Aldarsaga UMSK 1922-2022

639 var Bergsveinn Bergsveinsson markvörður Aftureldingar sem varði 21 skot. Bergsveinn hafði áður leikið með FH og eftir leikinn var hann spurður að því hvort það hefðu ekki verið blendnar tilfinningar að taka á móti bikarnum á sínum gamla heimavelli, hann svaraði: „Jú, það var það. Ég er alinn upp í Hafnarfirðinum og bý hérna og vinn enn í dag. Ég er því mjög tengdur þessu enn þá og þekki mikið af Hafnfirðingum og fólkinu sem starfar í kringum handboltann í Hafnarfirði. Þetta var því mjög sérstakt og hálf furðulegt.“935 Veturinn 1998–1999 gekk efsta deild karla undir nafninu Nissan-deildin, fyrirliði Aftureldingar, Bjarki Sigurðsson, var drjúgur við markadráttinn, þegar hann hafði skorað 84 mörk fór þessi vísa á flot í sveitinni: Úr hendi Bjarka boltinn valt berast frægðarsögur; mörkin eru allt í allt áttatíu og fjögur. En Bjarki lét ekki staðar numið við 84 mörk, hann tvöfaldaði þá tölu og rúmlega það og varð markakóngur deildarinnar. Glæsileg frammistaða liðsins styrkti ímynd sveitarfélagsins, Mosfellsbær varð þekktur sem íþróttabær og einnig sem „kjúklingabærinn“. Sú nafngift vísaði til þess að vagga alifuglaræktar á Íslandi stóð í Mosfellsbæ og mosfellska kjúklingafyrirtækið Reykjagarður studdi handboltastarfið dyggilega, eigandi þess, Bjarni Ásgeir Jónsson, var varaformaður handknattleiksdeildarinnar um skeið. Á nýrri öld var karlaliðið að mestu byggt upp á heimamönnum, þátttaka þeirra í úrvalsdeildinni varð ekki linnulaus sigurganga og hefur félagið ýmist leikið í úrvalsdeild eða 1. deild. Síðustu áratugina hefur öflugt ungmennastarf verið innan handknattleiksdeildar UMFA, um starfið árið 2013 segir í heimild: „Afturelding á nokkur efnileg lið og einstaklinga í mörgum árgöngum. Nokkrir árgangar eru meðal þriggja bestu liða á landinu. Þjálfarar eru með góð tök á sínu starfi og sínum flokkum. Starfið er í föstum skorðum og iðkendafjöldi góður. … Aftureldingarkrakkar eru almennt séð félaginu til sóma bæði innan og utan vallar. Lítið er um „leiðinleg“ mál eða óæskilega hegðun.“936 Árið 2021 var handknattleiksdeildin sú þriðja stærsta innan félagsins með 12% iðkenda. Í nýlegri ritgerð um deildina segir meðal annarra orða: „Barna- og unglingastarf handknattleiksdeildar Aftureldingar (BUR) er í miklum blóma og hefur umgjörðin í kringum starfið vaxið mikið á síðustu árum. Á tímabilinu 2018–2019 iðka um 280 börn á aldrinum 6–18 ára íþróttina og áætlanir gera ráð fyrir að iðkendur verði yfir 300 á tímabilinu 2019–2020. … Handknattleiksdeild Aftureldingar starfrækir einnig Handboltaakademíu í samstarfi við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ.“937 Þessi mynd var tekin í Laugardalshöll árið 1999 þegar Afturelding varð bikarmeistari í handknattleik karla. Hér má sjá hluta af handknattleiksliði Aftureldingar sem gerði garðinn frægan á 5. og 6. áratugnum, þegar íþróttabragginn á Hálogalandi var helsti vettvangur handknattleiksins. Á myndinni eru talið frá vinstri: Jón M. Guðmundsson, Þórður Guðmundsson, Halldór Sigurðsson, Halldór Lárusson, Tómas Lárusson og Helgi V. Jónsson. Aðgöngumiði á bikarúrslitaleikinn 13. febrúar 1999 þegar Afturelding fagnaði glæsilegum sigri.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==