Aldarsaga UMSK 1922-2022

648 Úrslitaleikirnir fóru fram í Laugardalshöll og þar hófu fyrirliðarnir og systkinin Guðný og Skúli bikarana á loft, þau eru börn Sigrúnar Gunnarsdóttur og Gunnsteins Skúlasonar, þess þekkta handknattleiksmanns. Guðný skoraði sigurmarkið á örlagastundu og sagði eftir leikinn að það hefði verið kominn tími til að vinna bikarinn, kvennaliðið hefði verið þrisvar sinnum í úrslitum á fjórum árum. Í karlaliðinu var Sigurður Bjarnason markahæstur Stjörnumanna. Tveir sigurbikarar voru í höfn, þeir voru besta sumargjöfin sem Garðbæingar gátu hugsað sér á þessum fyrsta sumardegi. Þegar nær dró aldamótum tók Stjörnukvennaboltinn að blómstra verulega og um skeið tefldi félagið fram liðum bæði í 1. og 2. deild. Stúlkurnar sópuðu að sér titlum sem hér segir, Íslandsmeistarar í 1. deild: 1991, 1995, 1998, 1999, 2007, 2008 og 2009. Bikarmeistarar: 1989, 1996, 1998, 2005, 2008, 2009, 2016 og 2017. Árið 1998 unnu Stjörnustúlkurnar „þrefalt“, deild, bikar og Íslandsmeistaratitilinn. Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ, sagði af þessu tilefni um kvennaliðið: „Það fer ekki á milli mála að þetta er flaggskipið okkar í íþróttum. Þessir úrslitaleikir hafa haft mikil áhrif á bæjarbraginn eins og sést vel á mætingunni, fullt hús og að mestu Garðbæingar. Frammistaða stúlknanna hefur mikið að segja með að þjappa bæjarbúum saman og skapa stemmningu í íþróttum. Hún hefur magnast með hverjum leik og nær hámarki núna og ég held að ég hafi aldrei upplifað aðra eins stemmningu í handboltanum.“956 Steinar J. Lúðvíksson skrifar um stjörnur kvennaboltans á 10. áratugnum: „Stjörnurnar í Stjörnunni voru örvhenta skyttan Ragnheiður Stephensen, Erla Rafnsdóttir og Herdís Sigurbergsdóttir sem átti einstakan feril sem handknattleikskona. Hún meiddist illa í landsleik en með ótrúlegu viljaþreki og dugnaði tókst henni að fá sæmilega bót meina sinna og komast á fjalirnar að nýju.“957 Eftir aldamótin 2000 tók að halla undan fæti hjá karlaliði Stjörnunnar af ýmsum ástæðum og mótsgestum fór fækkandi. Þá blómstraði hinsvegar kvennaliðið og áhorfendur flykktust frekar á leiki í kvennaboltanum, hann var þá borinn uppi af stúlkum sem voru aldar upp hjá félaginu og sýndu miklar framfarir og yfirburði. Þegar þjálfari stúlknanna fór í tveggja mánaða leikbann árið 2008 vegna ummæla sinna um dómara tvíefldust stúlkurnar í baráttuanda sínum, unnu 15 leiki í röð og urðu bæði Íslands- og bikarmeistarar.958 Ári síðar lönduðu þær öllum titlum sem voru í boði, urðu deildarmeistarar, bikarmeistarar og Íslandsmeistarar, auk þess sem þær sigruðu í meistarakeppni HSÍ þá um haustið.959 Árið 2005 var frekar dauft hljóð í karlaliði Stjörnunnar sem hafði gengið illa á keppnismótum. Við það varð ekki unað og ákveðið var að snúa vörn í sókn í orðsins fyllstu merkingu. Lögð var áhersla á að fá nýja og öfluga leikmenn til liðs við Stjörnuna, tveir Georgíumenn voru sóttir til Vestmannaeyja: stórskyttan Tite Kalandadze og markvörðurinn Roland Eradze. Varð nokkur fjölmiðlatitringur vegna þessa strandhöggs Garðbæinga í Eyjum en árangurinn skilaði sér fljótt: Tite var valinn leikmaður ársins 2005 í 1. deild og Roland besti markmaðurinn. Auk þess var Patrekur Jóhannesson snúinn heim úr atvinnumennsku. Hann hafði tekið út sinn þroska sem handknattleiksmaður hjá Stjörnunni, lék með sínum gömlu félögum á ný og var einn af lykilmönnum liðsins, bæði í vörn og sókn. Stjarnan varð bikarmeistari 2006 og 2007 og Patrekur, sem átti við meiðsli að stríða, lauk keppnisferli sínum með bikarsigri árið 2007 þegar Kristján Halldórsson var þjálfari liðsins. Patrekur var síðan ráðinn þjálfari liðsins árið 2008 þegar efnahagshrunið dundi yfir. Tvísýnt var hvort hægt væri að halda karlaliðinu í efstu deild, það tókst en ári síðar kom skellurinn: Karlalið Stjörnunnar féll úr efstu deild þar sem liðið hafði leikið í rúm 20 ár, fór svo að liðið varð heil sjö ár í 2. deild. Karlalið Stjörnunnar var fyrsta liðið innan UMSK sem varð bikarmeistari í karlaflokki, það var árið 1987. Á árunum 2006 og 2007 urðu þeir aftur bikarmeistarar, þá létu margir eftirminnilegir leikmenn að sér kveða, Tveir Stjörnubikarar í höfn á sumardaginn fyrsta árið 1989. Fyrirliðar voru Skúli og Guðný Gunnsteins- og Sigrúnarbörn.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==