Aldarsaga UMSK 1922-2022

560 Lærði veðurfræði og blak í Ósló Fáir þekkja fyrstu áratugina í blaksögu Íslands betur en Albert H.N. Valdimarsson, enda mótaði hann sjálfur þá sögu mikið. Í þessu viðtali frá árinu 2018 greinir Albert frá starfi sínu á vettvangi blaksins sem hann kynntist fyrst þegar hann var í háskólanámi í Noregi. Kynntist blakinu á þrítugsaldri Ég er fæddur árið 1938 og hafði áhuga á íþróttum allt frá bernskuárum, segir Albert. Ég kynntist frjálsum íþróttum í ungmennafélaginu í minni heimasveit austur í Rangárvallasýslu, þar var lítil aðstaða til íþróttaiðkunar en síðan fór ég í Skógaskóla og stundaði þar knattspyrnu, leikfimi og fleiri greinar. Í kjölfarið hóf ég nám við Menntaskólann í Reykjavík og þar komst ég í kynni við körfubolta og handbolta. Var leikið blak hérlendis á þeim árum? Já, en ég vissi ekki af því þá, en nú veit ég að nemendur við Menntaskólann á Akureyri og Laugarvatni spiluðu blak. Íþróttagreinin er reyndar ekki gömul í alþjóðlegu samhengi og var fyrst viðurkennd sem ólympísk íþróttagrein í Japan árið 1964. En hvenær komst þú í kynni við blakíþróttina? Eftir stúdentspróf árið 1961 fór ég til Noregs og lærði veðurfræði í Ósló á árunum 1962–1968. Þá fóru blakhjólin að snúast hjá mér. Háskólastúdentar í Ósló stunduðu blak af kappi og voru reyndar Noregsmeistarar í greininni, ég byrjaði að æfa með þeim og heillaðist af íþróttinni í þessum góða félagsskap. Sovéskur sendiráðsblakari kemur til sögunnar Eftir að Albert kom heim úr námi hóf hann að vinna á Veðurstofunni og kannaði möguleikana á að æfa blak í Reykjavík. Ég komst að því að það var nær eingöngu Íþróttafélag stúdenta (ÍS) sem stundaði greinina og ég gekk í það félag, segir hann. Ég varð formaður blakdeildar ÍS og jafnframt þjálfari og fékk til liðs við mig starfsmann í sovéska sendiráðinu í Reykjavík. Þá var blakíþróttin í hávegum höfð í Sovétríkjunum og reyndar í öllum löndum í austanverðri Evrópu. En blaklífið hérna á Íslandi var ansi dauflegt, engin keppni og ekkert blak á dagskrá innan ÍSÍ. Ég hugleiddi meira að segja að flytja aftur til Noregs og spila þar áfram með mínum fyrri félögum. Fluttir þú aftur utan? Nei, ég settist að á Íslandi og ákvað að vinna að framgangi greinarinnar hérlendis, ræddi við fulltrúa ÍSÍ og fljótlega tóku blakhjólin að snúast. Fyrsta opna blakmótið var haldið á Akureyri árið 1969, fyrsta Íslandsmótið ári síðar og Blaksamband Íslands (BLÍ) var stofnað árið 1972. Ég var kjörinn fyrsti formaður þess og vann mikið fyrir sambandið að fræðslu- og útbreiðslumálum. Blakdeildir Víkings og Þróttar í Reykjavík voru stofnaðar. Víkingar stunduðu æfingar í íþróttahúsinu við Vörðuskóla skammt frá Austurbæjarskólanum og Þróttarar fengu góða æfingaaðstöðu í íþróttahúsinu við Vogaskóla þar sem síðar varð Menntaskólinn við Sund. Fyrsti landsleikurinn í karlaflokki var við Norðmenn árið 1974 á Akureyri og sama árið hófst Íslandsmeistaramót í blaki kvenna þannig að málin þróuðust hratt á þessum árum. HK stekkur á blakvagninn Fóruð þið ekki í keppnisferðir um landið á þessum árum? Jú, eftir að blakíþróttin breiddist út fór ég mikið með yngri flokkana úr HK út á land, meðal annars með rútu austur á Neskaupstað þar sem blakið náði öflugri fótfestu. Þessar ferðir voru langar og strangar, ekið var austur á föstudegi, leikið á laugarAlbert H.N. Valdimarsson var útnefndur félagsmálamaður UMSK árið 1983.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==