Aldarsaga UMSK 1922-2022

602 kvæmdastjóra UMFÍ, og féll þeim í skaut sem hélt unglingalandsmótið hverju sinni. Í Skinfaxa, málgagni UMFÍ, er sagt þannig frá lokaathöfninni: „11. Unglingalandsmóti UMFÍ í Þorlákshöfn var slitið á miðnætti 3. ágúst. Athöfnin var mjög glæsileg í alla staði, stillt og þurrt veður og stemmingin einstök. Mikið fjölmenni var við lokaathöfnina og mörg þúsund áhorfendur nutu stundarinnar. Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, flutti keppendum og gestum kveðju og þakkaði framkvæmdaaðilum fyrir frábært og framúrskarandi framtak. Það var eindóma álit manna að vel hefði tekist til, umgjörð mótsins einstök, gestir mótsins voru um tíu þúsund og hafa aldrei verið fleiri í sögu Unglingalandsmótanna. Menn eru sammála um að Unglingalandsmótunum vaxi fiskur um hrygg með hverju árinu sem líður og að þau eigi bjarta framtíð fyrir sér. Sjálf íþróttakeppnin á mótinu gekk mjög vel og dagskráin var með þeim hætti að allir fundu eitthvað við sitt hæfi. Margir keppendur koma ár eftir ár á Unglingalandsmót og að sama skapi stíga margir sín fyrstu skref á íþróttamóti sem er fyrir 11–18 ára. Mörg góð afrek voru unnin á mótinu. Á mótinu var samankomið íþróttafólk sem á eftir að láta að sér kveða í framtíðinni. Uppbygging íþróttamannvirkja í tengslum við Unglingalandsmótin um land allt er farin að skila bættum árangrí íþróttafólks almennt. Unglingalandsmótinu í Þorlákshöfn var slitið formlega með flugeldasýningu sem verður lengi í minnum höfð.“848 12. unglingalandsmót UMFÍ Sauðárkrókur 31. júlí–2. ágúst 2009 Það var fastmælum bundið að unglingalandsmótið sumarið 2009 yrði haldið í Grundarfirði en vegna efnahagsástandsins í samfélaginu báðust Grundfirðingar undan svo viðamiklu samkomuhaldi. Svo fór að Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) henti landsmótsboltann á lofti og stefnan var tekin á Sauðárkrók, þar voru kjöraðstæður fyrir viðamikið landsmót, meira að segja nýleg mótokrossbraut. Formaður UMSS var Sigurjón Þórðarson, sem var alþingismaður á árunum 2003–2007, Ómar Bragi Stefánsson var framkvæmdastjóri mótsins en formaður mótsnefndar var hinsvegar Halldór Halldórsson sem hafði á árum áður varið knattspyrnumark FH-inga en starfaði nú sem dómstjóri við Héraðsdóm Norðurlands á Sauðárkróki. Föstudagskvöldið 31. júlí var landsmótið sett og voru forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff viðstödd. Daginn eftir fylgdust þau með keppninni og heilsuðu upp á þátttakendur. Keppt var í níu íþróttagreinum, þær voru: Frjálsar íþróttir, glíma, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, mótokross, skák og sund. Skráðir þátttakendur voru um 1500 og höfðu aldrei verið fleiri, þar af voru um 210 ungmenni frá UMSK sem voru 14% keppenda. Gestakoman fór fram úr björtustu vonum, mótsgestir voru 10–12 þúsund sem var aðsóknarmet og var nauðsynlegt að stækka tjaldstæðið vegna mannfjöldans. Sigurjón, formaður UMSS, var harla kátur eftir mótið og sagði í viðtali við Skinfaxa: „Við erum alveg í skýjunum með hvað allt gekk vel á Unglingalandsmótinu. Þáttur sjálfboðaliða vó þar þungt, en án þeirra hefði okkur ekki tekist svona vel upp. Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir framlag þeirra til mótsins. Ennfremur öllum þátttakendum og gestum fyrir frábæra daga á mótinu, en allir lögðust á eitt að gera mótið sem best úr garði …“849 Héraðssambandið Skarphéðinn var útnefnt fyrirmyndarfélag mótsins og í mótslok afhenti Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, heimamönnum Sigurðarbikarinn svonefnda sem var gefinn til minningar um Sigurð Geirdal. Jafnframt voru afhjúpaðir fjórir bautasteinar við íþróttaleikvanginn, um landsmót UMFÍ 1971 og 2004 og unglingalandsmótin 2004 og 2009. 13. unglingalandsmót UMFÍ Borgarnes 29. júlí–1. ágúst 2010 Ungmennasamband Borgarfjarðar (UMSB) hélt mótið sem var það fjölmennasta til þessa, um 1700 keppendur skunduðu í Borgarnes. Vegna fjöldans þurfti að lengja mótið um einn dag og hefja það á fimmtudegi í stað föstudags; aðstæður til keppni voru afar góðar, enda hafði verið stórfelld uppbygging íþróttamannvirkja fyrir landsmót UMFÍ árið 1997. Það eina sem skorti fyrir unglingamótið var mótokrossbraut og var ráðist í að útbúa hana. Á nýrri öld tíðkaðist það í auknum mæli að einkafyrirtæki kæmu sem styrktar- og samstarfsaðilar að framkvæmd og fjármögnun stærri íþróttaviðburða og -móta. Snemmsumars árið 2010 var undirritaður samstarfssamningur milli UMFÍ og nokkurra fyrirtækja um framkvæmd mótsins, þessi fyrirtæki voru Vífilfell, Landsbankinn, Samkaup, Síminn, Einar J. Skúlason og Prentmet. Samstarfið var innsiglað með formlegum hætti og voru fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytisins viðstaddir undirritunina. Stéttarfélag Vestur-

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==