Aldarsaga UMSK 1922-2022

617 Mikið hóf var haldið í Hlégarði þegar Hörður fagnaði hálfrar aldar afmæli sínu árið 2000. Félaginu bárust margar gjafir, meðal annars stafræn myndavél frá UMSK. „Saga Harðar og Harðarfélaga“ eftir Helga Sigurðsson kom út árið 2013, sjö árum síðar náði félagið sjötugsaldri, þá skyldi blásið til afmælisfagnaðar, af honum varð þó ekki vegna heimsfaraldursins sem herjaði á land og lýð. Á aldarafmæli UMSK árið 2022 gegndi Margrét Dögg Halldórsdóttir formennsku í Herði, hún sat þá einnig í varastjórn UMSK. Hestamannafélög í Garðabæ og Kópavogi Í þessum kafla verður fjallað um þrjú hestamannafélög, þau eru: a) Hestamannafélagið Andvari í Garðabæ sem var við lýði á árunum 1965–2012. b) Hestamannafélagið Gustur í Kópavogi sem starfaði einnig á árunum 1965–2012. c) Hestamannafélagið Sprettur sem varð til árið 2012 við sameiningu Andvara og Gusts. Andvari Árið 1965 bjuggu 1850 manns í Garðahreppi eins og hann var og hét.877 Nokkrir hreppsbúar höfðu áhuga á hestamennsku en í vaxandi þéttbýli var ekki á vísan að róa hvað varðaði örugga hagabeit og tryggt hesthúsaskjól. Skortur á hrossabeit var einn aðalhvati þess að eftirfarandi auglýsing fór á flot: Hestamenn, Garðahreppi. Ákveðið hefur verið að stofna hestamannafélag í Garðahreppi. Stofnfundur verður haldinn mánudaginn 5. apríl n.k. [1965] í baðstofunni í samkomuhúsinu, Garðahreppi. Undirbúningsnefndin.878 Stofnfélagar voru 41, fundurinn var haldinn í Garðaholti eins og samkomuhúsið hét, Helgi K. Hjálmsson var kosinn formaður og var vitnað til hans í viðtali þar sem rætt var um hesthúsaaðstöðu í Garðahreppi: „Sjálfur segist Helgi hafa verið með hesta í gömlum lambakofa úti í hrauni en notkun slíkra kofa var algeng á þessum tíma. Menn hafa kúldrast í þessum skúrum og verið með hesta sína hingað og þangað á beit.“879 Á fyrsta stjórnarfundi félagsins vorið 1965 var samþykkt að félagið skyldi heita Andvari, það er dvergsheiti úr norrænni goðafræði og einnig nafn á flugvökrum gæðingi frá Fornahvammi í Norðurárdal, fæddur árið 1953. Eitt aðalhagsmunamál félagsmanna var að fá hagabeit á heimaslóðum, úr því rættist þegar Andvari fékk beitarland í Hofsstaðamýri og Arnarnesmýri, þá þurfti að girða hagana og lenti það stundum á sömu félagsmönnunum. Vetraraðstaðan var hinsvegar óleyst vandamál, svínahúsi í Ásgarðslandi var breytt í hesthús en það leysti ekki málin til frambúðar. Húsaskorturinn olli því að deyfð færðist yfir félagsstarfið, sumir félagsmenn færðu sig yfir í önnur félög, einkum til Sörla í Hafnarfirði og Gusts í Kópavogi. Framtíð Andvara var alls ekki björt, árið 1973 mættu einungis sex félagar á aðalfundinn sem var haldinn í hvítri landróverbifreið. Þrátt fyrir fámennið voru fundarmenn staðráðnir í að láta félagið ekki lognast út af.880 Til að leysa húsnæðisvandann var helst horft til Hnoðraholts í landi Vífilsstaða, ekki langt frá athafnasvæði Gusts í Kópavogi. Andvaramenn fögnuðu þessari hugmynd og til að leggja áherslu á málið fjölmenntu þeir ríðandi á kjörstað í bæjarstjórnarkosningunum vorið 1978. Hafist var handa við vegagerð um hverfið og stefnt á að reisa þar 25 hesthús. Þá kom skyndilega afturkippur í málið, leyfi fyrir hesthúsabyggð í Hnoðraholti var afturkallað, þar átti að rísa íbúðabyggð, ekki hesthúsabyggð. Hinsvegar gætu Andvaramenn fengið rými fyrir hús sín á svonefndum Kjóavöllum. Einhver hafði á orði að verið væri að vísa Andvara til fjalla og enn kom til úrsagna úr félaginu.881 En fljótlega gerðu Andvarar sér grein fyrir að Kjóavellir væru afbragðskostur, þegar til framtíðar var litið, og hófu uppbyggingu á hesthúsum og öðrum mannvirkjum þar, göturnar í hesthúsahverfinu voru nefndar eftir hestum félagsmanna. Gerður var þjónustusamningur milli Garðabæjar og Andvara um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Kjóavöllum, félagið byggði eitt húsanna sem var bæði hesthús og félagsheimili, það Baltasar Samper teiknaði félagsmerki Andvara, hann var einn af stofnfélögunum og síðar gerður að heiðursfélaga í Andvara.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==