Aldarsaga UMSK 1922-2022

455 bandinu og stofna íþróttabandalag. Ég var ekki hlynntur því, saman erum við sterkari. UMSK hefur þróast mikið frá aldamótum, í minni formennskutíð stóð ársþingið yfir í tvo daga en núna eru aðalfundarstörfin afgreidd á einu kvöldi og hægt að fletta upp öllum reikningum í tölvu. Í hverju var stjórnarstarfið fólgið? Það var margþætt en fjármálin skiptu auðvitað miklu máli. Þegar ég kom inn í stjórn UMSK reyndi ég að stuðla að aðhaldi í fjármálum, við deildum til dæmis skrifstofu með UMFÍ í sparnaðarskyni, það þurfti líka að sýna aðildarfélögunum fjárhagslegt aðhald. Lottótekjurnar breyttu miklu, ágóðanum var úthlutað til félaganna með því skilyrði að þau skiluðu ársskýrslum, það þurfti oft að aðstoða minni félögin við skýrslugerðina. UMSK veitti verðlaun til íþróttamanns UMSK á hverju ári og þá fylgdi fé til viðkomandi deildar. Einnig var íþróttafólk styrkt til að keppa erlendis á stórmótum. En leituðu félögin mikið til ykkar? Já, til dæmis þegar ný félög voru stofnuð á sambandssvæðinu. Stjórnin aðstoðaði aðildarfélögin í ýmsum efnum, jafnvel fjárhagslega, en skriffinnskan lenti mest á herðum framkvæmdastjórans, Birgir Ari Hilmarsson var framkvæmdastjóri á þessum árum, byrjaði árið 1991. Nú eru þessi stóru félög sjálf komin með framkvæmdastjóra. Varstu í beinu sambandi við félögin sem formaður? Já, ég mætti á aðalfundi allra félaganna og einnig á UMSK-mót. Aðalverkefnið var að efla samstöðuna. Ég get auðvitað viðurkennt að það fór heilmikill tími í þetta sem maður stal stundum frá fjölskyldunni. Nú er ég hættur öllu formlegu íþróttastarfi en fylgist með barnabörnunum mínum í íþróttum. Landsmótin standa upp úr Landsmót UMFÍ standa upp úr í minningunni og skiptu meginmáli fyrir héraðssamböndin, heldur Svanur áfram. Mótin stóðu yfir í fjóra daga, byrjuðu á fimmtudegi, mótssetning var á föstudegi og mótsslit á sunnudeginum. Undirbúningur var umfangsmikill hjá UMSK því félagarnir fjölmenntu á mótsstað, bæði keppendur, þjálfarar og starfsfólk. Við þurftum líka að safna fyrir búningum. Það var lögð mikil áhersla á að allir væru í UMSK-búningum á landsmótum. Var UMSK ekki með mötuneyti á staðnum? Jú, við vorum með mötuneyti fyrir okkar fólk og mættum á staðinn með vistir fyrir fjóra sólarhringa. Það tók margar vikur að safna matvöru og öðru fyrir landsmótin, við leituðum til ýmissa fyrirtækja, ég þekkti mörg þeirra í gegnum mitt verslunarstarf og þau gáfu okkur jafnvel 50% afslátt af hráefni. Ester Jónsdóttir, sem sat lengi í stjórn sambandsins, var systir Jóhannesar í Bónus og hann lét UMSK njóta góðs af því. UMSK átti stórt samkomutjald sem auðveldaði allt utanumhald, tjaldið var samastaður fyrir okkar fólk, þangað komu til dæmis keppendur í morgunverð og kvöldmat. Ég byrjaði fyrst að vinna kringum landsmótið á Húsavík árið 1987. Varst þú ekki á landsmótinu í Mosfellsbæ árið 1990? Jú, jú, því gleymi ég aldrei, það var svo mikið óveður. Ég var að dæma í knattspyrnu uppi á Tungubökkum, þetta var alveg svakalegt vegna veðurhamsins. Félagsskapurinn skiptir mestu máli Hvað stendur upp úr í minningunni þegar þú lítur um öxl? Því er fljótsvarað, segir Svanur, það er félagsskapurinn og vináttan. Maður kynntist fólki á öllum aldri rétt eins og í sjoppunni sem ég rak lengi í Mosfellssveit, þar átti maður kannski bestu vinina í yngsta fólkinu og var jafnvel trúnaðarvinur þeirra. Heldurðu sambandi við fyrrverandi samstarfsfólk þitt? Já, við hringjum stundum í hvert annað, hittumst 1–2 sinnum á ári og fáum okkur mat eða kaffi saman. Ég og Garðar Guðmundsson í Gróttu förum stundum í göngutúr, við dæmdum mikið saman á árum áður og núna förum við 1–2 sinnum á ári til að horfa á fótbolta úti í Englandi. Við erum báðir eilífir íþróttaidjótar, segir Svanur Gestsson og hlær.564

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==