Aldarsaga UMSK 1922-2022

590 Ísafjörður 10.–12. júní 2016 Mótshaldari var Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) og var keppt í 17 greinum, bæði hefðbundnum og óhefðbundnum. Þátttaka var öllum opin sem höfðu náð fimmtugsaldri, 256 keppendur mættu á mótið sem mátti kalla heilsuhátíð því fluttir voru fyrirlestrar um heilbrigðan lífsstíl og gerðar ýmsar heilsufarsmælingar. Keppnisgreinar voru meðal annarra skák, pútt, bridds, boccia, strandblak, karfa, bogfimi, pönnukökubakstur og badminton. Síðast en ekki síst var keppt í stígvélakasti. Hveragerði 23.–25. júní 2017 Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) hélt mótið undir formennsku Guðríðar Aadnegard en formaður landsmótsnefndar var Gísli Páll Pálsson, framkvæmdastjóri Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði, hann var fyrrum körfuknattleiksmaður og formaður HSK. Tæplega 600 manns tóku þátt í landsmótinu sem var sett í íþróttahúsi bæjarins, þar sýndi fimleikaflokkur leikni sína og Magnús Þór Sigmundsson lék og söng. Eftirherman og skemmtikrafturinn Hjörtur Benediktsson var veislustjóri á kvöldskemmtun þátttakenda þar sem hljómsveitin Pass lék fyrir dansi. Á landsmótinu var keppt í 18 greinum, þar á meðal voru boccia, pútt, pönnukökubakstur, ringó og stígvélakast. Keppnisaðstaðan var þokkaleg, það skorti að vísu góðan frjálsíþróttavöll en til staðar var 50 metra sundlaug og uppblásin, fjölnota íþróttahöll (Hamarshöllin), reist árið 2012. Þar var gervigrasvöllur, púttvöllur og fjölnota íþróttagólf. Húsið var það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi en varð veðri og vindum að bráð árið 2022. Sauðárkrókur 13.–15. júlí 2018 Ungmennasamband Skagafjarðar (UMSS) og sveitarfélagið Skagafjörður héldu mótið, Ómar Bragi Stefánsson var mótstjóri. Samtímis voru tvö önnur mót haldin á Króknum, meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum og 28. landsmót UMFÍ sem reyndist verða svanasöngur gömlu landsmótanna, sjá nánar um það mót í kaflanum „Síðasta landsmótið“. „Taktu þátt í skemmtilegu móti og njóttu þess að vera til,“ stóð skrifað í heilsíðuauglýsingu í tímaritinu Skinfaxa. Árið 2019 var landsmótið fyrir 50 ára og eldri haldið austanlands í fyrsta skiptið.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==