542 Best að vinna í grasrótinni, segir Ólafur Oddsson Ólafur Oddsson (1951–2023) ólst upp á Neðra-Hálsi í Kjós, hann gekk ungur til liðs við Ungmennafélagið Dreng og keppti á frjálsíþróttamótum, meðal annars í kúluvarpi. En það var þó ekki íþróttaáhuginn sem laðaði Ólaf að ungmennafélagshreyfingunni heldur félagslegi þátturinn sem höfðaði sterkt til hans eins og fram kemur í þessu viðtali sem Vilborg Bjarkadóttir tók við hann árið 2018. Drengur var menningarfélag Þótt ég væri „fæddur“ inn í Sjálfstæðisflokkinn hafði ég ekki áhuga á að starfa á sviði stjórnmálanna, segir Ólafur. Ég vildi vera þar sem fólk var ekki dregið í dilka eftir pólitískum línum, ungmennafélagið var farvegur fyrir fólk á öllum aldri með allskonar skoðanir, það er mikilvægt að slík fjöldahreyfing sé til. Í hverju var starfið í Dreng fólgið á þessum árum? Drengur var eiginlega menningarfélag sem hafði afskipti af ýmsum menningar- og hagsmunamálum í hreppnum. Félagið sá um íþróttavöllinn við Félagsgarð, það þurfti meðal annars að drena völlinn og einnig að sinna viðhaldi og endurbótum á Félagsgarði sem er í eigu Drengs, það var mjög viðamikið starf. Ég fór líka í ferðalög á vegum Drengs, fór fyrst á landsmót á Eiðum árið 1968, þá nýorðinn 17 ára gamall. Fólk mætti á fundi og skemmtanir á vegum ungmennafélagsins, það höfðu allir sterkar taugar til þess og vildu halda því á lífi. Við héldum félagsvist og samkomur með heimatilbúnum skemmtiatriðum, þar voru til dæmis leikþættir og eftirhermur. Svo fækkaði fólkinu í sveitinni og þá dofnaði yfir félagslífinu. Mengun hugarfarsins Umhverfismál hafa lengi verið Ólafi hugleikin, ekki síst skógrækt. Ég hef unnið mikið að skógræktarmálum og skógarnytjum, segir hann. Þetta hef ég líklega frá föður mínum, Oddi Andréssyni, sem var mikil áhugamaður um skógrækt, hann gróðursetti skjólbelti á Neðra-Hálsi sem er ein fyrsta bújörð landsins sem var prýdd skjólbeltum. Það var mikill skógræktaráhugi í Kjósinni, bæði innan kvenfélagsins og ungmennafélagsins. Hjá mér þróaðist þetta í áhuga á sjálfbæru samfélagi og umhverfismálum almennt, til dæmis að nytja afurðir skógarins betur, ég bjó til verkefnið „Lesið í skóginn“ sem snýst um það. Ég man að ég hélt einu sinni ræðu hjá Dreng þar sem ég talaði um „mengun hugarfarsins“ og fjallaði í raun og veru um umhverfismál. Ég veit ekki hvort allir hafi skilið ræðuna, í Kjósinni var mjög rótgróið og íhaldssamt samfélag. Best að vinna í grasrótinni Starfaðir þú ekki líka innan UMSK? Jú, það gerðist gegnum Guðmund Gíslason frænda minn á Neðra-Hálsi, við þóttum sterkir á félagsmálasviðinu en síður í íþróttunum. Ég var formaður UMSK um skeið og einnig framkvæmdastjóri um hríð. Starfið snerist mikið um héraðsmót, landsmót og fjáraflanir. Við leituðum eftir styrkjum og seldum einhverjar vörur. Það hjálpaði Dreng að ég var í forystu fyrir UMSK en mér fannst starfið ekkert sérstaklega skemmtilegt, þetta voru svo mikil skylduverkefni, bréfaskriftir, fundarhöld og að sjá til þess að aðildarfélögin skiluðu skýrslum. Mér fannst það talsvert erfitt að láta UMSK virka sem eina heild, ég vildi frekar vinna í grasrótinni enda líður mér sjálfum best við að tálga nytjahluti úr trjáspýtum, ég fer stundum með kennaranema upp í Kjós til að láta þá komast í snertingu við skóginn. Mér finnst það mikilvægt að félagasamtök líkt og UMSK setji manngildið, jafnréttið og sjálfbærni á oddinn, það er betra en að láta keppnisíþróttirnar ráða för, segir Ólafur Oddsson að lokum.728 Ólafur Oddsson setti manngildi, jafnrétti og sjálfbærni á oddinn í starfi sínu innan UMSK.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==