Aldarsaga UMSK 1922-2022

447 Maður er manns gaman Á landsmóti UMFÍ á Varmá 1990 veitti Hafsteinn Pálsson sigurbikarnum viðtöku fyrir hönd UMSK, hann hafði þá gegnt þar formennsku í þrjú ár og áður starfað mikið innan Aftureldingar. Í viðtali árið 2018 rifjaði Hafsteinn upp liðna tíma og var fyrst spurður að því hvenær hann hefði farið á sitt fyrsta landsmót. „Það var á landsmótinu á Eiðum árið 1968, segir hann, þá var ég að verða 16 ára og var í boðsundssveit UMSK. Ég ólst upp í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp, þar er 50 metra löng sundlaug, þannig að ég var stöðugt í sundi. En hvernig gekk í boðsundinu á Eiðum? Það gekk nú ekki alveg nógu vel, sundmaðurinn á undan mér gerði ógilt þannig að ég synti ekki. Það kom í ljós að hann var veikur, með hettusótt. Síðar átti ég eftir að fara á mörg landsmót og tók jafnvel þátt í að vakta UMSK-tjaldsvæðið fram á miðjan morgun til að okkar fólk, keppendur og aðrir, fengju svefnfrið. Þú varst kosinn formaður UMSK árið 1987, hvernig bar það að? Það gerðist með dálítið sérstökum hætti. Ársþing UMSK var haldið í Félagsgarði í Kjós það árið, en ég var reyndar fjarverandi, lá heima í flensu með háan hita. Svo frétti ég það heim í Mosfellssveit að ég hefði verið kjörinn formaður sambandsins. Hvað varstu lengi formaður? Ég gegndi því starfi í tæplega sex ár. Mér finnst það þjóðfélagsleg skylda manns að gefa eitthvað af sér til félagsstarfa, ef maður er í færum til þess. Var starfið innan UMSK ekki frábrugðið starfinu innan Aftureldingar? Jú, í raun gjörólíkt, því þarna var maður að vinna fyrir öll aðildarfélögin. UMSK var næststærsta sambandið innan ÍSÍ, á eftir Íþróttabandalagi Reykjavíkur, sambandið lék lykilhlutverk innan ÍSÍ og á vissan hátt líka innan UMFÍ þar sem UMSK var langfjölmennasta héraðssambandið. Í minni formennskutíð hófst afhending heiðursmerkja og starfsmerkja, það var bæði gullmerki, silfurmerki og starfsmerki. Svo þurfti líka að búa til reglur vegna úthlutunar á fjármunum frá lottóinu til ÍSÍ, UMFÍ og UMSK. Ég tók þátt í þeirri vinnu, það var mikið púsluspil. Landsmótið á Varmá árið 1990 hlýtur að vera eftirminnilegt í þínum huga. Jú, það var stórt og mikið verkefni, sveitarfélagið hafði þá byggt nýjan knattspyrnu- og frjálsíþróttavöll, hlaupabrautir voru lagðar með gerviefni sem skipti miklu máli, núna rúmlega 30 árum síðar er orðið tímabært að endurnýja brautirnar. Því miður fauk landsmótið út í veður og vind í orðsins fyllstu merkingu, aðsóknin stóðst engar væntingar, það var mikið mál að ná fjárhagslegum endum saman eftir mótið því tekjurnar urðu miklu minni en áætlað var. Hvað stendur upp úr í minningunni frá þessum árum? Félagsskapurinn er mikilvægastur þegar upp er staðið því maður er manns gaman. Fólk er alls ekki alltaf sammála enda snúast félagsstörf ekki um það heldur um að ná einhverri heildarniðurstöðu, það þarf oft að gera málamiðlanir. Hefur hlutverk UMSK breyst frá fyrri tíð? Já, mjög mikið, enda lifum við á mikilli tækni- og tölvuöld. Samgöngur hafa gjörbreyst og ýmislegt annað. Ársþing UMSK, sem voru áður tveggja daga þing, eru núna haldin á nokkrum klukkustundum. Áður fyrr var líka rætt um ýmis samfélagsmál innan sambandsins, til dæmis hersetu og kosningaaldur. Ég var andvígur slíku, vildi forðast pólitískt karp og taldi að sambandið ætti að einbeita sér að íþrótta- og æskulýðsmálum. Nú situr þú í stjórn ÍSÍ, hvernig sérðu framtíð íþróttahreyfingarinnar fyrir þér frá þeim sjónarhóli? Mér finnst vera þörf á að skilgreina betur hlutverk héraðssambandanna, jafnvel að sameina þau svo þau fylgi afmörkun kjördæmanna. Sérsambönd einstakra íþróttagreina vilja hafa beint samband við félögin eða deildir innan þeirra, ekki héraðssamböndin. Það eru mörg sjónarmið á lofti í þessum efnum sem við þurfum að vera vakandi fyrir.“553 Hafsteinn Pálsson var sæmdur gullmerki UMSK 2003.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==