54 ins 1922 við upphaf UMSK. Þeim hafði aftur fækkað í 60 árið 1942, við lok þess tímabils sem hér er um fjallað. Eftir miðja öldina fór Aftureldingu hinsvegar að vaxa góður fiskur um hrygg enda fór Mosfellssveitungum þá fjölgandi. Ungmennafélagið Drengur Ungmennafélagið Drengur í Kjósarhreppi var stofnað 1. ágúst 1915. Helsti hvatinn að stofnun félagsins var iðkun íþrótta. Nokkur undanfarin sumur höfðu ungir menn sveitarinnar komið saman á Bugðubökkum á sunnudögum og sparkað á milli sín fótknetti. Þangað kom Þorleifur Guðmundsson er síðar varð ráðsmaður á Vífilsstöðum og hvatti íþróttakappana til að stofna ungmennafélag fremur en að standa í þessum eltingaleik við knöttinn. Þeir brugðust vel við og stofnuðu félagið næsta sunnudag á Bolteyrinni sem þá hafði fengið nafn sitt af knattleikunum. Stofnendur voru tæplega tuttugu ungir menn en konurnar fylgdu í kjölfarið um veturinn. Það kom þannig til að halda skyldi álfadans á nýársdag en þá vantaði álfameyjar. Fótboltadrengjunum tókst að lokka þær til liðs við sig í félagið sem varð öllu skemmtilegra fyrir bragðið. Félagið gekk til liðs við UMFÍ og ÍSÍ þegar á fyrsta starfsári sínu. Fyrstu stjórn félagsins skipuðu þeir Þorgils Guðmundsson á Valdastöðum formaður, Ellert Eggertsson Meðalfelli ritari og Halldór Jónsson Káranesi gjaldkeri. Í fyrstu lögum þess stóð í 2. grein að tilgangur þess væri að „glæða drengskap og fjelagsanda fjelagsmanna og efla dáð þeirra og dug.“ Um markmið þess sagði svo í 3. grein: Tilgangi sínum vill félagið ná með því að iðka ýmiskonar íþróttir, svo sem sund, glímur, knattspyrnu og fleira. Ennfremur gangast fyrir um ræðuhöld og fyrirlestra fræðandi eða vekjandi efnis.12 Félagsmenn Drengs létu ekki deigan síga við íþróttirnar og fljótlega hófust hinar sögufrægu viðureignir við nágrannafélagið Aftureldingu. Þar var keppt áratugum saman í frjálsíþróttum, sundi og glímu. Svo gátu hinir sauðléttu hlaupagarpar félagsins sér mikinn orðstír í víðavangshlaupum á þriðja áratugnum. Kappsláttur var óvíða stundaður en Drengir munduðu orfin nokkrum sinnum á innanfélagsmótum og bestu sláttumennirnir hlutu verðlaun. Kjósarmenn voru engir nýgræðingar í félagsmálum þegar Drengur kom til sögunnar því þar hafði lengi starfað svokallað Bræðrafélag Kjósarhrepps, menningarfélag sem lauk göngu sinni árið 1978 eftir næstum heillar aldar starf. Þegar frá byrjun urðu fundir Drengs margir, langir og fjörugir. Um það vitna fundargerðir sem oft eru allmargar blaðsíður. Fyrstu árin voru fundir mánaðarlega en fækkaði fljótlega niður í þetta sex til átta fundi á ári og hélst þannig lengi. Allir fundir byrjuðu og enduðu með söng að sið góðra ungmennafélaga og fóru vel og skipulega fram í hvívetna. Á hverjum fundi voru skipaðir þrír framsögumenn fyrir næsta fund og völdu þeir hver sitt umræðuefni sem gat enst málglöðum ungmennafélögum vel og lengi enda átti félagið marga mælskumenn. Sérstöku ástfóstri tóku menn við tvo daga ársins; öskudag og sumardaginn fyrsta. Þá daga voru alltaf fundir og aðrar samkomur ef hægt var að halda þær. Öskudagsfundirnir voru útbreiðslufundir og fastur liður var að lesa upp glensfullar vísur sem borist höfðu í öskupokum til formannsins. Fékk þar margur eldheita ástarjátningu en stundum voru áhöld um að þeir sem voru skráðir fyrir vísunum væru hinir réttu höfundar. Stundum voru haldnar barnaskemmtanir á sumardaginn fyrsta. Einu sinni á ári voru haldnir skemmtifundir og þar voru fluttir fyrirlestrar, sýndir leikþættir, lesið upp, sungið og náttúrlega dansað. Drengsmenn voru ritglaðir með afbrigðum og margir ágætlega ritsnjallir. Á fyrsta ári stofnuðu þeir félagsblaðið Draupni og lásu það upp á fundum. Árið eftir var blaðið skírt upp og nefnt Hreiðar heimski eftir söguhetju fornsagna sem reyndar var spekingur hinn mesti. Hreiðar heimski var mikill viskubrunnur og áratugum saman kom blaðið út á hverjum fundi Drengs, sex til sjö tölublöð árlega. Blaðið var skrifað inn í þykkar bækur í stóru broti og blaðsíðurnar gátu skipt tugum í hverju blaði. Það kom út óslitið til ársins 1957. Til eru í vörslu félagsins tíu bindi af Hreiðari heimska og sum þeirra mikil að vöxtum. Kjósaringar voru hagmæltir enda var drjúgur hluti efnisins í bundnu máli. Þarna birtust frumsamdar sögur og ljóð, frásagnir af ferðalögum og fyrirbærum og stundum brýndu menn brandinn og tókust á um félagsleg málefni. Staka á titilblaði einnar bókarinnar hljóðaði svo: Nú birtist í Hreiðari boðskapur enn í batnandi sögum og ljóðum. Þörf er þó enn fyrir þroskaða menn og þétting af laglegum fljóðum.13 Á fyrsta ári félagsins gaf einn af bændum sveitarinnar því landblett til ræktunar. Þar voru ræktaðar kartöflur um tíma og árið 1928 girtu félagsmenn dálitla skógarbrekku
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==