Aldarsaga UMSK 1922-2022

472 Tvö tjöld Árið 1975 keypti UMSK stórt samkomutjald, 8 x 16 metra að stærð, það var eitt af svokölluðum þjóðhátíðartjöldum sem höfðu verið keypt fyrir hátíðarhöld á Þingvöllum sumarið áður þegar 1100 ára búsetu á Íslandi var fagnað. Tjaldið fékk fljótlega nafnið UMSK-tjaldið og reyndist mikið þarfaþing fyrir sambandið og aðildarfélög þess, því var slegið upp á íþróttamótum, við þjóðhátíðarhöld og að sjálfsögðu á landsmótum UMFÍ, í fyrsta skipti á Akranesi árið 1975. Árið 1979 var tjaldið meðal helstu eigna sambandsins og metið á 600 þúsund krónur, aðrar eignir voru sumarhús í Þrastaskógi, sem var metið á þrjár milljónir króna, og ritvél sem var metin á 45 þúsund krónur.592 Sumarið 1981 óskuðu þrjú aðildarfélög eftir því að fá tjaldið til afnota 17. júní: Ungmennafélag Bessastaðahrepps, Afturelding og Breiðablik. Afturelding hreppti hnossið, meðal annars vegna þess að félagið sá um geymslu og tryggingar á tjaldinu. Sumarið 1982 leigði sambandið tjaldið út þrisvar sinnum, samtals fyrir 12 þúsund krónur. Þetta var í formennskutíð Kristjáns Sveinbjörnssonar sem segir í viðtali: „Þegar ég var formaður þurftum við enn að greiða kaupverð af tjaldinu. Ég gekk þá á fund Alberts Guðmundssonar fjármálaráðherra og fór þess á leit við hann að skuldin yrði felld niður. Albert kippti í einhverja spotta og það var eins og við manninn mælt, tjaldskuldin var felld niður.“593 UMSK keypti nýtt samkomutjald árið 1997 fyrir landsmót UMFÍ í Borgarnesi, blátt, rautt og hvítt, í ársskýrslu sambandsins fyrir árið 1996 segir: „Stjórn UMSK festi í vetur kaup á nýju tjaldi en það er 220 m2 stórt. Gamla tjaldið var um 160 m2 og orðið ansi lúið. Sem fyrr verður lögð áhersla á gott mötuneyti í tjaldinu og reynt að skapa gömlu góðu stemmninguna sem svo oft hefur fleytt okkur til góðs árangurs á fyrri mótum og gerir þau svo skemmtileg og minnisstæð.“594 Líkt og áður var tjaldið miðpunktur og félagsmiðstöð fyrir keppendur og sjálfboðaliða UMSK á Borgarnesmótinu, það var ýmist nefnt matartjaldið eða sirkustjaldið og reyndist vel í því rysjótta veðri sem herjaði á mótsgesti. En sökum fjarlægða milli mótsstaða varð tjaldið þó ekki sú miðstöð sem vonast hafði verið eftir. Þetta nýja UMSK-tjald var engin smásmíði, 220 fm að flatarmáli líkt og stórt einbýlishús og vó 2,5 tonn. Tjaldið skapaði ágætar tekjur fyrir sambandið næstu árin þar sem það var leigt til samkomuhalds, til dæmis á landsmóti hestamanna á Melgerðismelum í Eyjafirði árið 1998. Einnig var það notað af aðildarfélögum UMSK. Birgir Ari Hilmarsson, framkvæmdastjóri UMSK á þessu tímaskeiði, segir: „Um árabil var þéttur hópur velunnara sambandsins í svokölluðum tjaldhóp sem hægt var að kalla í til að setja upp tjaldið. Það var nánast í stanslausri útleigu yfir sumarmánuðina fram til ársins 2008 þegar það fauk og er þar með úr sögunni.“595 Pylsuveisla í Borgarnesi í nýja UMSK-tjaldinu sem var ýmist kallað matartjaldið eða sirkustjaldið.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==