Aldarsaga UMSK 1922-2022

595 Í fyrstu leist mörgum engan veginn á þá hugmynd, þessi helgi var „frátekin“ fyrir glaum og gleði þar sem Bakkus réð oft för, var einhver eftirspurn eftir vímulausu íþróttamóti? Framsýnt fólk lét ekkert aftra sér og hugsaði upphátt: Við skorum aðrar hátíðir á hólm og gerum unglingalandsmótið samkeppnishæft með vandaðri dagskrá, íþróttum og afþreyingu. Þá var það ákveðið: 4. unglingalandsmót UMFÍ skyldi haldið 4.–6. ágúst árið 2000. Það kom á daginn að styrktaraðilar voru sannarlega reiðubúnir að styrkja áfengis- og vímuefnalaust mannamót, til dæmis lagði Áfengis- og vímuvarnaráð fram um eina milljón króna. Takmarkið var að fá 2500 gesti og skyldu ekkert til sparað, þátttökugjald fyrir keppendur var 5500 krónur á mann, þá var matarpakki innifalinn, aðgangur að sundstöðum, frítt á alla viðburði mótsins, grillveisla, ferðir milli keppnisstaða, skótaska, drykkjarbrúsi og mótsbolur. Föstudaginn 4. ágúst var mótið sett á Bíldudal í blíðskaparveðri. Keppendur gengu fylktu liði inn á völlinn undir fánum íþróttafélaga sinna eða héraðssambanda. Þeir voru um 750 víða að af landinu, þar af komu 63 frá UMSK sem tóku þátt í nokkrum greinum og ríkti hjá þeim almenn ánægja með mótið og ferðina. Mótið fór fram á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal og var hægt að velja milli sjö keppnisgreina sem voru: knattspyrna, körfubolti, sund, frjálsar íþróttir, skák, golf og glíma. Margir foreldrar fylgdu börnum sínum vestur á firði, um 2500 manns gistu á tjaldstæðum og alls voru mótsgestir um 4000. Ekki spillti veðrið, það var afar gott, þrátt fyrir lítilsháttar rigningu á laugardagsmorgninum. Auk íþróttakeppninnar var ýmiskonar afþreying í boði, meðal annars dansleikir á Tálknafirði þar sem hljómsveitin vinsæla „Í svörtum fötum“ hélt uppi linnulausu fjöri. Þó varð annar viðburður vinsælli en dansiballið, það var alþjóðlegt mót í stangarstökki kvenna sem haldið var á Bíldudal. Meðal keppenda var Vala Flosadóttir (f. 1978), sem hafði alist þar upp og var því stundum kölluð „dóttir Bíldudals“. Vala bjó í Svíþjóð um skeið þar sem hún vakti athygli fyrir góðan árangur í stangarstökki. Eftir að hún flutti heim til Íslands gekk hún til liðs við ÍRinga og þegar hér var komið sögu hafði hún sett heimsmet í stangarstökki innanhúss. Hróður Völu barst víða og mikil eftirvænting ríkti í bænum eftir að sjá hana og aðra keppendur á mótinu taka flugið á stönginni. Svo mikill var áhuginn að einn verslunareigandinn á Bíldudal lokaði búð sinni til að geta fylgst með keppninni, setti upp skilti, á því stóð: Lokað vegna stangarstökkskeppni! Ásamt Völu tóku nokkrar erlendar afrekskonur þátt í keppninni sem um 4000 manns fylgdust með. Vala sigraði glæsilega og er viðburðinum lýst þannig í sögu UMFÍ: „Það var mögnuð sjón að sjá stúlkurnar svífa yfir rána með hrikaleg vestfirsk fjöllin í bakgrunni. Áhorfendur hvöttu stúlkurnar ákaft og ekki síst Völu. Sumir héldu niðri í sér andanum þegar þessi stælta stúlka sveif í háloftunum. Hún brást ekki vonum fólksins og sigraði með því að stökkva 4 metra og átti ágætar tilraunir við 4,20 metra. Það var tilfinningaþrungin stund þegar ljóst Vala Flosadóttir svífur í skýjum á Bíldudal, í sinni gömlu heimabyggð.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==