Aldarsaga UMSK 1922-2022

420 Kjósverjar á laxaslóð Í aldarsögu Ungmennafélagsins Drengs eftir Jón M. Ívarsson er greint frá hópferð Kjósverja á Húsavíkurmótið: „Svo stóð fyrir dyrum landsmót UMFÍ á Húsavík árið 1987. Þá myndaðist mikil stemming fyrir ferð á landsmótið og margir voru skráðir til keppni í starfsíþróttum. Þannig var að Lárus Pétursson í Káranesi, formaður Drengs, var einnig meðstjórnandi UMSK og var skipaður sérgreinastjóri sambandsins í starfsíþróttum. Hann leitaði ekki langt yfir skammt heldur fékk marga af sveitungum sínum til keppni og svo var farin hópferð norður. Guðbrandur Hannesson í Hækingsdal lagði til rútu sem hann átti og notaði í skólaakstri en Helgi sonur hans ók rútunni. Lárus var fararstjórinn en þarna voru rúmlega 20 manns á ferð. Sem fyrr var tjaldað í námunda við UMSK tjaldið á fimmtudagskvöldinu. Sjö manns úr hópnum kepptu í starfsíþróttum á föstudegi og laugardegi en spókuðu sig á mótsstaðnum þess á milli ásamt félögum sínum. Bestum árangri náði Höskuldur Gunnarsson sem varð 11. í hestadómum. Systurnar í Eyjum, Lára og Jórunn Magnúsdætur kepptu í að leggja á borð, Bragi Guðbrandsson tók þátt í línubeitingu, Haraldur Magnússon, Helgi Guðbrandsson og Kristján Bjarnason í dráttarvélaakstri og þeir Lárus Pétursson og Höskuldur Gunnarsson kepptu bæði í hestadómum og starfshlaupi. Enginn varð ofarlega í keppninni en það lét fólk sér í léttu rúmi liggja, þetta var allt svo gaman. Veðrið var frábært allan tímann, steikjandi sól og hiti og allir klæddust stuttbuxum frá morgni til kvölds. Þegar stund gafst milli stríða á sunnudeginum skruppu flestir strákarnir í hópnum í útsýnisferð upp með Laxá í Aðaldal. Þar var engan mann að sjá og þeir stóðust ekki freistinguna að fá sér bað í einum hylnum. Glatt var á hjalla, skvettur og busl í ánni en þegar minnst varði birtist brúnaþungur maður og bað þá vinsamlegast að hypja sig úr besta laxveiðistaðnum í ánni. Þá kom í ljós að yfir stóð hvíldarstund veiðimanna og hópurinn fór hlæjandi á brott en veiðivörðurinn stóð eftir óhýr á svip. En allir skemmtu sér vel í þessari ferð sem var að öllu samanlögðu ein síðasta skemmtiferðin á vegum Umf. Drengs.“490 Kjósverjar lauguðust í Laxá í Aðaldal við lítinn fögnuð veiðimanna.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==