Aldarsaga UMSK 1922-2022

53 hefir í smíðum stærsta samkomuhúsið sem nokkurt ungmennafélag hefir látið reisa. Það er gert úr steinsteypu. Félagarnir hafa unnið mjög mikla sjálfboðavinnu við húsið í sumar.“ Þetta bar þann árangur að húsið Brúarland var tekið í notkun um haustið enda var það jafnframt skólahús. Ungmennafélagar töldust ekki eigendur en höfðu afnotarétt af húsinu. Þannig nutu þeir góðs af láninu. Brúarland var helsti samkomustaður sveitarinnar allt til ársins 1951 þegar félagsheimilið Hlégarður reis af grunni. Íþróttir áttu upp á pallborðið hjá Aftureldingarmönnum en ekki -konum því karlarnir voru lengi einir um hituna eins og víðast hvar annars staðar. Fyrsta íþróttamót félagsins var haldið með hátíðarbrag sumarið 1912. Það hófst með skrúðgöngu og ræðuhöldum en síðan glímdu sjö drengir af kappi. Ekki færri en 13 reyndu sig í 400 metra hlaupi og svo kom hástökk, langstökk og sund. Mótið fór hið besta fram og nú voru menn komnir á bragðið. Árið eftir var haldið íþróttamót númer tvö og þar var glímt, hlaupið og stokkið. 1915 fór þriðja mótið fram á Hafravatnseyrum og þá gerðust þau tíðindi að fjórar stúlkur sýndu leikfimi. „Þótti þeim takast allvel,“ segir í Litlu bókinni en ekki fréttist neitt meira af íþróttum kvenna næstu áratugina. Nú fóru menn að hugsa lengra og tóku upp samstarf við nágrannafélagið Dreng í Kjósinni. Fyrsta íþróttamót félaganna fór fram árið 1918 og fóru mótin síðan fram árlega allt fram á 6. áratuginn. Þar spreyttu sig margir vaskir drengir í frjálsíþróttum, sundi og glímu enda var mikill áhugi fyrir íþróttum í báðum félögunum. Sjaldgæft var að Aftureldingarmenn kembdu hærurnar í formannsstólnum. Fyrstu 30 árin sátu 13 formenn og fæstir nema eitt til tvö ár í senn. Undantekningarnar voru Sólveig Björnsdóttir sem var formaður í fimm ár og Grímur Norðdahl sem sat í átta ár. Svipað var uppi á teningnum með ritarana sem voru 19 á þessum tíma en gjaldkerar þó ekki nema 11. Þetta skapaði heilmikla fjölbreytni en kannski ekki eins mikla festu hjá Aftureldingu. En svo margir voru um boðið í stjórnarstörfum félagsins að enginn bilbugur sást á því þótt lykilmenn hyrfu á braut. Maður kom manns í stað. Félagsmenn Aftureldingar voru til dæmis nokkuð ánægðir með frammistöðu sína árið 1924 og gáfu henni þessa umsögn í ársskýrslu til UMFÍ: Félagið á mörgum góðum íþróttamönnum á að skipa; hlaupurum, glímumönnum og fleirum, enda alltaf með vinningahæstu félögum á landsmótum og oftar. Á fundum eru rædd félagsmál, sveitamál og almenn landsmál. Þar eru sögur sagðar, talað um útkomnar bækur og fleira. Samfundina á Akranesi og í Þrastaskógi sótti félagið allra félaga best. Félagið tók á móti Norðmönnum fimm, voru þeir gestir þess í þrjá daga. Ýmis sveitamál sem miklu skifta hefur félagið látið til sín taka eða átt forystu.11 Félagið var sæmilega fjölmennt eftir því sem þá gerðist og til dæmis voru tíundaðir 80 félagsmenn í skýrslu ársSamkomu- og skólahúsið Brúarland í Mosfellssveit. Myndin er tekin árið 2005. Minni Aftureldingar Íslandi allt! Það eru ekki nema tvö orð en þýðing þeirra verður ekki sögð með tveimur orðum. Við höfum oft heyrt þetta, bæði fyrr og síðar en Íslandi verður ekki unnið allt með orðunum einum því „orð, orð, innantóm / fylla storð fölskum róm.“ Það verður líka að koma fram í verkinu og þetta er það sem ungmennafélögin eru að berjast fyrir. Á það benda hin einkunnarorðin: Hraust sál í hraustum líkama. Því aðeins nýtur Ísland starfskrafta vorra að einhverjir séu en ég hugsa að við vinnum Íslandi mest gagn með því að styrkja bæði líkama og sál. Því að sá sem ekki er hraustur á líkama og sál, hann er líka ónýtur til vinnu. En sökum þess hve menn hafa verið áhugalausir fyrir líkamsíþróttum nú á síðari öldum hafa margir dáið úr vesöld og hættulegum sjúkdómum þegar á unga aldri. Þessu vilja ungmennafélögin sporna við og því takmarki ættu þau að ná með því að iðka íþróttir þær er forfeður vorir héldu mest upp á svo sem sund, glímur og þær aðrar er margsannað er að til styrkingar eru líkama og sál svo sem leikfimi og fleira.10

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==