Aldarsaga UMSK 1922-2022

641 Jói formaður segir fréttir Jóhann Guðjónsson var formaður handknattleiksdeildar UMFA í 13 ár, 1990–2003. Þetta var mikið blómaskeið í sögu deildarinnar, kastljós samfélagsins beindist mjög að leikmönnum meistaraflokks karla og þeim sem störfuðu kringum handknattleikinn innan félagsins. Jóhann var ævinlega kallaður Jói formaður á þessum árum og er jafnvel enn, hann fékk félagsmálaskjöld UMSK árið 2002. Í ársskýrslu Aftureldingar fyrir árið 1992 ritaði Jóhann ítarlega um það ár og verða skrif hans rakin hér: „Stjórnin hóf störf sín snemma sumars ´92 og var strax ráðist í það verkefni að ráða þjálfara fyrir meistaraflokk félagsins. Til starfsins var ráðinn Guðmundur Guðmundsson, fyrrum þjálfari og leikmaður Víkings ásamt því að hafa leikið með landsliðinu til margra ára við góðan orðstýr. … … Handknattleiksdeildin starfrækti handboltaskóla fyrir börn á aldrinum 6 til 10 ára um mánaðarmótin ágúst/september, vikunámskeið. Tilgangurinn var að efla áhuga yngstu barnanna á handboltaíþróttinni. 110 krakkar mættu þessa viku, en kennslan fór fram undir handleiðslu Siggeirs Magnússonar íþróttakennara. Námskeiðið endaði með heljar grillveislu. Ljóst er að þessi hópur þarf frekari aðhlynningu og að á næsta starfsári þarf að huga að stofnun 7. flokks karla og 6. flokks kvenna. … … Axel Axelsson fyrrum landsliðsmaður og atvinnumaður í Þýskalandi til margra ára, þjálfar annan flokk karla. 2. flokkur er nýhættur þjálfun og kemur það til af því að Axel sá engan tilgang í því að vera með þá áfram vegna áhugaleysis strákanna og einnig að þeir hafa lokið þátttöku í Íslandsmóti. Strákarnir bera við vondum æfingatímum og of fáum í viku. … Handboltadeildin starfrækir 3 kvennaflokka. 5. flokk kvenna þjálfar Sigrún Másdóttir. Hún er leikmaður með 1. deildar liði Stjörnunnar í Garðabæ, en spilaði upp alla yngri flokkana fyrir hönd UMFA. … Svava Ýr Baldvinsdóttir stjórnar 2. flokki kvenna, en með honum æfa einnig stúlkur úr 3. flokki. Það hefur enginn 3. flokkur verið vegna fámennis … … Fyrir keppnistímabilið ´91–´92 var Þorbergur Aðalsteinsson landsliðsþjálfari ráðinn þjálfari fyrir meistaraflokk UMFA. Stjórn Handknattleiksdeildar UMFA vonaðist til með ráðningu Þorbergs að fá til liðs við sig unga og efnilega leikmenn sem virkilega vildu æfa undir stjórn landsliðsþjálfarans, en raunin varð önnur. Fáir komu og liðið hafnaði í 4. sæti það árið. … Fyrir síðasta leiktímabil var Guðmundur Guðmundsson ráðinn þjálfari eins og áður er getið. Með Guðmundi kom fjöldi leikmanna sem hafa styrkt liðið svo um munar. Eftir á að hyggja teljum við að Guðmundur þekki persónulega betur til leikmanna en Þorbergur sem er jú landsliðsþjálfari og þar á undan mestmegnis spilað erlendis, þannig að þau persónulegu kynni vegi meira en landsliðsþjálfaratitillinn. … … Ef Handknattleiksdeild Aftureldingar kemst í 1. deild hlýtur markmið næstu tveggja til þriggja ára að vera að festa sig í deildinni. Það tók okkur 33 ár að komast upp í 1. deild. Stöndum öll í sameiningu vörð um 1. deildar sætið, svo það taki okkur ekki önnur 33 ár að endurheimta það. Handboltakveðjur, Jóhann Guðjónsson, formaður.“939 Jóhann Guðjónsson (til vinstri) og Bjarki Sigurðsson stóðu í stafni þegar karlalið Aftureldingar sigldi þremur titlum í höfn árið 1999. Jóhann var formaður handknattleiksdeildarinnar og Bjarki fyrirliði keppnisliðsins. Raggi Óla tók myndina árið 2019, hún birtist í 110 ára afmælisblaði UMFA sem kom út á því ári.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==