601 linga, Björn B. Jónsson, formaður UMFÍ, setti mótið, Hilmar Ólafsson tendraði landsmótseldinn og Nanna Halldóra Imsland söng lagið „Ísland er land þitt“ sem er stundum kallað „þjóðsöngur“ ungmennafélaga.844 Ragnhildur nefndarformaður beindi orðum sínum til keppenda og sagði: „Krakkar, þetta er helgin ykkar, við erum stolt af því að þið hafið valið að koma til Hafnar um verslunarmannahelgina.“845 Athöfninni lauk með keppni í 200 m vígsluhlaupi vallarins þar sem fjórir ungir hlauparar sprettu úr spori. Keppendur voru hátt í eitt þúsund, að venju var góð þátttaka frá UMSK, þaðan mættu 124 unglingar til leiks, sambandið var með næstflestu keppendurna, en heimamenn úr ÚSÚ voru með þremur fleiri. Laugardagurinn var aðalkeppnisdagurinn, frjálsíþróttavöllurinn nýi var þungamiðjan og áhorfendur flykktust þangað. Þar við hliðina var keppt á fimm litlum knattspyrnuvöllum, í íþróttahúsinu voru körfuboltar á lofti og þar ríkti algjört félagafrelsi. Leyfilegt var að blanda saman liðum úr mismunandi félögum, strákar og stelpur léku saman í liði, aðalatriðið var að hafa gaman af leiknum. 25 strákar tóku þátt í golfkeppninni sem stóð yfir í tvo daga en engar stúlkur mættu þar til leiks. Skákkeppnin fór fram í Nýheimum sem er þekkingarsetur Hornfirðinga. Á sunnudeginum fór fram fjöltefli í risatjaldinu þar sem öllum gafst kostur á að etja kappi við Davíð Kjartansson, ungan skákmeistara úr Fjölni í Grafarvogi sem gerði sér lítið fyrir og vann flestar skákirnar. Stúlkur fjölmenntu með fjörhesta sína í hestaíþróttakeppnina, einungis einn piltur tók þátt í þeirri keppni. Hinsvegar kepptu bæði stúlkur og piltar í glímu í risatjaldinu. Sundkeppnin tókst vel, þótt laugin væri helmingi styttri en þá tíðkaðist með keppnislaugar og Svanur Ingvarsson stjórnaði keppninni af röggsemi. Einnig var keppt í krakkablaki, í fyrsta skipti á landsmóti, þar var farið frjálslega með leikreglurnar, aðalatriðið var að hafa gaman af leiknum og það brást ekki. Keppni í torfæruakstri á vélhjólum var nýlunda á unglingalandsmótinu og er henni lýst þannig í sögu UMFÍ: „Svo var mótokross alveg splunkuný grein sem vakti mikla athygli. Torfærukeppni á mótorhjólum. Hún fór fram við Drápskletta rétt utan við bæinn en allir komu jafngóðir úr þeim leik. Áhorfendur sátu í grasi gróinni hlíð og fylgdust með köppunum þeysa á vélfákum sínum. Þarna þeystu þeir hring eftir hring og minntu helst á geimfara í búningum sínum, hjálmklæddir með hlífðargleraugu. Miklar drunur, brúmm og prump fylltu loftið. Brautin var mishæðótt og þeir flugu í háloftunum svo oft voru margir á lofti í senn.“846 Þess má geta að tveimur árum fyrr var vélíþróttaklúbburinn Motomos í Mosfellsbæ stofnaður og er eini vélíþróttaklúbburinn innan UMSK. Svokallaðir Þórbergsleikar voru einnig á dagskrá, nefndir eftir Þórbergi Þórðarsyni (1888–1974) rithöfundi sem fæddist og ólst upp á Hala í Suðursveit. Hann þótti um margt sérstakur maður og voru keppnisgreinarnar á Höfn í anda hans, til dæmis sjöstökk á öðrum fæti, Müllersæfingar og ýmsar orðaþrautir. Í verðlaun voru bækur Þórbergs og aðgöngumiði að Þórbergssetrinu á Hala sem var opnað árið áður. Öll kvöldin léku hljómsveitir fyrir dansi í risatjaldinu. Einnig var kynning á vegum UMFÍ á ólíkum málefnum eins og „Flott án fíknar“, „Evrópu unga fólksins“ og íþróttum aldraðra. Síðast en ekki síst var spilið alkunna Hornafjarðarmanni á dagskrá og tóku 250 manns þátt í spilamennskunni í risatjaldinu. Munaði minnstu að Íslandsmetið yrði slegið hvað þátttöku varðaði. UMFÍ bauð til afmælisveislu í tilefni af aldarafmælinu, 15 metra löng terta prýddi veisluborðið og stjórnarmenn úr UMFÍ skáru tertusneiðar í veislugesti sem voru um 3600. Þeir fengu mjólk að drekka með. Allir mótsgestir voru til hreinnar fyrirmyndar. Mótinu var slitið að kvöldi sunnudags í lygnu veðri, mikill mannfjöldi kom sér fyrir á áhorfendasvæðinu á aðalleikvanginum og naut stundarinnar í veðurblíðunni. Snæfellingar fengu fyrirmyndarbikarinn annað árið í röð og hlupu fagnandi inn á völlinn til að veita viðurkenningunni viðtöku. Björn B. Jónsson, formaður UMFÍ, þakkaði gestum fyrir komuna og sleit mótinu og þá var ekkert eftir nema að njóta glæsilegrar flugeldasýningar í mótslok: „Flugeldar í öllum regnbogans litum þutu til himins og dreifðust þar í allar áttir á stórfenglegan hátt. Gleðibros var á öllum þegar þeir yfirgáfu staðinn. Enn einu velheppnuðu unglingalandsmóti var lokið.“847 11. unglingalandsmót UMFÍ Þorlákshöfn 1.–3. ágúst 2008 Héraðssambandið Skarphéðinn var mótshaldari á þessu 11. unglingalandsmóti UMFÍ, þar var keppt í frjálsum íþróttum, glímu, golfi, hestaíþróttum, knattspyrnu, körfuknattleik, mótokross, skák og sundi. Mikil uppbygging á íþróttamannvirkjum hafði átt sér stað í Þorlákshöfn og umgjörð mótsins var hin glæsilegasta. Undirbúningur mótsins var til fyrirmyndar og gestir um eða yfir tíu þúsund. Mótið tókst vel í alla staði, góð þátttaka var frá UMSK eða um 150 keppendur. Í mótslok var Sigurðarbikarinn afhentur í fyrsta skipti, hann var gefinn til minningar um Sigurð Geirdal, fyrrverandi fram-
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==