Aldarsaga UMSK 1922-2022

55 í Vindáshlíð. Fyrir hvatningu félagsins risu upp skrúðgarðar á heimilum allmargra félagsmanna og svo sannarlega stuðlaði Umf. Drengur að ræktun lýðs og lands. Húsnæðisleysi háði starfseminni en fundir voru haldnir á þeim bæjum sem best voru hýstir. Árið 1923 lagði félagið fram fé á móti hreppnum til að stækka þinghúsið á Reynivöllum. Þar var aðsetur félagsins allt þar til ráðist var í byggingu félagsheimilisins Félagsgarðs á fimmta áratug síðustu aldar. Samhjálp var ríkjandi í störfum félagsmanna og allmörg sumur unnu þeir dagstund við heyskap hjá einhverjum sveitungum sínum þar sem þörfin var brýnust hverju sinni. Ekki gleymdu menn heldur að lyfta sér upp en það var föst regla að fara í skemmtiferð einu sinni á sumri. Félagsmönnum fjölgaði ört og tala þeirra var orðin 134 árið 1942. Það var næstum helmingur af íbúum sveitarfélagsins svo óhætt er að segja að Ungmennafélagið Drengur hafi átt góðan hljómgrunn á sínum heimaslóðum. Ungmennafélag Miðnesinga Ungmennafélag Miðnesinga í Sandgerði var stofnað 4. mars 1920. Stofnendur voru 20 talsins en félögum hafði fjölgað um helming tveimur árum síðar. Varðveist hafa skýrslur félagsins til UMFÍ fyrir árin 1922 og 1924 og segir nú frá þeim. Árið 1922 var formaður Einar Gestsson, lausamaður í Norðurkoti, ritari var Stefán Jóhannsson og gjaldkeri Magnús Pálsson, vinnumaður á Hvalsnesi. Glímukennari kom og kenndi mönnum glímutökin á þriggja vikna námskeiði og svo var haldin glímusýning að því loknu. Íþróttaáhuginn blossaði upp og félagið sendi mann til keppni á Allsherjarmót ÍSÍ 1923. Það var Friðjón Jóhannsson sem keppti í spretthlaupum. Árið 1924 hélt félagið 10 málfundi og á sex þeirra var félagsblaðið Miðnesingur lesið upp. Félagsmenn gáfu 104 dagsverk í vegalagningu fyrir Miðneshrepp og lánuðu auk þess stóra fjárhæð til vegagerðarinnar. Félagsmenn voru þá 55 talsins en þar af aðeins fjórar konur. Að frátöldum þessum skýrslum er sannast sagna fremur fátt vitað um æviferil Umf. Miðnesinga en hér skal tínt til það helsta. Félagið var ekki fjölmennt en félagar þess voru hugsjónaríkir og dugandi menn og komu mörgum góðum verkum á rekspöl. Það átti hvorki land né hús en tók allstóran blett á leigu árið 1926 sem það ræktaði á næstu árum. Á sumrin æfðu menn knattspyrnu. Til fjáröflunar æfði félagið og sýndi sjónleiki á vertíðum og hlaut góða aðsókn. Enn fremur hafði það fiskilóð sem formenn í Sandgerði tóku af félaginu til skiptis í róðra. Félagarnir verkuðu fiskinn sjálfir og seldu og þetta tvennt ásamt bögglauppboðum gaf talsvert af sér. Fyrsta ár sitt í sambandinu sýndu þeir góðan hug sinn til Þrastaskógar þegar þeir gáfu allvæna fjárhæð sem varð til þess að hægt var að hafa skógarvörð þar um sumarið. Enginn í félaginu hafði nokkru sinni komið í skóginn og þeir vissu ekki fyrr en á stofnfundinum að hann væri til. Íþróttamenn Aftureldingar og Drengs í skrúðgöngu við setningu fyrsta sameiginlega íþróttamóts félaganna á Kollafjarðareyrum 14. júlí 1918.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==