Aldarsaga UMSK 1922-2022

413 Á slóðum Garðars og Náttfara Landsmót UMFÍ á Húsavík 10.–12. júlí 1987 Garðarshólmur Með réttu má segja að Húsavík sé eitt elsta íslenska örnefnið, um það má lesa í Landnámabók: „Maður hét Garðar Svavarsson, sænskur að ætt … Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús. Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík. Garðar fór þá til Noregs og lofaði mjög landið. Hann var faðir Una, föður Hróars Tungugoða. Eftir það var landið kallað Garðarshólmur, og var þá skógur milli fjalls og fjöru.“478 Rúmum 1100 árum síðar komust þessar fornu söguslóðir í sviðsljósið þegar 19. landsmót UMFÍ var haldið á Húsavík, 10.–12. júlí 1987. Þingeyingar höfðu tvisvar áður haldið landsmót, á Laugum í Reykjadal 1946 og 1961. Undirbúningur Húsavíkurmótsins var viðamikill, landsmótsnefnd var skipuð vorið 1985, formaður hennar var Kristján Yngvason, glímukappi úr Mývatnssveit, sem átti eftir að hampa gullinu í glímukeppninni. Guðni Halldórsson var framkvæmdastjóri hátíðarinnar, hann hafði keppt á landsmótum fyrir HSÞ og vann silfurverðlaun í kúluvarpi á Akranesi sumarið 1975 þar sem Strandamaðurinn sterki, Hreinn Halldórsson, sigraði með yfirburðum. Guðni lagði hart að sér við allan undirbúning landsmótsins á Húsavík og var sagt að hann hefði lést um tíu kíló síðustu vikurnar fyrir mótið.479 Það var mál manna að sérstök ástæða væri til að þakka Guðna hve nútímalegt og fjölbreytt landsmótið varð, ekki einungis sem íþróttamót heldur viðamikil menningarhátíð. Víst er að Guðni tók mörg símtölin við skipulagninguna eins og þessi vísa vitnar um: Landsmótið var löngu orðið langt á eftir tímanum. Uns Guðni þrekinn barði í borðið og breytti því – með símanum.480 UMSK stefnir norður Þegar leið að landsmóti tók landsmótsnefnd UMSK til starfa, í henni sátu Kristján Sveinbjörnsson (formaður), Albert H. N. Valdimarsson, Lárus Pétursson, Ester Jónsdóttir og Valdimar Valdimarsson. Einar Sigurðsson, framkvæmdastjóri UMSK, var starfsmaður nefndarinnar en eitt helsta verkefni hennar var gerð fjárhagsáætlunar vegna mótsins og jafnframt þurfti að finna vænlegar fjáröflunarleiðir. Meðal annars lét nefndin smíða 200 veggplatta sem voru seldir í ágóðaskyni og einnig var gefið út sérstakt landsmótsblað sem var dreift um sambandssvæðið skömmu fyrir mótið. Blaðið skilaði auglýsingatekjum, auk þess var þar að finna kynningu á UMSK, aðildarfélögum þess og á landsmótinu sem var í vændum norðan heiða. Fimmtudaginn 9. júlí hélt UMSK-fólk af stað norður á fjórum stórum langferðabílum, þar voru bæði keppendur, starfsfólk og stuðningsfólk. Sumir skörtuðu nýjum UMSK-búningum sem höfðu verið saumaðir og seldir fyrir ferðina og skreyttir nafni Búnaðarbankans. Framleiddir voru 200 búningar og reyndust þeir nægilega margir þegar upp var staðið. UMSK-liðið var vel mannað og keppendur í öllum greinum – nema glímu – líkt og stundum áður á landsmótum. Merki mótsins. Guðni Halldórsson var framkvæmdastjóri landsmótsins.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==