Aldarsaga UMSK 1922-2022

564 Sund er ekkert dund Kennsla og keppni Fyrsta kennslubókin í íþróttum, sem kom út á íslensku, hét „Sundreglur“ og var eftir Franz Nachtegall (1777–1847). Jónas Hallgrímsson íslenskaði ritið úr dönsku og Fjölnismenn gáfu það út árið 1836. Útgáfan var einsdæmi á þessu tímaskeiði og fátítt að íþróttakennslubækur væru gefnar út á íslensku fyrr en komið var fram á 20. öld. Á 19. öld var sund kennt og iðkað á ýmsum stöðum á landinu þar sem aðstæður leyfðu og ekki var ætíð heitt vatn til staðar. Í ylvolgri Varmánni í Mosfellssveit voru kjöraðstæður til sunds og árið 1895 var stofnað laugarfélag að frumkvæði Lestrarfélags Lágafellssóknar sem hafði sundlaugargerð og sundiðkun á stefnuskrá sinni.773 Á árunum 1920 og 1921 gaf Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) út sundkennslubók í tveimur heftum, hún var þýdd úr ensku og prýdd ljósmyndum. Þar var sérstakur kafli um sundleiki, einn þeirra var kallaður „Að troða marvaðann“ og annar hét einfaldlega „Hundasund“, honum var þannig lýst: „Flestir munu hafa séð hunda synda. Leikur þessi er stæling af sundi þeirra. Sundmaður liggur á bringunni, ber hendurnar til skiftis aftur og undir sig, svo höndin hniti hring í vatninu. Fótum er sparkað aftur á víxl. Annars verður sund þetta bezt lært af því, að gefa nákvæman gaum að sundi hundanna sjálfra.“774 Árið 1948 kom út kennslubókin „Sund“ eftir Jón Pálsson sundkennara og fleiri. Bókin var helguð minningu Jónasar Hallgrímssonar og hefst á tilvitnun í íþróttalögin sem Alþingi samþykkti árið 1940. Þar segir meðal annarra orða að öll börn eigi að læra sund, nema sérstakar ástæður hamli því.775 Þessi lagasetning hafði mikil áhrif á sundmennt ungmenna um allt land, sundlaugar og sundhallir risu og áhugi á íþróttinni jókst jafnt og þétt, bæði í skólum og íþróttafélögum, þar á meðal á félagssvæði UMSK. Fram eftir 20. öld var lítið um sundlaugar á félagssvæði UMSK og fyrsta sundkeppnin sem sögur fara af á því svæði var þegar Verzlunarmannafélag Reykjavíkur efndi til kappsunds yfir Kópavog árið 1908, löngu áður kaupstaðurinn Kópavogur kom til sögunnar og 14 árum áður en UMSK var stofnað.776 Á árlegu íþróttamóti Aftureldingar og Drengs, sem greint er frá í fyrri hluta bókarinnar, var stundum keppt í sundi og þá synt í köldum sjó, annaðhvort í Kollafirði á Kjalarnesi eða við Hvalfjarðareyri í Kjósarhreppi. Það kom fyrir að Aftureldingarfólk synti í Hafravatni í sunnanverðri Mosfellssveit en sótti þó frekar í jarðhitann í ylvolgri Varmánni þar sem útbúin var sundlaug árið 1909, sama ár og UMFA var stofnað.777 Ofan við stífluna hjá ullarverksmiðjunni á Álafossi myndaðist lón sem var hentugt til sunds og einnig var steinsteypt innilaug reist í verksmiðjuhverfinu á 4. áratugnum þar sem Mosfellingar gátu bæði æft og keppt. Á Álafossi æfðu til dæmis stúlkurnar sem kepptu á landsmótinu í Haukadal árið 1940 og áttu þátt í glæstum sigri UMSK á því móti. Halldór Lárusson frá Brúarlandi stundaði nám við héraðsskólann í Reykholti á árunum 1942–1943. Þá var Þorgils Guðmundsson frá Valdastöðum í Kjós íþróttakennari við skólann. Hann hvatti sýslunga sinn til að keppa í sundi og náði Halldór góðum árangri á mótum í Reykjavík í bringusundi, varð meðal annars Íslandsmeistari í 200 m bringusundi drengja árið 1944. Á árabilinu 1951–1975 var norræna sundkeppnin haldin á þriggja ára fresti, þar leiddu Norðurlandaþjóðirnar saman sundhesta sína með því „að taka 200 metrana“ hver í sínu heimalandi. Íslendingar sigruðu einu sinni, árið 1951, en þá tóku 25% þjóðarinnar þátt í keppninni. Mynd úr Skinfaxa frá árinu 1954 þar sem fjallað var um norrænu sundkeppnina.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==