Aldarsaga UMSK 1922-2022

494 Risalandsmótið Landsmót UMFÍ í Kópavogi 5.–8. júlí 2007 Árið var 2007 Ekkert var til sparað þegar landsmót UMFÍ var haldið í Kópavogi sumarið 2007, á 85 ára afmæli UMSK. Þetta var árið þegar allir vegir virtust færir á Íslandi, ekkert var ógerlegt, von var á heimsfrægum, erlendum kringlukösturum á mótið og jafnvel búist við að heimsmetið myndi fjúka, ef það tækist ekki væri að minnsta kosti hægt að setja heimsmet í vatnsbyssuslag sem var einnig á dagskrá landsmótsins. Mikið var lagt í allan undirbúning fyrir mótið, Kópavogsvöllur var endurbyggður og ný áhorfendastúka tekin í notkun. Kostnaðaráætlun fyrir allt mótið hljóðaði upp á 57 milljónir króna. Gerðir voru samningar við aðalstyrktaraðila landsmótsins sem voru Sparisjóður Kópavogs, Toyota, Rúmfatalagerinn, Bónus, Norvik og Vífilfell. Í fáum orðum sagt: Landsmót UMFÍ árið 2007 tókst afar vel en því er svo við að bæta að rúmu ári síðar hrundi íslenska bankakerfið og forsætisráðherra landsins mælti þessi fleygu orð: Guð blessi Ísland! Allir með! Níu manna landsmótsnefnd tók tímanlega til starfa og skipti með sér verkum. Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, var formaður nefndarinnar. Af hálfu UMFÍ sátu þar Björn B. Jónsson, formaður UMFÍ, Anna R. Möller, Sæmundur Runólfsson og Ómar Geir Þorgeirsson. Birgir Ari Hilmarsson, framkvæmdastjóri UMSK, var ritari á fundum nefndarinnar og af hálfu UMSK voru Valdimar Leó Friðriksson, Þórður Guðmundsson, Jón Finnbogason og Ester Jónsdóttir í nefndinni. Ester segir frá: „Þetta var fjölmenn nefnd sem sá um allan undirbúning og skipulag fyrir mótið og tók tímanlega til starfa. Þetta var mjög mikil vinna en skemmtileg og lærdómsrík, margir unnu þarna mikið og óeigingjarnt starf. En mótsgestir voru ekki eins margir og búist hafði verið við, landsmótin á landsbyggðinni voru betur sótt, hvað sem olli því.“637 Auglýst var eftir framkvæmdastjóra landsmótsins og var Björn Hermannsson valinn úr hópi 14 umsækjenda. Þegar nær dró voru nokkrir ráðnir í hlutastarf til að vinna að undirbúningnum og opnuð sérstök netsíða fyrir mótið. Áhersla var lögð á þátttöku almennings, framleiddir voru stuttermabolir með áletruninni Allir með og þeim dreift um landið. Á mótinu yrði boðið upp á götuhlaup, ratleik, fitness, hjólreiðar, strandblak, tennis og æskuhlaup á meðan eldri ungmennafélagar áttu þess kost að skella sér í boccia, ringó, línudans, pútt eða golf. Götuhlaup á landsmótinu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==