Aldarsaga UMSK 1922-2022

594 Blönduósi, körfuboltakeppnin fór fram í íþróttahúsinu þar, hestaíþróttirnar við félagsheimilið Húnaver, skákin og glíman á Skagaströnd og sundið á Hvammstanga. Skammt norðan við Blönduós var íþróttavöllur ungmennafélagsins Vorboðans sem var fullgerður fyrir mótið. Þar setti Þórir Jónsson, formaður UMFÍ, mótið, keppendur gengu í skrúðfylkingu inn á völlinn sem séra Hjálmar Jónsson vígði. Skammt frá Vorboðavelli var tjaldsvæði mótsgesta og golfvöllur. Um 4000 gestir sóttu landsmótið sem tókst afar vel, þótt veður væri rysjótt og það andaði köldu að norðan. Þá var að minnsta kosti hægt að ylja sér við grillhitann við Vorboðavöll á laugardagskvöldinu þegar slegið var upp mikilli veislu og hesthúsað heilt tonn af lambakjöti fyrir utan allar pylsurnar.834 Við mótsslit í íþróttahúsinu á Blönduósi á sunnudeginum sagði Þórir, formaður UMFÍ, í lokaræðu sinni að þátttakan og andinn á mótinu sýndu að unglingalandsmótin væru komin til að vera og full ástæða til að skoða þá hugmynd að halda mótin oftar. Það átti eftir að rætast á nýrri öld. 3. unglingalandsmót UMFÍ Grafarvogur 3.–5. júlí 1998 Aðeins eitt félag sóttist eftir því að halda unglingalandsmótið árið 1998, það var Fjölnir, ungt og stækkandi félag í Grafarvogi í Reykjavík og reyndar fjölmennasta íþróttafélag landsins um þær mundir.835 Að þessu sinni þurfti ekki að ráðast í mikla uppbyggingu á mannvirkjum, þau voru til staðar á sama svæðinu: Knattspyrnuvöllur Fjölnis, íþróttamiðstöðin Dalhús og Grafarvogslaug. Golfkeppnin fór fram á Korpúlfsstaðavelli en glímt var og teflt í Húsaskóla, örskammt frá mótssvæðinu. Það rigndi á föstudeginum, setningarathöfnin var færð inn í íþróttamiðstöðina og skrúðgöngunni sleppt, hinsvegar stóð sundlaugin opin fram á kvöld og fóru margir þangað, líka á laugardeginum. Einnig var opið hús í félagsmiðstöðinni Fjörgyn í Foldaskóla. Boð komu að ofan um að mótsgreinar skyldu vera á bilinu 5–10 að eigin vali mótshaldara, nema glíma átti ætíð að vera á dagskrá; glímumenn höfðu unnið fullnaðarsigur í baráttu sinni fyrir tilvist glímunnar á unglingalandsmótunum. Aðrar keppnisgreinar voru knattspyrna, handknattleikur, körfuknattleikur, skák, sund, golf og frjálsar íþróttir. Formaður framkvæmdanefndar mótsins var Hreinn Ólafsson en framkvæmdastjóri Fjölnis, Aðalsteinn Örnólfsson, var í raun framkvæmdastjóri mótsins. 744 keppendur frá 23 félögum/héraðssamböndum mættu til leiks í Grafarvoginum. Þar að auki voru 167 keppendur frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) en UMFÍ hafði heimilað Fjölni að bjóða gestum úr ÍBR til mótsins og voru ekki allir sáttir við þá ákvörðun. Þátttökugjaldið var það sama og áður, 4000 krónur, en þátttaka var töluvert minni en fyrr. Margir komu um langan veg en það vakti nokkra athygli hve fáir komu frá nágrannasambandinu UMSK eða einungis 22 keppendur, 11 úr Aftureldingu og 11 úr Breiðabliki. Mótið skar sig úr að því leyti að engin tjaldstæði voru til staðar, reynt var að fá svæði á Keldum fyrir botni Grafarvogs undir tjaldstæði en það gekk ekki eftir. Hinsvegar stóð keppnisfólkinu til boða að gista í skólunum í Grafarvogi og þáðu það um 600 þátttakendur. Grillveislan ómissandi var að þessu sinni í Keldnalandi í sól og blíðu á laugardagskvöldinu og mótsslit eftir hádegi á sunnudeginum. Þar afhenti Þórir Jónsson, formaður UMFÍ, Norður-Þingeyingum bikar fyrir að vera með prúðasta lið mótsins og tilkynnti um leið að næsta mót yrði haldið á Vestfjörðum, í umsjón héraðssambandsins Hrafna-Flóka. 4. unglingalandsmót UMFÍ Vesturbyggð og Tálknafjörður 4.–6. ágúst 2000 Árið 2000 var þúsaldamótum fagnað og einnig 1000 ára sögu kristnihalds á Íslandi, kristnihátíð var haldin í júlíbyrjun á Þingvöllum og hátíðarhöld voru víðar um land af þessu sögulega tilefni. Ungmennafélagar huguðu einnig að sinni hátíð, héraðssambandið Hrafna-Flóki hafði tekið að sér að annast unglingalandsmót á Vestfjörðum, í sambandinu voru sex ungmennafélög og svæði þess náði yfir þrjá þéttbýlisstaði: Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal. Formaður landsmótsnefndar var Skjöldur Pálmason á Patreksfirði en Valdimar Gunnarsson, íþróttakennari frá Bíldudal, var ráðinn framkvæmdastjóri mótsins. Í aðdraganda þess var knattspyrnuvöllurinn á Patreksfirði endurnýjaður og aðstaðan á Bíldudal fyrir frjálsar íþróttir stórlega bætt. Stóra spurningin var ekki hvar átti að halda mótið heldur hvenær? Það má segja að ríkt hafi samkeppni um helgar sumarsins 2000 því um 20 fjöldasamkomur voru fyrirhugaðar víðs vegar um landið. En þá skaut upp kollinum hugmynd sem átti eftir að verða afdrifarík: Hvers vegna ekki að halda landsmótið um verslunarmannahelgina, mestu ferðahelgi ársins?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==