650 sett fyrir miðjum endum svæðisins, og eru þau ekki annað en stöng, ca. 3 m. löng, stungin niður í jörðina, og á efri endann er fest gjörð, sem liggur lárétt og skal hún snúa inn að svæðinu, það er karfan. Þvermál hennar skal vera 50 cm., og þegar kept er skal festa netpoka eða strigapoka við gjörðina og situr knötturinn þar þá fastur, en sjálfsagt er að hafa pokann þannig, að hægt sé að opna botninn fljótlega.“963 Til samanburðar eru körfureglurnar þessar á okkar dögum: „Körfurnar skulu vera net, riðin af hvítum þræði og hanga niður úr járnhringjum, sem eru að innan 45 sm að þvermáli. Hringarnir skulu málaðir gulir á lit. Netin skulu gerð þannig, að þau tefji lítilsháttar fall knattarins, um leið og hann fellur gegnum körfuna. Netin skulu vera 60 sm síð.“964 Eftir að körfuboltanum skolaði á Íslandsfjörur efldist áhuginn á þessari nýju íþróttagrein jafnt og þétt, námskeið voru haldin, æfingar stundaðar og hún var kynnt og iðkuð í Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni. Eftir seinni heimsstyrjöld jukust vinsældir körfuboltans enn frekar, meðal annars í tengslum við veru bandarísks herliðs á Keflavíkurflugvelli, enda hefur íþróttagreinin ævinlega verið öflug á Suðurnesjum. Fyrsta Íslandsmeistaramótið í karlaflokki fór fram árið 1952. Reykjavíkurfélögin ÍR og KR voru sigursæl fyrstu áratugina, eftir 1980 hömpuðu Njarðvíkingar titlinum oft en lið af félagssvæði UMSK hefur enn ekki náð að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Karlalandsliðið lék sinn fyrsta landsleik árið 1959, við Dani, og Körfuknattleikssamband Íslands (KKÍ) var stofnað á þorra 1961, Bogi Þorsteinsson var kosinn fyrsti formaður sambandsins. Körfuknattleiksmaður hefur tvisvar sinnum verið kjörinn íþróttamaður ársins, Kolbeinn Pálsson fyrir árið 1966 og Jón Arnór Stefánsson fyrir árið 2014. Íslandsmeistaramótið í kvennaflokki fór fyrst fram árið 1963, körfubolti kvenna var lengi hornreka innan íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, það kemur meðal annars fram í tímaritinu Skinfaxa árið 1981 en þar segir: „Körfuknattleikur kvenna hefur verið verulega vanræktur hérlendis, enda nú aðeins þrjú félög í fyrstu deild kvenna og þau öll úr Reykjavík. Áhuginn virðist þó hafa aukist mikið hjá yngri stúlkunum og smám saman ætti að nást upp meiri breidd en nú er.“965 Síðustu áratugina hefur körfuknattleikur, bæði karla, kvenna og yngri iðkenda, átt vaxandi fylgi að fagna í einstökum félögum innan UMSK eins og hér verður rakið. Ekkert félag innan sambandsins iðkar eingöngu körfuknattleik en í UMSK eru sex fjölgreinafélög: Breiðablik, HK, Afturelding, Stjarnan, Ungmennafélag Álftaness og Grótta, þau hafa öll lagt stund á körfubolta, sum í áratugi, önnur um skamma hríð. Það síðarnefnda á til dæmis við um Gróttu á Seltjarnarnesi, þar sem körfuboltaæfingar hófust um 1970 og voru iðkaðar um skeið, síðan einbeitti félagið sér að öðrum íþróttagreinum með góðum árangri. Hér verður greint frá körfuboltadeildum í einstökum félögum UMSK, stofnár deildanna kemur fram í fyrirsögnum kaflanna. Blikakörfur – 1968 Það var fyrst haustið 1966 að körfuboltinn skaut rótum á félagssvæði UMSK en þá hófu nokkrir Breiðabliksmenn æfingar í Íþróttahúsi Kópavogsskóla. Þeir tóku þátt í Íslandsmótinu ári síðar þar sem þeir lentu í þriðja sæti af fimm liðum. Einnig kepptu þeir undir merkjum UMSK á landsmótinu á Eiðum árið 1968 og höfnuðu þar í öðru sæti, það var í fyrsta skipti að keppt var í körfubolta á landsmóti UMFÍ. Þá um haustið, 27. október, var körfuknattleiksdeild Breiðabliks stofnuð og var Kristinn Magnússon kjörinn formaður deildarinnar. Næstu árin voru Breiðablik og Grótta á Seltjarnarnesi einu félögin innan UMSK sem iðkuðu körfuknattleik. Aðstöðuleysið í Kópavogi var stærsta ljónið í veginum fyrir framförum en sviðsmyndin gjörbreyttist með tilkomu íþróttahússins í Kársnesi árið 1970, sex árum síðar vann meistaraflokkur karla í Breiðabliki sig upp í 1. deild en hafði verið í 3. deild tveimur árum fyrr. Árið 1983 kom íþróttahúsið í Digranesi til sögunnar, Breiðablik æfði einnig þar og með bættum húsakosti tókst að byggja upp starfið í yngri flokkunum og körfuknattleikur kvenna kom einnig til sögunnar. Síðustu áratugina hefur vegur körfuknattleiks vaxið stöðugt innan Breiðabliks, einkum yfir vetrarmánuðina, stöðunni var lýst þannig í ársskýrslu UMSK fyrir árið 2018: „Meistaraflokkur kvenna í körfubolta voru nýliðar í úrvalsdeild og héldu þær sæti sínu í deildinni og voru ekki langt frá því að komast í úrslitakeppni. Meistara-
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==