Aldarsaga UMSK 1922-2022

593 tennis. Oftast kepptu tveir árgangar saman en stundum þrír, þátttakendur kepptu ýmist í nafni félags eða héraðssambands. Undirtektir einstakra sérsambanda við mótinu voru misjafnar en líklega bestar hjá Glímusambandi Íslands sem bauðst til að sjá um glímukeppnina og lét ekki þar við sitja því Rögnvaldur Ólafsson, formaður sambandsins, og Kjartan Lárusson, framkvæmdastjóri þess, fóru umhverfis landið og kynntu glímu í tilefni af væntanlegu Dalvíkurmóti. Á einum mánuði komu þeir við á 44 stöðum víðs vegar um landið, samtals mættu um 500 ungmenni til að heyra þá og sjá og þau voru hvött til þátttöku í væntanlegu unglingalandsmóti.830 Alls mættu um þúsund keppendur til leiks á Dalvík. Héraðssambönd landsins sýndu mótinu mismikinn áhuga, sum sendu fjölmenn lið í nafni sambandsins en margir kepptu sem fulltrúar síns félags. Keppendur af félagssvæði UMSK voru 76 talsins, þeir kepptu fyrir hönd Breiðabliks, Aftureldingar og HK, flestir voru frá Aftureldingu, 46 unglingar.831 Heimamenn á Dalvík tóku til hendinni síðustu dagana fyrir mótið, fjöldi sjálfboðaliða mætti á íþróttavöllinn til að lagfæra hann fyrir hið mannmarga mót sem í vændum var. Keppnin hófst á föstudeginum og var mótssetning um kvöldið, hún byrjaði með fjölmennri skrúðgöngu sem Hafsteinn Þorvaldsson stýrði. Formaður landsmótsnefndar flutti ávarp, Pálmi Gíslason, formaður UMFÍ, setti mótið og Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri tók til máls. Keppendur fylktu liði á vellinum, mynduðu lífsglaða bylgjuhreyfingu og síðan var sungið. Flestir voru þátttakendurnir í frjálsum íþróttum en einnig kepptu margir í sundi. Stærsti hluti mótsins fór fram á Dalvík en þó þurfti að leita út fyrir bæinn með einstakar greinar, knattspyrnukeppnin fór að hluta til fram á Árskógsvelli og í Hrísey, sundkeppnin við Þelamerkurskóla, golfkeppnin á Arnarholtsvelli og hestaíþróttir í Svarfaðardal. Talið er að um 3000 gestir hafi sótt mótið, það hófst í rigningu á föstudegi en endaði í sólskini á sunnudeginum. Á föstudagskvöldið var karókí-keppni í stóru samkomutjaldi, þar fór einnig fram dansleikur og hljómsveitin „1000 andlit“ lék og söng. Einn keppandinn, Sveinþór Arason frá Skagaströnd, níu ára gamall, sagði í viðtali: „Ég keppti í langstökki og kúluvarpi og mér gekk bara vel. Langstökkið fannst mér skemmtilegast. Annars erum við núna að fara á ballið í tjaldinu. Það eru svo svakalega mörg tjöld og margt fólk.“832 Fyrsta unglingalandsmótið tókst vel í alla staði, framkoma og umgengni gesta var til fyrirmyndar og var veitt sérstök viðurkenning fyrir háttvísi og góða umgengni á mótsstað, þátttakendur frá Héraðssambandinu HrafnaFlóka hlutu þá viðurkenningu. Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri sambandsins, veitti henni viðtöku, sá sami Valdimar og átti eftir að verða framkvæmdastjóri UMSK í 14 ár. 2. unglingalandsmót UMFÍ Húnaþing eystra 14.–16. júlí 1995 Eftir vel heppnað unglingalandsmót á Dalvík var ljóst að slíkt mót yrði endurtekið, nokkur héraðssambönd sýndu áhuga á að ganga í það verk en að lyktum féll það Ungmennasambandi Austur-Húnvetninga (USAH) í skaut, árið 1995. Mótsgreinar skyldu vera sjö talsins en sambandinu var í sjálfsvald sett hverjar þær yrðu, aldursflokkarnir voru 11–12 ára, 13–14 ára og 15–16 ára. Formaður mótsnefndar var Valdimar Guðmannsson sem jafnframt var formaður USAH en Sigurbjörg Kristjánsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri mótsins. Mjólkurdagsnefnd og ýmis fyrirtæki í héraði voru styrktaraðilar þess, þátttökugjald var sem fyrr 4000 krónur og þá var innifalið tjaldstæði, morgunmatur, grillveisla, kvöldvaka, ferðir milli keppnisstaða, minjagripur um mótið og síðast en ekki síst dansleikur þar sem hljómsveitin Upplyfting lék fyrir dansi ásamt fleirum. Heimamenn ákváðu að keppnisgreinarnar sjö skyldu vera frjálsar íþróttir, golf, hestaíþróttir, knattspyrna, körfubolti, sund og skák. Stjórn Glímusambands Íslands var ekki ýkja hrifin þegar hún frétti að glímunni yrði úthýst og ritaði bréf til UMFÍ þar sem segir: „UMFÍ beitir sér fyrir slagorðinu „Veljum íslenskt“ og hvað er íslenskara en glíman? Með fullri virðingu fyrir öðrum ágætum íþróttum sem stundaðar eru á landinu eru þær allar innfluttar en glíman er þjóðareign.“833 Stjórn UMFÍ var hlynnt því að glíman yrði meðal keppnisgreina, þó með því skilyrði að glímumenn sæju alfarið um keppnina og gekk það eftir. Glímusambandið nýtti einnig tækifærið og gekkst fyrir námskeiðum á Blönduósi og Skagaströnd og það var eins og við manninn mælt: Um 50 glímustrákar og -stelpur skunduðu til Skagastrandar þar sem glímukeppnin fór fram. Skráðir keppendur á landsmótinu voru tæplega 1500, þeir komu víða að, UMSK mætti með næstfjölmennasta liðið, 142 ungmenni sem fóru mörg með rútum norður yfir heiðar. UMSK-krakkarnir urðu sigursælir í sundinu, unnu sveitakeppni í skák, frjálsíþróttafólkinu gekk mjög vel og einnig kepptu UMSK-liðar í knattspyrnu og körfubolta. Mótið dreifðist allvíða um sýsluna, því var stjórnað frá

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==