Aldarsaga UMSK 1922-2022

44 Mosfellssveit. Ungmennafélagshreyfingin bætti úr brýnni þörf því æskufólk landsins skorti að mestu félagslegan vettvang. Segja má að hreyfingin hafi slegið í gegn hérlendis, svo gersamlega yfirtók hún félagslíf unga fólksins á fyrstu áratugum aldarinnar. Einn af frumkvöðlum sunnlenskra ungmennafélaga, Ingimundur Jónsson í Holti, orðaði þetta þannig síðar í 50 ára afmælisriti síns ungmennafélags, Samhygðar í Flóa: Þessi merka hreyfing kom eins og vordögg á skrælnaða jörð. Unga fólkið þráði framfarir og félagslíf, enda bárust frásagnir af stofnun ungmennafélaga víðs vegar um landið og alls staðar var sama sagan, vakandi áhugi fyrir framförum og framkvæmdum á öllum sviðum sem til blessunar horfðu. Hitt var svo annað mál að við geysilega örðugleika var að etja, svo sem almenna fátækt, vanafestu og deyfð hinna eldri og fleira og fleira.1 Hinir kraftmiklu forystumenn ungmennafélaganna undu bráðan bug að því að stofna heildarsamtök sem hlutu það einfalda nafn: Ungmennafélag Íslands (UMFÍ). Það var stofnað af sex ungum mönnum á Þingvöllum 2. ágúst 1907 á þjóðhátíð sem haldin var í tilefni af heimsókn kóngsins yfir Íslandi og Danmörku til þegna sinna á norðurhjara. Fyrsti formaður UMFÍ var kjörinn Jóhannes Jósefsson, síðar veitingamaður á Hótel Borg, en hann var einnig formaður Umf. Akureyrar. Það var atkvæðamesta ungmennafélagið ásamt Ungmennafélagi Reykjavíkur og strax í upphafi stefndi í mikla togstreitu um völdin milli þessara stórvelda í hreyfingunni. Á stofnþingi UMFÍ var þessi fyrirsjáanlega valdabarátta leyst á þann hátt að embættum stjórnarmanna var skipt á milli norðan- og sunnanmanna. Það dugði þó ekki til, enda voru ferðalög og bréfaskipti í þann tíð miklu hæggengari en nú og gátu tekið margar vikur. Þar með urðu samskipti stjórnarmanna bæði stirðleg og seinvirk. Menn hugleiddu þetta vandamál á fyrsta ársþinginu 1908 og þá datt mönnum það snjallræði í hug að stofna fjögur sambönd, eitt í hverjum landsfjórðungi, til að brúa bilið. Þannig voru völdin tekin af UMFÍ og þeim dreift umhverfis landið. Þar með var klofningi afstýrt í hreyfingunni. Þetta var bráðabirgðalausn eins og síðar kom í ljós en hún var látin duga fyrst um sinn. Fjórðungssamband Sunnlendingafjórðungs Fjórðungssamband Sunnlendingafjórðungs (FS) var stofnað 30. júní 1908, strax að loknu fyrsta ársþingi UMFÍ. Fyrsta árið voru félög þess 13 að tölu og félagsmenn alls 624. Félögin voru úr Reykjavík og Hafnarfirði, af Vatnsleysuströnd, úr Vestmannaeyjum, Grímsnesi og Borgarfirði. Í fyrstu stjórn þess voru kjörin Þorkell Þ. Clementz formaður, Theódór Árnason ritari og Lára I. Lárusdóttir gjaldkeri. Þau voru öll af Reykjavíkursvæðinu enda erfitt um vik að hafa langt á milli stjórnarmanna sökum erfiðra samgangna. Umf. Afturelding í Mosfellssveit gekk í FS og þar með UMFÍ á stofnfundi sínum árið 1909 og varð fyrsta félagið af væntanlegu sambandssvæði UMSK til að ganga í raðir þess. Þar var Umf. Reykjavíkur á fleti fyrir og Umf. Drengur bættist í hópinn á stofnári sínu 1915. Þetta voru síðar þrjú af stofnfélögum UMSK. FS varð strax langsamlega öflugast fjórðungssambandanna og bar fljótlega höfuð og herðar yfir sjálf landssamtökin, UMFÍ. Raunar má segja að FS hafi þegar í upphafi yfirtekið starfssvið UMFÍ að verulegu leyti. Brátt var svo komið að FS hafði veg og vanda af ýmsum helstu verkefnum hreyfingarinnar, svo sem að senda fyrirlesara og íþróttakennara út til félaganna. UMFÍ var á þessum tíma lítið annað en útgáfustjórn fyrir málgagn samtakanna, Skinfaxa, sem komið hefur út óslitið til þessa dags frá 1909. Fjármagni hreyfingarinnar var þannig skipt að skattar ungmennafélaganna gengu til FS og hinna fjórðungssambandanna en árleg styrkveiting ríkisins rann til UMFÍ. Allt gerðist þetta í sátt og samlyndi og hvergi verður annars vart en forystumenn UMFÍ hafi látið sér þessa verkaskiptingu vel líka. Árin 1911–1914 var forysta UMFÍ reyndar ekki rismeiri en svo að ekki var nema einn maður í stjórninni! Það var formaðurinn Guðbrandur Magnússon. FS hóf að gefa út handskrifað fjölritað fjórðungsblað í mars 1909 og þar birtust frásagnir af þingi sambandsins og ýmsum hugðarefnum. Það hætti reyndar göngu sinni um haustið þegar UMFÍ hóf að gefa út Skinfaxa. Ungmennafélögum innan FS fjölgaði hratt og þau voru orðin 42 árið 1913 samkvæmt félagaskrá gjaldkera FS sem varðveist hefur hjá UMFÍ. Þau voru fyrst og fremst úr Þorkell Þ. Clementz, verkfræðingur, var fyrsti formaður Fjórðungssambands Sunnlendingafjórðungs.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==