Aldarsaga UMSK 1922-2022

598 ungis 16 metra löng, vígð árið 1946 og teiknuð af Guðjóni Samúelssyni. Að venju var margt annað en íþróttir á dagskrá, til dæmis hæfileikakeppni, tívolí, tónleikar, kvöldvökur og dansleikir þar sem „Á móti sól“ var aðalhljómsveitin. Tjaldstæði var í Tungudal og þótti fulllangt þaðan á íþróttasvæðið. Lokaatriði mótsins var ein allsherjar grillveisla, þangað var öllum mótsgestum boðið, þeir lágu ekki á liði sínu og sporðrenndu 2000 Goðapylsum. Við mótslok afhentu forsetahjónin fyrirmyndarliði SuðurÞingeyinga sérstaka viðurkenningu og ekki var allt búið enn, í sögu UMFÍ segir frá lokaatriði mótsins: „Mannfjöldinn þyrptist út að Ísafjarðarpolli og nú var tekið mjög að rökkva. Lóðsinn sigldi hægt og hljótt inn á pollinn og nú var skotið flugeldum samtímis af þilfari hans og frá hafnarbakkanum. Sýningin var stórkostleg upplifun þar sem hljóðið og ljósið frá henni magnaðist í fjöllunum kringum Ísafjarðarbæ. Frábæru unglingalandsmóti var lokið.“838 7. unglingalandsmót UMFÍ Sauðárkrókur 30. júlí–1. ágúst 2004 Árið 1971 var landsmót UMFÍ haldið á Sauðárkróki þar sem UMSK náði glæsilegum árangri. 33 árum síðar var ákveðið að halda aftur landsmót á Króknum enda aðstaða þar hin ágætasta. En Skagfirðingar hugsuðu stórt og djarft og óskuðu eftir því að halda einnig unglingalandsmótið það sama sumar. Að vandlega athuguðu máli var fallist á það, Páll Kolbeinsson varð formaður mótsnefndar og framkvæmdastjóri beggja mótanna var Ómar Bragi Stefánsson sem átti eftir að verða framkvæmdastjóri á mörgum unglingalandsmótum. Þátttaka í landsmótinu var afar góð sem fyrr, 1242 keppendur greiddu þátttökugjaldið sem var 4500 krónur, mótið komst vel fyrir vind og varð hagnaður af því. Innan UMSK höfðu mótin fest sig rækilega í sessi, frá sambandinu mættu jafnan 100–200 keppendur, að þessu sinni voru þeir rúmlega eitt hundrað og tóku þátt í ýmsum greinum. Sem fyrr voru eftirtaldar greinar í boði: frjálsíþróttir, glíma, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, skák og sund. Knattspyrnan og frjálsar íþróttir voru vinsælastar, hátt í 600 keppendur tóku þátt í fótboltakeppninni og ekki spillti að tvær knattspyrnukempur afhentu sigurverðlaunin, það voru Eyjólfur Sverrisson, sem hóf feril sinn með Ungmennafélaginu Tindastóli á Sauðárkróki, og Guðni Bergsson, síðar forseti KSÍ. Veðrið lék við mótsgesti stærstan hluta helgarinnar, margar fjölskyldur keppenda mættu á mótið og nutu samverunnar, tjaldsvæðið var á svonefndum Nöfum ofan við keppnissvæðið en setningarathöfnin fór fram á íþróttavellinum á föstudagskvöldinu. Það var hátíðleg stund þegar Arndís María Einarsdóttir tendraði landsmótseldinn og ekki vakti það minni athygli þegar stúlkurnar úr hljómsveitinni Nylon hófu leik sinn og söng og aðdáendur þyrptust að hátíðarsviðinu. Auk keppnisgreinanna voru aðrar íþróttagreinar kynntar, til dæmis strandblak og fjallahjólreiðar. Kvöldvökur voru bæði á laugardags- og sunnudagskvöldinu, þar léku hljómsveitir á borð við Quarashi, Írafár og Mammút. Það duldist engum að Birgitta Haukdal í Írafári vakti mestu athyglina, enda sennilega vinsælasta söngkona landsins um þær mundir. Mótinu var slitið að kvöldi sunnudagsins í blíðskaparveðri, þar ríkti ekki síst eftirvænting að sjá og heyra hverjir fengju „fyrirmyndarbikarinn“ að þessu sinni. Það reyndist vera HSK sem var einnig með stærsta keppendahópinn en UMSK mætti með næstflestu keppendurna. Samtals tóku 34 aðilar þátt í mótinu, ýmist voru þeir skráðir undir nafni ungmennafélags, héraðssambands eða íþróttabandalags og 15 keppendur voru utan félaga.839 Keppnin var í raun öllum opin og það efldi unglingalandsmótið á allan hátt. Eftir verslunarmannahelgina var að sjálfsögðu fjallað um hátíðir helgarinnar, sums staðar hafði vímuefnaneysla sett sterkan svip á mannamót. „Víkverji“ ritaði í Morgunblaðið: „Um leið og ölvunarfréttir af útihátíðum voru tíundaðar fór heldur lítið fyrir umfjöllun í fjölmiðlum um helgina af Unglingalandsmótinu. Getur ástæðan verið sú að þar var enginn fullur, tómar fangageymslur, enginn í annarlegu ástandi, engir stútar undir stýri? Bara edrú og lífsglaðir unglingar að keppa í íþróttum? „Uss, það er engin frétt,“ myndi kannski einhver segja. Jú Víkverji telur það nokkra frétt um þessa mikla drykkjuhelgi.“840 8. unglingalandsmót UMFÍ Vík í Mýrdal 29.–31. júlí 2005 Þrjú héraðssambönd sýndu því áhuga að halda unglingalandsmótið árið 2005 og Ungmennasamband VesturSkaftfellinga (USVS) varð fyrir valinu, Vík í Mýrdal varð mótsstaðurinn, þar bjuggu þá tæplega 300 manns. Nauðsynlegt var að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir til að halda viðamikið mót og er óhætt að segja að lyft hafi verið grettistaki á skömmum tíma þar sem sveitarfélagið og íbúar tóku höndum saman með gríðarlegri sjálfboðavinnu heimamanna. Glæsilegur frjálsíþróttavöllur með

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==