staðnæmst þar á klettarana með hengiflug á báðar hendur. Þar komust fundarmenn í mikla stemmingu því hver ræðan rak aðra. Allir stjórnarmenn UMSK töluðu, þau Gestur Andrésson, Rannveig Þorsteinsdóttir og Grímur Norðdahl. Þar að auki Jón Þórðarson, Ólafur Þorsteinsson, Loftur Guðmundsson og Bjarni Ólafsson, allt miklir ungmennafélagsfrömuðir. Á leiðinni til baka voru dansaðir nokkrir vikivakar á sléttum melhól en síðan hoppaði, skoppaði, velti og renndi fólkið sér niður grasbrekkurnar þar til komið var á jafnsléttu. Kominn var galsi í mannskapinn og ekki gætt mikillar varkárni við ferjustarfið til baka. Það fór líka svo að báturinn sökk með manni og mús vegna ofhleðslu en það kom lítið að sök því rétt vatnaði yfir borðstokka þegar kjölurinn nam við botn. Svo var sest að kaffidrykkju utandyra og þeir sprækustu skemmtu sér við leiki og íþróttir. Lokaorðin eru tekin beint úr frásögn Bjarna: Það var nú orðið áliðið dags en samt var ekki allt komið fyrir því. Fólkið vildi fá sér snúning áður en það skildi. Fór því allur hópurinn, utan yngri deild úr Velvakanda sem kvaddi og hélt heimleiðis, upp á hanabjálka í húsi Útvegsbankans og steig þar dans við dillandi grammófónsmúsík fram eftir kvöldinu. En skilnaðarstundin nálgaðist. Klukkan á tíunda tímanum var hætt að dansa. Velvakendur felldu tjöld sín og stigu í bílana. Allar hendur voru á lofti til kveðju. Þakklætisorð og árnaðaróskir gengu frá manni til manns. Bílarnir runnu af stað. Skemmtifundinum var lokið.27 Önnur saga samfundar birtist í árlegri skýrslu ferðanefndar Velvakanda fyrir árið 1934. Sá fundur mun hafa verið á vegum Aftureldingar og þangað fóru Velvakendur en Drengir létu ekki sjá sig af einhverjum ástæðum. Það var hinn ötuli formaður ferðanefndar Velvakanda, Rannveig Þorsteinsdóttir, síðar alþingismaður, sem ritaði frásögnina og fer hún hér á eftir óstytt: 2. ferð. Samfundur 10. júní 1934, 20 þátttakendur. Sex manns fóru á laugardagskvöldið og tjölduðu á Þverárkotseyrum. Hafði það fólk sólað sig þegar hinir komu um kl. 10. Veðrið var dásamlegt. Glampandi sólskin og steikjandi hiti allan daginn. Tímanum fram til hádegis var varið til þess að ganga inn að Tröllafossi og skoða hann. Eftir máltíð hvíldust menn og tóku sólbað en þá tóku „Moskóvítar“ að koma og þegar beðið hafði verið nokkra stund eftir að Kjósarmenn kæmu var fundur settur af Grími S. Norðdahl. Fundurinn var stuttur en síðan var farið í leiki, dansaðir vikivakar og fleira. Afturelding veitti vel, mjólk og kökur. Um kl. 6 var farið að hugsa til heimferðar og kvöddust menn ánægðir og þakklátir fyrir daginn, þó sumir væru sólbrenndir og flestir hafi saknað Kjósarmanna.28 Samfundir í skógi og bæ Eftir þessa velheppnuðu samfundi var eins og einhver uppdráttarsýki hefði gert vart við sig því þeir voru ekki haldnir oftar utandyra með þessu sniði. Samfundurinn sem Velvakandi átti að halda sumarið 1936 féll niður af ókunnum orsökum en þess í stað var ákveðið að halda Eiríkur J. Eiríksson var formaður UMFÍ í þrjá áratugi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==