Aldarsaga UMSK 1922-2022

423 vill vinna saman að því að veita ungu fólki tækifæri til að iðka íþróttir og hverskonar félags- og tómstundastarfsemi. Með samvinnunni hafa skapast tækifæri til að takast á við mörg stór verkefni. Framkvæmdir við hið nýja og glæsilega félagssvæði bera glöggt vitni um það. Samhugur og samheldni félagsmanna hefur alltaf verið til fyrirmyndar og því hafa margir sætir sigrar unnist, jafnt innan vallar sem utan. Það er tvímælalaust gott veganesti fyrir ungt fólk að taka þátt í starfi félagsins. Minningar úr UMSK Ester Jónsdóttir lék lengi handknattleik með Breiðabliki og UMSK. Hún sat í stjórn handknattleiksdeildar Breiðabliks 1976–1994 og var í stjórn skíðadeildar Breiðabliks í nokkur ár. Ester vann einnig lengi á vettvangi UMSK og sat í aðalstjórn sambandsins á árunum 1989–2014. Hvernig var starfinu í aðalstjórn UMSK háttað á þessu langa tímaskeiði? Við skiptum með okkur verkum, segir Ester, en vorum alltaf með framkvæmdastjóra sem var mikilvægt fyrir svona stórt samband, Einar Sigurðsson, Birgir Ari Hilmarsson og Valdimar Gunnarsson voru framkvæmdastjórar á því tímabili sem ég sat í stjórninni. UMSK var með þing einu sinni á ári, við sóttum aðalfundi hjá aðildarfélögunum og einnig ársþing UMFÍ og ÍSÍ sem voru oft haldin úti á landi. Ester segir að landsmót UMFÍ standi upp úr í minningunni. Undirbúningurinn hófst ævinlega ári fyrir landsmót, segir hún, þá þurfti til dæmis að ákveða keppnisbúningana. Það fór líka mikill tími í fjáraflanir, keppendaval og æfingar. Stóra UMSKtjaldið var ævinlega reist á landsmótum, það var í senn matartjald, samkomutjald og félagsmiðstöð á mótsstaðnum. Fjölmennur hópur kom að því að setja tjaldið upp, við höfðum með okkur borð og fengum stundum heybagga lánaða hjá næsta bónda eða stóla til að sitja á. Þetta var mikil vinna og lítið sofið en mjög skemmtilegur tími, segir hún og bætir við: Ég var í nefndinni sem sá um öll aðföng fyrir matartjaldið á árunum 1987–2009. Við hófum störf löngu fyrir landsmót, reyndum að fá sem mest gefins eða mjög ódýrt, við fengum yfirleitt gjafakort frá Bónus til að kaupa það sem okkur vanhagaði um og nokkur bakarí styrktu okkur líka. Hvernig voru svo máltíðirnar á landsmótunum? Við vorum með morgunmat, brauð í hádeginu og heitan kvöldmat. Svo var líka hægt að að grípa með sér ávexti í nesti. Við elduðum fyrir alla sem kepptu fyrir UMSK og einnig marga gesti, það voru allir velkomnir í tjaldið. Við fengum grillkjöt á mjög góðu verði og héldum alltaf mikla grillveislu á laugardagskvöldinu. Ester sat í stjórn UMSK í um 25 ár. Þetta voru ánægjulegir tímar sem ég hefði ekki viljað missa af, segir hún, ég kynntist þarna mörgu skemmtilegu fólki. Stjórnarmenn voru allir áhugasamir um velgengni sambandsins, við stefndum öll að sama marki. Það var ævinlega gaman á stjórnarfundum, við vorum góðir vinir og samstarfsmenn. Í minni löngu stjórnartíð gegndu Kristján Sveinbjörnsson, Hafsteinn Pálsson, Svanur Gestsson og Valdimar Leó Friðriksson formennsku í sambandinu. Þegar ėg rifja upp allt það sem við hjá UMSK framkvæmdum á þessum árum er niðurstaðan sú að þetta var mjög skemmtilegt tímabil, segir Ester Jónsdóttir að lokum.494 Ester Jónsdóttir var sæmd gullmerki UMSK árið 2015.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==