Aldarsaga UMSK 1922-2022

416 Megas og lúðurþeytarar gefa tóninn Mótið var sett að kvöldi föstudagsins 10. júlí, veður var hlýtt og hið fegursta. Íþróttafólkið fylkti liði við barnaskólann undir stjórn Hafsteins Þorvaldssonar, fyrrum formanns UMFÍ. Þátttakendur komu úr 19 héraðssamböndum víðsvegar af landinu og að auki frá sjö íþróttafélögum sem höfðu beina aðild að UMFÍ. Nú var liðin sú tíð að gengið væri í takt við mótssetninguna en lúðurþeytarar með heimamanninn Ásgeir H. Steingrímsson í fararbroddi léku sportlegan og þjóðlegan mars. Þegar skrúðfylkingin gekk inn á íþróttvöllinn hljómaði hins vegar djassútsetning af laginu Fatlafól eftir Megas. Haft var á orði að runnir væru upp breyttir tímar fyrst sá umdeildi Megas gæfi tóninn á landsmóti ungmennafélaganna. Það væri þó bót í máli að texti hans við lagið Fatlafól hefði ekki heyrst við þetta tækifæri. Pálmi Gíslason, formaður UMFÍ, setti landsmótið og gat þess að um 29 þúsund manns væru innan vébanda ungmennafélagshreyfingarinnar. Einnig nefndi hann hvað lottótekjur væru mikilvægar fyrir hana en varaði jafnframt stjórnvöld við að skattleggja þær tekjur. Næst ávarpaði frú Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, mótsgesti og þjóðsöngurinn var fluttur, Birgir Ísleifur Gunnarsson menntamálaráðherra flutti einnig ávarp svo og Vignir Valtýsson frá Nesi í Fnjóskadal sem talaði fyrir hönd íþróttamanna. Hann hafði lagt að baki einstakan sigurferil í dráttarvélaakstri á landsmótum, sigraði fyrst í þeirri grein á landsmótinu á Laugarvatni árið 1965, þá aðeins 17 ára gamall. Á Húsavík keppti hann í ökuleikni í síðasta sinn á landsmóti og hafði sigur í 8. skipti. Eftir að Hvítbláinn hafði verið dreginn að húni vék keppnisfólkið af velli og fríður fimleikaflokkur úr Gerplu og Stjörnunni mætti til leiks og sýndi fimleika af hjartans lyst. Á sunnudeginum sýndi flokkurinn sýningaratriðið „Pardusdýrin“ á hátíðardagskrá sem fór fram á íþróttaleikvanginum. Anna Möller, sem var fimleikastjóri UMSK á mótinu, sagði í blaðaviðtali: „Fimleikar eru mjög í hávegum hafðir hér á þessu svæði [þ.e. sambandssvæði UMSK] og öflug félög starfandi. Þar má nefna Gerplu í Kópavogi, sem er stærsta og öflugasta fimleikafélagið á landinu og Stjörnuna í Garðabæ sem nú er að koma upp með mjög öfluga yngri flokka. Þriðja fimleikafélagið innan UMSK er svo Grótta á Seltjarnarnesi, félag sem er í mikilli sókn og á eftir að sýna góða hluti.“485 Einvígi á hlaupabrautinni Sú hefð hafði skapast að keppni í 800 metra hlaupi færi fram eftir setningarathöfn landsmótsins. Þar stefndi í mikið einvígi milli tveggja frábærra hlaupara sem voru Brynjúlfur Hilmarsson UÍA og Erlingur Jóhannsson UMSK, þeir æfðu og kepptu báðir erlendis um það leyti og voru til alls vísir. Erlingur hafði nýlega sett Íslandsmet í greininni og Brynjúlfur unnið þrefalt í hlaupum á landsmótinu 1984, þar á meðal í 800 m hlaupi. Hann gat vel hugsað sér að endurtaka þann leik en frábært hlaup Erlings þetta kvöld kom í veg fyrir að honum tækist það. Erlingur hljóp á 1,54,9 mín., og var örskoti á undan Brynjúlfi, frá viðureign þeirra segir í sögu landsmótanna: „Menn voru jafnvel að vonast eftir nýju Íslandsmeti. Áhorfendur við mótssetninguna voru í engu sviknir um góða keppni. Erlingur og Brynjúlfur voru í sérflokki og stungu aðra keppendur strax af. Þeir börðust af hörku mestallt hlaupið en þegar kom að endasprettinum naut Erlingur snerpu sinnar og sigraði nokkuð örugglega á nýju landsmótsmeti, 1:54,9 en Íslandsmetið hélt velli. Brynjúlfur hljóp á 1:55,5 sem var jafnt gamla metinu.“486 Erlingur Jóhannsson UMSK kemur í mark á nýju landsmótsmeti í 800 m hlaupi. Brynjúlfur Hilmarsson UÍA til vinstri á myndinni.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==