Aldarsaga UMSK 1922-2022

616 konur skipulögðu kvennareið, í fyrsta skipti árið 1981, árið 1988 svöruðu karlarnir með karlrembureið og var þá oftast þeyst í Kollafjarðarrétt. Síðar voru þessar reiðferðir sameinaðar undir nafninu kynjareið og þar á eftir kom náttúrureið til sögunnar. Kjötsúpureið var á dagskrá um skeið, í fyrsta skipti árið 1995. Þá var riðið frá Varmárbökkum í Fólkvang á Kjalarnesi þar sem sest var að kjötsúpuveisluborði. Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ (FMOS) og Hestamannafélagið Hörður hófu samstarf árið 2014 og varð hestafræði valgrein í skólanum. Sú samvinna þróaðist þannig að hægt er að ljúka stúdentsprófi af hestakjörsviði við skólann. Harðarfélagar hafa unnið að því að starfrækja svonefnt félagshesthús þar sem börn og unglingar geta fengið aðstöðu fyrir fáka sína. Með auknu fjárframlagi frá Mosfellsbæ árið 2021 var Harðarmönnum gert kleift að bjóða upp á þennan góða kost og var þessari hugmynd hrint í framkvæmd um áramótin 2021/2022. Harðarferð 1974 Frásögn Guðmundar Jónssonar á Reykjum Árið 1974 var landsmót hestamanna haldið í fyrsta skipti á Vindheimamelum í Skagafirði. 25 manna hópur úr Hestamannafélaginu Herði fór ríðandi norður á mótið með hátt í eitt hundrað hesta. Reiðmenn voru nokkrum fleiri til baka, þar á meðal tveir úr póstferðinni norður á Vindheimamela það sama sumar. Fararstjóri í Harðarferðinni var Aðalsteinn Þorgeirsson, fyrrverandi bústjóri á Korpúlfsstöðum. Ferðin tókst með ágætum, engin óhöpp eða slys urðu, hvorki á mönnum né málleysingjum. Eldhúsbíll frá Sigurði Snæland Grímssyni sérleyfishafa í Mosfellssveit var með í för, þátttakendur voru í fullu fæði alla ferðina og mótsdagana, auk þess sem bíllinn flutti farangur ferðafólksins. Dagleiðirnar voru sem hér segir: 6. júlí. Mosfellingar og Kjalnesingar safnast saman við Hraðastaðarétt í Mosfellsdal, síðan var riðið upp í Bringur og þvert yfir Mosfellsheiði í Skógarhóla. Þangað komu nokkrir ferðafélagar ríðandi úr Kjósinni. 7. júlí. Riðið frá Skógarhólum yfir Kaldadal í Húsafell. 8. júlí. Haldið frá Húsafelli að Arnarvatni stóra, síðan yfir Stórasand og Grímstunguheiði að Grímstungu í Vatnsdal. Var þetta lengsta dagleið ferðarinnar. 9. júlí. Frá Grímstungu var haldið að Gili í Svartárdal, skammt frá félagsheimilinu Húnaveri. 10. júlí. Frá Gili var riðið yfir Vatnsskarð á mótstað á Vindheimamelum. 11.–14. júlí. Landsmót hestamanna á Vindheimamelum. 15. júlí. Haldið heim á leið, fyrsta dagleiðin var frá Vindheimamelum í Stafnsrétt, innst í Svartárdal. 16. júlí. Frá Stafnsrétt var farið yfir Blöndu á vaði og haldið að Hveravöllum. 17. júlí. Riðið áfram suður Kjöl og í Hvítárnes, austan við Langjökul. 18. júlí. Frá Hvítárnesi var riðið suður að Geysi í Haukadal. 19. júlí. Frá Haukadal var haldið að Laugarvatni og áfram að leitarmannakofanum í Kringlumýri á Lyngdalsheiði. Síðan niður Driftir og að Úlfljótsvatni, þar bjuggu hjónin Birgir Hartmannsson og Lára Bjarnadóttir. 20. júlí. Frá Úlfljótsvatni var farið upp Jórukleif í Grafningi, síðan yfir Mosfellsheiði áleiðis í Mosfellssveit, Kjalarnes og Kjós. Langferð þessi á hinu merka þjóðhátíðarári var lengi í minnum höfð. Veður var gott allan tímann, gist var í tjöldum á leiðinni norður en oftast í skálum á suðurleið. Guðmundur Jónsson stýrir Snækolli frá Reykjum á léttikerru. Myndin er tekin á hestamannamóti á Skógarhólum árið 1970.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==