Aldarsaga UMSK 1922-2022

520 að fara á æfingar kl. 7 á morgnana út á völl fyrir mótið, og ekki var neinum þægindum fyrir að fara, aðeins tjöld til að skipta um föt í. Þetta vakti töluverða undrun, og fólk vissi ekki, hvort það ætti heldur að hneykslast eða dást að þessu framtaki stúlknanna. En fyrir þeim vakti það eitt að vekja áhuga kvenna á leikfimi, sem varð ekki heldur árangurslaust, það sýna framfarir seinni ára.“683 Með setningu íþróttalaganna árið 1940 varð leikfimi að skyldunámsgrein í skólum og árið 1947 kom út bókin „Leikfimi“ eftir Aðalstein Hallsson íþróttakennara. Undirtitill bókarinnar var „Tuttugu og átta stundaskrár. Kerfi fyrir barnaskóla. Örvunaræfingar í skólastofu. Skólastofuleikfimi og æfingar í sal án áhalda.“684 Fyrsta Íslandsmótið í fimleikum karla var haldið árið 1927 og árlega næstu 11 árin en féll síðan niður til ársins 1968 þegar mótið var endurvakið og keppt bæði í karla- og kvennaflokki. Fimleikasamband Íslands var stofnað það sama ár.685 Um svipað leyti jókst almennur áhugi á fimleikum. Innan UMSK voru fimleikar ekki ráðandi í starfi félaganna fram eftir öldinni en þar kom að konur í Kópavogi gripu til sinna ráða eins og hér verður greint frá. Konur stofna félag Árið 1970 bjuggu um 18 þúsund manns á félagssvæði UMSK, þar af um 11 þúsund í Kópavogi.686 Ungmennafélagið Breiðablik var öflugt og ráðandi í íþróttalífi bæjarins sem fór ört stækkandi, þar var að skapast jarðvegur og þörf fyrir ný íþróttafélög. HK var stofnað árið 1970 og Íþróttafélagið Gerpla 25. apríl 1971, viðfangsefnið var fyrst og fremst fimleikar, enda tefldi félagið fram einkunnarorðunum „Fimleikar – fögur íþrótt“. Félagið gekk í UMSK það sama ár, þar með voru aðildarfélög UMSK níu talsins með samtals 2035 félagsmenn. Stofnun Gerplu markaði tímamót í sögu fimleika á Íslandi, félagið varð á undraskömmum tíma stórveldi á þessu sviði og braut um leið ísinn fyrir fimleikadeildir í öðrum UMSK-félögum. Í afmælisriti Gerplu frá árinu 1991 rifjaði Ingvar Árnason, formaður félagsins, upp stofnun þess sem bar að með sérstökum hætti: „Í dag eru liðin 20 ár síðan hópur kvenna kom saman í Kópavogi til þess að stofna nýtt íþróttafélag. Hópur þessi hafði verið að berjast fyrir bættri aðstöðu til að stunda leikfimi sér til heilsubótar. Erfiðlega gekk að fá tíma í íþróttahúsum Kópavogs, þar sem þær voru ekki í íþróttafélagi og þau íþróttafélög, sem fyrir voru í Kópavogi höfðu á þeim tíma ekki áhuga á að styðja starfsemi þeirra, þannig að þeirra úrræði var að stofna sitt eigið íþróttafélag. Frá upphafi var þeirra hugsun að stofna og starfrækja félag til að sinna íþróttum, sem ekki áttu mest upp á pallborðið hjá íþróttaheyfingunni – þeirra félag skyldi vera öðruvísi og með öðrum áherslum.“687 Reykvískar stúlkur sýndu fimleika á Melavellinum snemma á 20. öld. Þá þótti við hæfi að konur legðu áherslu á kvenlegan þokka í íþróttum en leiddu hjá sér hörð keppnisátök.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==