Aldarsaga UMSK 1922-2022

541 æskunni, haldin voru jólaböll, spilakvöld og íþróttaæfingar. Starfsemin var fjármögnuð af lottófé en þegar það hætti að berast, hætti starfsemin einnig. Síðasta áratuginn hefur félagið legið í dvala án þess þó að hætta formlega störfum.“727 Á aldarafmælinu 2015 var gerð tilraun til að endurvekja þetta fornfræga félag eftir að starfið hafði legið í láginni um skeið. Endurreisnarfundurinn fór fram í Félagsgarði og þar var kynnt nýútkomin aldarsaga Drengs. Guðný Ívarsdóttir var kjörin nýr formaður félagsins, hún hafði verið formaður félagsins á 8. áratugnum og er eina konan sem gegnt hefur formennsku í langri sögu Drengs. Árið 2016 bauð félagið upp á leikfimi fyrir fullorðna, kennari var Alfa R. Jóhannsdóttir og voru þessir tímar vel sóttir. Ætlunin var að hafa íþróttanámskeið fyrir börn og unglinga þá um sumarið en ekki tókst að fá þjálfara. Staðreyndin varð því miður sú að ekki tókst að glæða Dreng lífi til lengri tíma litið og frá árinu 2020 er þetta sögufræga félag ekki lengur aðili að UMSK. Allir á hjólum Hjólreiðar hafa átt miklum vinsældum að fagna síðustu ár meðal almennings sem þeysir um götur, stíga og fjöll á hjólhestum. Sumir taka þátt í keppni, bæði heima og erlendis, aðrir stunda eingöngu hjólreiðar vegna félagsskaparins, ánægjunnar og heilsunnar. Hjóladeildir eru starfandi innan Breiðabliks og Aftureldingar og tvö hjólafélög hafa verið aðilar að UMSK. Hjólreiðafélagið Hjólamenn Hjólreiðafélagið Hjólamenn var stofnað 11. nóvember 2004. Stofnfélagar voru 33, félagið var með aðsetur í Kópavogi og gekk í UMSK. Hjólamenn tóku á móti öllu áhugafólki um hjólreiðar, félagið gekkst fyrir æfingum tvisvar í viku allt árið og einni æfingu innanhúss á veturna. Einnig skipulögðu Hjólamenn keppnir og aðra viðburði sem tengjast hjólreiðum og störfuðu af miklum krafti um skeið. Árið 2012 hélt félagið sjö hjólakeppnir, þar á meðal keppni við færeyska hjólamenn. Félagið gekk úr UMSK árið 2020. Þríhjól Þríhjól var hjólreiðafélag í Kópavogi sem var stofnað árið 2014 og gekk í UMSK tveimur árum síðar. Félagið var í samstarfi við Þríþrautafélag Kópavogs (Þríkó) og héldu félögin sameiginlegar æfingar. Árið 2015 var lagt af stað í æfingarnar frá Sundlaug Kópavogs þrisvar í viku og þá um sumarið hélt félagið hjólreiðakeppni sem fór fram á Krýsuvíkurveginum. Þríhjól var lagt niður árið 2017. Fólk sem hefur gegnt formennsku í Ungmennafélaginu Dreng, talið frá vinstri: Kristján Oddsson, Þórir Hermannsson, Guðmundur Davíðsson, Guðbrandur Hannesson, Guðný Ívarsdóttir, Hörður Guðbrandsson og Hreiðar Grímsson. Guðný heldur á ljósmynd af formönnum Drengs.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==