Aldarsaga UMSK 1922-2022

488 Starfsíþróttir Keppnisgreinar í starfsíþróttum voru níu talsins: dráttarvélaakstur, gróðursetning, hestadómar, jurtagreining, „lagt á borð“, línubeiting, pönnukökubakstur, stafsetning og starfshlaup. 21 keppandi tók þátt í keppni í dráttarvélaakstri sem varð sífellt flóknari í samræmi við stækkandi dráttarvélar og viðameiri tækjabúnað. Karlmenn höfðu fram til þessa verið einráðir í greininni en nú brá svo við að kona var mætt á svæðið, Sigrún Hinriksdóttir úr UMSK, sem varð því miður að hætta keppni í miðjum klíðum þar eð henni mistókst í einni þrautinni. Bræðurnir Freyr og Grétar Vésteinssynir úr UMSS náðu bestum árangri í keppninni. Keppni í gróðursetningu var fólgin í því að gróðursetja 100 birki- og lerkiplöntur í beinni röð og á sem skemmstum tíma. Arnar Sigurbjörnsson úr UÍA bar sigur úr býtum, hann var 13 mínútur og 17 sekúndur að vinna verkið. Í hestadómum unnu tveir og tveir saman, hlutskörpust urðu Birna Káradóttir og Sigurður Óli Kristinsson sem kepptu fyrir HSK. Gróa Valgerður Ingimundardóttir úr HSK sigraði í jurtagreiningu og nafngreindi allar plönturnar á 4 mínútum og 19 sekúndum. Móðir hennar, Þórunn Kristjánsdóttir, hafnaði í 8. sæti, þær voru frá Vatnsenda í Villingaholtshreppi og höfðu æft sig á heimavelli í orðsins fyllstu merkingu. Keppni í starfsíþróttinni „lagt á borð“ var æsispennandi, Hrönn Sigurðardóttir úr HSÞ bar sigur úr býtum. Borð hennar bar heitið „Stemning við bæjarlækinn“ og vísaði til þess að Hrönn sótti efniviðinn í borðskreytingu sína í bæjarlækinn sinn á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnshreppi. Keppnin í línubeitingu vakti ætíð óskipta athygli áhorfenda á landsmótum en að þessu sinni mættu einungis sjö keppendur, enda hafði vélbúnaður leyst hraðar beitingahendur af hólmi. Heimamaðurinn Valgarð Valgarðsson bar sigur úr býtum í keppninni. Pönnukökubaksturinn er ævinlega vinsæl landsmótsgrein, bæði meðal keppenda og áhorfenda, að þessu sinni fór hún fram í reiðhöll Skagfirðinga sem var vígð sumarið 2001 og hlaut nafnið Svaðastaðir eftir þekktu hrossaræktarbúi í Skagafirði. 17 konur og þrír karlar mættu í baksturskeppnina og fór svo að þetta vígi kvennanna féll, sigurvegari varð Þingeyingurinn Gunnar Ómar Gunnarsson. Efstir og jafnir að stigum í stafsetningarkeppninni voru Hlynur Þór Magnússon, blaðamaður á Ísafirði, og Einar Sigmarsson, íslenskufræðingur undan Eyjafjöllum. Sundlaugin á Sauðárkróki.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==