465 UMSK tjaldar öllu til Undirbúningur UMSK fyrir landsmótið hófst tímanlega. Skipuð var fimm manna undirbúningsnefnd, í henni sátu Einar Sigurðsson úr Breiðabliki, sem var formaður nefndarinnar, Hraunar Daníelsson úr Breiðabliki, Margrét Guðmundsdóttir úr Gerplu, Jóna Þorvarðardóttir úr Aftureldingu og Kristján Sveinbjörnsson úr Ungmennafélagi Bessastaðahrepps. Veturinn fyrir mótið hélt nefndin nokkra fundi og fór í vettvangsferð í Borgarnes í janúarmánuði þar sem Ingimundur, formaður landsmótsnefndar, fór með gesti um mótssvæðið sem hafði tekið miklum og glæsilegum stakkaskiptum. Keppikefli UMSK var að sjálfsögðu að vinna sigur í heildarstigakeppninni, þar var við ramman reip að draga og nauðsynlegt að tjalda öllu til. Liðskönnun fór fram á öllum vígstöðvum innan sambandsins, sérgreinastjórar voru skipaðir í einstökum greinum og svo fór að UMSK mætti til leiks með 200 manna keppnislið. Mótssetning Landsmótið var sett föstudaginn 4. júlí, að viðstöddu miklu fjölmenni. Íþróttafólk gekk fylktu liði inn á leikvanginn undir stjórn Hafsteins Þorvaldssonar, fyrst var fánahylling, Þórir Jónsson, formaður UMFÍ, flutti setningarræðu og síðan var landsmótseldurinn tendraður í fyrsta skipti. Borgfirski hlauparinn Ágúst Þorsteinsson birtist með eldinn færandi hendi en þá höfðu ungmennafélagar hlaupið með logann umhverfis Ísland. Björk Ingimundardóttir, frjálsíþróttakona frá Hæli í Flókadal, glæddi eldinn á sérútbúnu kyndilstæði við nýju sundlaugina og ákveðið var að sú tendrun yrði framvegis fastur liður á landsmótum. Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Guðrún Katrín Þorbergsdóttir voru viðstödd mótssetninguna en Ólafur Ragnar hafði verið kjörinn forseti Íslands árið áður. Hann ávarpaði samkomuna, það gerði einnig Vilhjálmur Einarsson, heiðursgestur mótsins. Björn Bjarnason menntamálaráðherra var viðstaddur athöfnina og Íris Grönfeldt, spjótkastari og þjálfari Borgfirðinga, flutti ávarp fyrir hönd íþróttafólks, síðan tóku við ýmis skemmtiatriði, fimleikasýning, kórsöngur og þjóðdansar. Loks var keppt í 800 m hlaupi karla og kvenna líkt og tíðkast hafði á undanförnum landsmótum, þar sigruðu Sigurbjörn Árni Arngrímsson úr HSÞ og Guðrún Bára Skúladóttir úr HSK. Mótssetning á Skallagrímsvelli, íþróttafólk hefur fylkt liði á vellinum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==