Aldarsaga UMSK 1922-2022

48 þings í Reykjavík 19. nóvember 1922. Félögin brugðust vel við og hvert þeirra sendi tvo fulltrúa á þingið. Að auki komu þarna nokkrir félagar úr Mosfellssveit og Reykjavík og Guðmundur Jónsson frá Mosdal, frá Bandalagi ungmennafélaga Vestfjarða, alls um 20 manns. Hinir atkvæðisbæru fulltrúar voru Þorlákur Björnsson og Kjartan Norðdahl frá Aftureldingu, Ellert Eggertsson og Magnús H. Blöndal frá Dreng, Jón Kjartansson og Magnús Stefánsson frá Umf. Reykjavíkur og Sveinbjörn Einarsson og Stefán Jóhannsson frá Umf. Miðnesinga. Stofnþingið var ekki vettvangur stórra ákvarðana en þingmenn samþykktu tillögu Guðrúnar Björnsdóttur frá Grafarholti um að félögin héldu sameiginlegan skemmtifund næsta sumar. Kosin var stjórn sem sat óbreytt næstu þrjú kjörtímabil en hún var þannig skipuð: Guðbjörn Guðmundsson formaður Guðrún Björnsdóttir ritari Þorlákur Björnsson gjaldkeri Ýmislegt hefur glatast af elstu gögnum sambandsins en svo vel vill til að fyrstu lögin eru til í frumriti, snyrtilega vélrituð. Þau hljóða þannig í einfaldleika sínum: Lög fyrir „Ungmennasamband Kjalarnesþings.“ 1. gr. Sambandið heitir Ungmennasamband Kjalarnesþings. 2. gr. Sambandið starfar samkvæmt stefnuskrá UMFÍ og vinnur að kynningu og samvinnu milli ungmennafjelaga á sambandssvæðinu. Inngöngu í sambandið geta öll fjelög fengið er starfa á þessum grundvelli. 3. gr. Hvert fjelag kýs 1 fulltrúa fyrir hverja 20 fjelaga eða færri á hjeraðsþing sem halda skal í októbermánuði árlega. Skal þar kosin stjórn fyrir sambandið er sje skipuð formanni, ritara og fjehirðir. Einnig skal kjósa varastjórn og 2 endurskoðendur. Stjórnin hefir á hendi framkvæmdir allra sameiginlegra mála sambandsins milli þinga. Á hjeraðsþingi skal hún gefa skýrslu um störf sín og fjárhag sambandsins á hinu liðna starfs- og reikningsári sem telst frá 1. október til 30. september. 4. gr. Hvert fjelag greiðir árlega 35 aura skatt af hverjum reglulegum fjelaga í sambandssjóð. Ákveður hjeraðsþing með fjárlögum hvernig því fje skuli varið. 5. gr. Við hver áramót skulu fjelögin innan sambandsins senda sambandsstjórninni skýrslu í 2 eintökum um hag sinn og starfsemi. Jafnframt skýrslunni skulu sendir allir lögboðnir skattar til hjeraðs- og landssambandsins (samkvæmt ákvæðum sambandslaga UMFÍ). Skattarnir greiðast fyrirfram. 6. gr. Til hjeraðsþings skal boða skriflega með tveggja mánaða fyrirvara og er það lögmætt ef löglega er til þess boðað. Fulltrúar skulu hafa kjörbrjef. Aukaþing skal háð ef stjórninni þykir við þurfa eða ef helmingur fjelaga þeirra sem í sambandinu eru, óska þess og skal boðað til aukaþings á sama hátt og til aðalþinga. 7. gr. Að öðru leyti vísast til sambandslaga UMFÍ. Þannig samþykt á stofnfundi 19. nóvember 1922.6 Fjögur félög eða sex Nú er rétt að setja krók á hala sinn og kynna til sögunnar þau fjögur ungmennafélög sem stofnuðu Ungmennasamband Kjalarnesþings einn lognkyrran haustdag í nóvember 1922. Sagt verður frá starfsemi þeirra fyrstu tvo áratugi sambandsins eða þar um bil. Reyndar stóðu tvö þessara félaga, Ungmennafélag Reykjavíkur og Ungmennafélag Miðnesinga, fremur stutt við í UMSK en þau verðskulda þar fyrir sinn sess í sögunni. Fljótlega bættist fimmta félagið við því Ungmennafélag Akraness gekk í raðir UMSK strax á fyrsta ári sambandsins, veturinn 1923. Reyndar var Akranes á félagssvæði Ungmennasambands Borgarfjarðar en ástæðan fyrir því að það gekk fremur í UMSK mun hafa verið sú að samgöngur við Reykjavík og yfir Hvalfjörðinn í Kjósina voru mun greiðari sjóleiðina en landleiðina upp í Borgarfjörð. Sjötta félagið, Ungmennafélagið Velvakandi í Reykjavík, gekk í UMSK á stofndegi sínum 12. maí 1925. Það var stofnað á rústum Ungmennafélags Reykjavíkur enda höfðu margir stofnfélagar þess starfað í síðarnefnda félaginu. Hér kemur því örstutt söguágrip þessara sex félaga frá upphafi þeirra fram á heimsstyrjaldarárin fyrri og nokkuð lengur. Ungmennafélag Reykjavíkur Elst þessara félaga var Ungmennafélag Reykjavíkur. Það var stofnað 3. október 1906 og varð strax í upphafi eitt öflugasta ungmennafélag á landinu. Hinir elstu ungmennafélagar sögðu að aldrei hefði verið eins skemmtilegt að vera ungur Íslendingur og þá. Sá mikli þróttur og eldmóður sem gagntók æskufólkið í árdaga ungmennafélaganna var ríkjandi í Umf.R fyrstu árin. Félagar þess

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==