Aldarsaga UMSK 1922-2022

56 Almenn andstaða innan félagsins við bindindisheit UMFÍ varð til þess að Umf. Miðnesinga sagði sig úr UMSK árið 1926. Það var þó ekki vegna þess að félagar þess væru brotlegri en annarsstaðar heldur vildu þeir ekki sitja undir ákvæði sem ekki væri haldið. Stjórn UMSK sendi erindreka sína til Sandgerðis til að reyna að fá menn til að breyta afstöðu sinni en það bar ekki árangur. Undantekningarlaust hafa félög sem gengu úr heildarsamtökunum orðið skammlíf og þannig fór um Ungmennafélag Miðnesinga. Það endaði tilveru sína á kreppuárunum eins og reyndar fjölmörg önnur ungmennafélög. Ungmennafélag Akraness Ungmennafélag Akraness var stofnað 23. janúar 1910 af 45 stofnfélögum. Þeim fjölgaði skjótt og urðu von bráðar á annað hundrað. Helstu frumkvöðlar að stofnun félagsins voru Haraldur Böðvarsson, Oddur Sveinsson og Sveinbjörn Oddsson. Þeir urðu allir velþekktir í bæjarlífinu á Akranesi. Haraldur varð helsti atvinnurekandinn, Sveinbjörn verkalýðsforingi, bókavörður og bæjarfulltrúi og Oddur varð kaupmaður og landsþekktur fréttaritari Morgunblaðsins. Þegar í upphafi urðu málfundir félagsins mjög öflugir og voru haldnir yfir 400 slíkir á lífdögum þess. Auk þess voru haldnir skemmtifundir á vetrum og farið í skemmtiferðir á sumrin. Félagið gekk í UMSK vorið 1923 og starfaði innan þess næstu árin. Það var UMSK mikill styrkur að fá þetta öfluga félag til liðs við sig í byrjun því það hafði afburðamönnum á að skipa að sögn Guðbjörns Guðmundssonar, fyrsta formanns UMSK. Handskrifað blað félagsins, Morgunroðinn, var lesið upp á fundum og komu út af því um 270 tölublöð með fjölbreyttu efni sem félagar sömdu sjálfir. Kom í ljós þar sem oftar að víða leyndust rithöfundar. Sandgerðispósturinn var annað blað sem ungmennafélagið gaf út árin 1924–1926 og var sérstaklega ætlað sjómönnum frá Akranesi sem reru frá Sandgerði. Þar voru sérdeilis góð fiskimið og á þessum tíma má segja að Skagamenn hafi gert út frá Sandgerði. Blaðið var sent á milli Akraness og Sandgerðis og lesið upp úr því á fundum ungmennafélagsins á báðum stöðum. Eitt merkasta framtak félagsins var að koma á fót unglingaskóla á Akranesi sem starfaði í fjóra mánuði hvern vetur. Starfsemi hans hófst haustið 1910 og var á vegum félagsins meðan það starfaði og reyndar allt þar til gagnfræðaskóli var stofnaður 1943. Þar voru kenndar allar almennar námsgreinar enda var skólinn styrktur af ríkinu. Þangað sóttu fjölmargir unglingar af Skaganum menntun sína sem annars hefði vísast engin orðið. Kennarar barnaskólans sáu um kennsluna. Félagið stóð líka fyrir fjölmörgum námskeiðum og þar má nefna: Námskeið í bursta- og körfugerð 1923 og 1925, matreiðslunámskeið fyrir húsmæður 1926 og námskeið í vikivökum 1928. Í ársskýrslu félagsins fyrir árið 1924 var þessa umsögn að finna: Árshátíð félagsins var haldin 1. desember á s.l. ári. Söng þá æfður flokkur nokkur lög auk þess er ræður voru fluttar. Skemmt var og með því að fara í leiki og dansa. Félagið starfrækir og sér um bókasafn hreppsins og heldur eina til tvær skemmtisamkomur árlega til ágóða fyrir það. Húseign félagsins er metin á 5000 krónur.14 Íþróttalífið var öflugt í félaginu fyrstu árin og einkum stunduð leikfimi, sund og glíma. Engir voru syndir í sjávarplássinu Akranesi við stofnun félagsins en hópur pilta fór á þess vegum til sundnáms við Leirárlaug 1912 og gerðust fullsyndir. Félagið byggði sundskála í fjörunni 1928 og þar voru haldin sundnámskeið árlega. Árið 1931 var „sundskáli félagsins færður inn á Langasand sem talinn er álitlegasti baðstaður nærlendis“, stóð í ársskýrslu félagsins. Árið eftir var haldið þar 20 manna sundnámskeið en skálinn eyðilagðist í stórbrimi árið 1933. Árið 1912 keypti félagið helming hins svonefnda Báruhúss á Akranesi sem var stórt og veglegt, enda aðalsamkomuhús bæjarins. Nokkru síðar tók það að sér að starfrækja bókasafn hreppsins sem hafði verið í ólestri. Félagið jók bókakostinn töluvert og komst hann upp í 2000 bindi. Lengi starfaði söngflokkur innan félagsins og síðast en ekki síst var félagið brautryðjandi í leiklistarmálum staðarins. Félagið var lengstum allfjölmennt og félagsmenn þess á annað hundrað. Það merkilega var að konur voru allan tímann talsvert fleiri en karlarnir. Við stofnun knattspyrnufélaganna Kára og Akraness árin 1922 og 1924 drógust íþróttamálin til þeirra úr höndum ungmennafélagsins. Þá sneri stjórn félagsins sér að fjáröflun fyrir íþróttamannvirkin og safnaði miklum fjármunum sem fóru til þess að byggja fyrsta íþróttahús bæjarins. En þetta hafði sín áhrif til fækkunar félagsmanna og við upphaf heimskreppunnar fór að draga af félaginu. Síðasti aðalfundur þess var haldinn árið 1934. Síðast fréttist af félaginu árið 1941 þegar ákveðið var að selja Báruhúsið. Ekki fannst lífsmark með félaginu eftir það en það var um sína daga eitt hið merkasta menningarfélag á Akranesi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==