Aldarsaga UMSK 1922-2022

566 Skjólkvíum við rætur Heklu og fór sunddeild Breiðabliks í skoðunarferð á gosstöðvarnar. Kraftur gossins hefur líklega blásið Breiðabliksmönnum enn meiri eldmóð í brjóst, að minnsta kosti stunduðu þeir æfingar áfram af kappi, mynduðu kjarnann í sundliði UMSK á landsmótum UMFÍ og unnu þar til margra verðlauna. Árið 1979 voru tvær stúlkur úr Breiðabliki í sundlandsliðinu, Katrín L. Sveinsdóttir og Margrét Sigurðardóttir sem var kosin íþróttamaður ársins í Kópavogi af Rótarýklúbbi Kópavogs. Síðustu áratugina hefur sundiðkun innan Breiðabliks staðið með miklum blóma, ber þar margt til, meðal annars hefur orðið gjörbylting á sundaðstöðu sem fjallað er um fremst í þessum bókarhluta. Þessi aðstöðubylting hefur orðið um allt land og löglegar keppnislaugar eru víða, sem dæmi má nefna að Íslandsmeistaramótið í sundi árið 2018 fór fram í Ásvallalaug í Hafnarfirði. Þar var sundfólk úr Breiðabliki mjög sigursælt eins og fram kemur í ársskýrslu UMSK: „Íslandsmeistaramótið í 25 m laug (ÍM25) fór fram í Ásvallalaug dagana 9.–11. nóvember. Sunddeild Breiðabliks sendi ungt og öflugt lið til leiks og átti félagið alltaf 10–11 sundmenn í úrslitum alla dagana þar sem 8 bestu úr undanrásum syntu. Samtals vann félagið 8 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum og tvo titla í boðsundum. Sundmenn félagsins hlutu 10 silfur og 9 brons í einstaklingsgreinum og fjögur silfur og tvenn bronsverðlaun í boðsundum.“779 Árið 2020 setti COVID sinn svip á mótshald hjá sundfólki líkt og annarsstaðar í samfélaginu. Þó var Íslandsmótið í 50 m laug haldið í júlímánuði, þangað mættu 19 keppendur frá Breiðabliki og vann Breiðabliksfólk 13 Íslandsmeistaratitla. Vakning í Varmárlaug – líf í Lágafelli Eftir að Varmárlaug í Mosfellssveit kom til sögunnar 1964 var innilauginni á Álafossi lokað, samtímis varð mikil sundvakning meðal Mosfellinga. Sá þekkti sundþjálfari, Guðmundur Harðarson, þjálfaði Aftureldingarfólk um skeið, sundmót UMSK voru haldin að Varmá, þar leiddu Breiðablik og Afturelding saman hesta sína en minna var um sundiðkun í öðrum aðildarfélögum sambandsins. Á héraðsmótinu í Varmárlaug árið 1968 sigraði Afturelding og vann Axelsbikarinn sem áður er nefndur, Birgir Sigurðsson var mótstjóri en hann var þá formaður Aftureldingar. Á þessum árum voru héraðsmótin jafnan haldin í Varmárlaug, enda var þar lögleg keppnislaug sem Kópavogslaugin var ekki. Breiðablik sigraði á UMSK-mótinu í Varmárlaug 1969 en Afturelding árið 1970. Á 8. áratugnum dofnaði yfir sundinu hjá Mosfellingum en það tók nýjan fjörkipp árið 1981 eftir að ungt fólk stofnaði sunddeild innan Aftureldingar og hóf æfingar í Varmárlaug undir stjórn Báru Ólafsdóttur. Fyrsti formaður deildarinnar var Alfa R. Jóhannsdóttir. Árið 1983 lagðist starfsemi deildarinnar í þriggja ára dvala en síðan tók Halldór Jökull Ragnarsson við þjálfun sunddeildarinnar, hann sagði í viðtali árið 1990: „Þegar í upphafi setti ég mér það markmið að byggja upp sterkt lið fyrir landsmótið 1990 sem ætti góða möguleika á sigri í sundkeppninni. Strax á fyrstu æfingunum mætti mikill fjöldi …“780 Vel gekk að byggja upp sunddeildina, árið 1987 tókst samstarf milli Breiðabliks og Aftureldingar um að keppa undir merkjum UMSK í bikarkeppni Sundsambands Íslands þar sem sundlið UMSK vann sig upp í 1. deild Sundmót í Varmárlaug árið 1987.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==