Aldarsaga UMSK 1922-2022

647 Viðar Símonarson, Magnús Teitsson, Aðalsteinn Eyjólfsson, Atli Hilmarsson, Skúli Gunnsteinsson, Sebastian Alexandersson, Viggó Sigurðsson, Valdimar Grímsson, Rúnar Sigtryggsson og Geir Hallsteinsson. Árið 1981 lék meistaraflokkur karla í 3. deild og hugur í Garðbæingum að bæta úr þeirri skák. Gunnar Einarsson gekk þá til liðs við Stjörnuna, hann hafði áður leikið með FH og varð síðan einn fyrsti íslenski handknattleiksmaðurinn sem fór í atvinnumennsku erlendis, lék með Göppingen í Vestur-Þýskalandi í nokkur ár þar sem félagi hans úr FH, Geir Hallsteinsson, hafði verið atvinnumaður. Það kom mörgum á óvart þegar Gunnar, þessi fyrrum FH-ingur, sneri heim og gekk til liðs við Stjörnuna. Hann komst að þeirri niðurstöðu að tvennt væri nauðsynlegt til „að hífa liðið upp“ eins og hann orðaði það síðar í viðtali og hélt áfram: „Fyrra atriðið var að liðið yrði að æfa meira en allir aðrir og hitt atriðið var að ég yrði að hafa óbilandi trú á leikmönnunum, sama hvað þeir hétu og hvað þeir gátu.“955 Gunnar þjálfaði liðið í tíu ár með hléum, lék sjálfur með liðinu fyrsta árið, félagi hans úr FH, Viðar Símonarson, gekk einnig til liðs við Stjörnuna og munaði um minna. Árangurinn lét ekki á sér standa: Stjarnan afrekaði það að vinna sig úr 3. deild upp í efstu deild á tveimur árum og lék meðal þeirra bestu í fyrsta skipti árið 1983. Þar hafnaði Stjarnan í 4. sæti, í lokaumferð mótsins skoraði Eyjólfur Bragason 19 mörk, með dyggri aðstoð félaga sinna, og náði því takmarki að skora 100 mörk á leiktíðinni. En vistin í fyrstu deild skapaði ákveðið „vandamál“ fyrir Stjörnuna: Nýja íþróttamiðstöðin í Ásgarði var ekki fullbúin og völlurinn ekki samþykktur sem gildur keppnisvöllur. Stjörnumenn brugðu á það ráð að leika heimaleiki sína á Selfossi, þangað voru skipulagðar sætaferðir á keppnisdögum, síðar færðist heimavöllurinn í Digranes í Kópavogi. Mikil keppnisgleði myndaðist innan Stjörnunnar kringum handboltann á 9. áratugnum. Boltinn varð hluti af bæjarímyndinni og stolt bæjarbúa, starfið í yngri flokkunum blómstraði einnig sem aldrei fyrr. Sumardagurinn fyrsti árið 1989 var einstaklega eftirminnilegur fyrir Garðbæinga en þá urðu kvenna- og karlalið Stjörnunnar bikarmeistarar sama daginn, eftir viðureignir við FH. Á 9. áratugnum komst kvennahandboltinn innan Stjörnunnar á mikið flug og árið 1986 vann félagið sig upp í 1. deild undir stjórn Gústafs A. Björnssonar. Hér má sjá fyrsta hópinn sem lék í 1. deild, í fremri röð eru, talið frá vinstri: Drífa Gunnarsdóttir, Erla Rafnsdóttir, Ingibjörg Grétarsdóttir, Fjóla Þórisdóttir, Guðný Gunnsteinsdóttir og Hrund Grétarsdóttir. Í aftari röð eru, talið frá vinstri: Margrét Theodórsdóttir þjálfari, Elsa Ingjaldsdóttir, Oddný Teitsdóttir, Anna Guðjónsdóttir, Ingibjörg Andrésdóttir, Rósa Gunnarsdóttir, Bryndís Hákonardóttir, Magnús Teitsson aðstoðarþjálfari og Sigrún Gunnarsdóttir liðsstjóri.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==