Aldarsaga UMSK 1922-2022

51 þess að hnigna. Frumkvöðlar hurfu á braut og sporgöngumönnum tókst ekki að halda merki þeirra á lofti. Sundurlyndi fór vaxandi innan félagsins og voru töluverðir flokkadrættir á milli manna. Húsbyggingin kostaði meira en bolmagn félagsins leyfði og fjárkröggur vegna hennar drógu mátt úr því. Undir lokin linnti ekki háum skuldakröfum fyrir gjaldfallna víxla og ógreiddar vörur og niðurstaðan varð gjaldþrot félagsins. Þegar 30 tryggustu félagsmennirnir gengu úr því á einu bretti var starfsemi þess sjálfhætt og vorið 1925 var þetta fornfræga félag lagt niður. Ungmennafélagið Afturelding Ungmennafélagið Afturelding í Mosfellssveit var stofnað 11. apríl 1909. Það er eitt hið farsælasta og söguríkasta ungmennafélag landsins og hefur starfað með ágætum frá fyrstu tíð eins og hin veglega aldarafmælisbók þess, Dagrenningur sem kom út árið 2009, ber með sér. Bókin er hin besta heimild og til hennar er meðal annars sótt efni í þennan kafla. Konur voru lítt áberandi í ungmennafélögum framan af en félagsmenn Aftureldingar kusu Guðrúnu Björnsdóttur í Grafarholti sem fyrsta formann sinn, en slíkt var næstum einsdæmi á þeim tíma. Að öðrum ólöstuðum var hún lífið og sálin í starfsemi félagsins fyrstu árin. Hún sat 14 ár í stjórn þess, ýmist sem formaður eða fundarstjóri, en það embætti tilheyrði lengi stjórnarstörfunum. Þá var hún lengi í ritstjórn félagsblaðsins Dagrennings og sat í fleiri nefndum og ráðum á vegum félagsins en hægt myndi upp að telja. Guðrún kom víða við í félagsmálum og sat meðal annars í stjórnum bæði FS og UMFÍ og síðar UMSK. Hún var barnakennari að mennt og einn af nemendum hennar, Halldór Guðjónsson sem síðar kallaði sig Laxness, sagði í afmælisblaðinu Dagrenningi sem út kom 1959 að hún hefði verið frumkvöðull, hvatamaður góðra hluta og framkvæmdaskörungur í þessu félagi. Nokkurskonar andleg fóstra ungmennafélagsins Aftureldingar. Fyrstu starfsár Aftureldingar einkenndust af fjölbreytni og eldmóði eins og segir í aldarsögu félagsins. Margar háfleygar hugmyndir litu dagsins ljós og ýmsar þeirra komust í framkvæmd. Heimilisiðnaður, skemmtiferðir, sundkennsla, skógrækt og vikivakar voru meðal verkefnanna. Félagar störfuðu af mikilli ósérhlífni og föðurlandsástin var sá drifkraftur sem hvatti alla til góðra verka. Systkinin frá Grafarholti, Steindór, Björn, Sólveig, Guðrún, Þórunn, Sigríður og Helga Björnsbörn, voru lengi í framvarðasveit félagsins. Grímur Norðdahl á Úlfarsfelli sem var lítið fyrir að hneigja höfuð fyrir þeim sem þóttust hærra settir lýsti því eitt sinn svo fyrir söguritara: Það leit nú ekkert smávegis stórt á sig fólkið þarna í Grafarholti. Ég fékk bréf frá þeim fljótlega eftir að ég var orðinn formaður um að góður félagi okkar vildi segja sig úr félaginu og það ætti að strika hann út en ég vissi betur og það fylgdi ekkert umboð. Ég var nú snemma það mikill lögfræðingur að þessu bréfi stakk ég bara í rassvasann og lét engan mann sjá það. En einu sinni komu þau eitthvað seint á skemmtun á Lágafelli systkinin frá Grafarholti og dansinn var byrjaður þegar þau birtust. Þá sagði ein systirin stórhneyksluð: „Fólkið er bara farið að dansa stjórnlausan vals þó allt aðalfólkið sé ekki komið!“ En þetta var nú samt dugnaðarfólk og það gerði marga góða hluti fyrir félagið.8 Fundir Aftureldingar voru fjörugir og fjölmennir og hófust og enduðu með söng, ósjaldan sálmasöng því menn voru sannkristnir í Mosfellssveitinni. Á fundunum voru málin rædd og ótrúlega margt milli himins og jarðar tekið til umræðu. Svo voru málin sett í nefnd og sum sofnuðu þar en önnur báru ávöxt. Framan af voru fundGuðmundur Sigurjónsson var frækinn glímukappi, Ólympíufari og kenndi íþróttir á vegum ungmennafélaganna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==