Aldarsaga UMSK 1922-2022

387 er. Íþróttir eru frábær forvörn og eflir bæði einstaklinga sjálfa og samfélögin sem þeir búa í.“411 Á árunum 2005–2007 starfaði körfuknattleiksdeild innan Hvíta riddarans og er greint nánar frá henni í kaflanum um körfuknattleik. Knattspyrnufélag Garðabæjar (KFG) – 2008 Stofndagur félagsins er 12. mars 2008, það starfrækir meistaraflokk karla, tekur þátt í deildakeppni KSÍ og hefur aðgang að æfinga- og keppnisaðstöðu Stjörnunnar, Hvað er að frétta? Hinn 19. mars 2008 birtist eftirfarandi viðtal á netmiðlinum fotbolti.net þar sem Magnús Már Einarsson ræðir við Lárus Guðmundsson, þjálfara Knattspyrnufélags Garðabæjar, greinilegt er að hér svífur léttleikinn yfir vötnunum. „Þá er komið að liðnum „Hvað er að frétta?“ hér á Fótbolti.net en þar tökum við púlsinn hjá liðum í fyrstu, annarri og þriðju deild. Að þessu sinni förum við í þriðju deildina og tökum við púlsinn á Knattspyrnufélagi Garðabæjar eða KFG. Um er að ræða nýtt lið í 3. deildinni en Lárus Guðmundsson fyrrum atvinnumaður í fótbolta og þjálfari Stjörnunnar á síðustu leiktíð þjálfar þetta lið. Hann tók að sér að svara nokkrum spurningum og afraksturinn má sjá hér að neðan. Hvernig er stemningin hjá Knattspyrnufélagi Garðabæjar? Hún er auðvitað frábær, liðið er í svaka formi og þarf því lítið að æfa. Svo er auðvitað vor í lofti og grænt gervigras handan við hornið. Hverjir skipa liðið? Eingöngu þeir sem hafa afburðagetu til að spila fótbolta, hinir sjá um vatnið. Hver varð hugdettan að því að stofna þetta lið? Þetta er hugmynd sem ég hef gengið með í langan tíma, enda þjálfað unga pilta í Garðabæ undanfarin 3 ár og veit því að þörfin fyrir félagsleg verkefni er brýn, enda þekkt vandamál í flestum félögum að ekki er hægt að hafa alla sem langar að æfa og spila fótbolta, inni í prógramminu hjá félögunum sem eru með markvissa afreksstefnu. Því er jafnan stór hópur sem verður út undan, og vantar verkefni þar sem markmiðin eru önnur en að slá í gegn. Hvernig kom það til að þú tókst að þér þjálfun þess? Formaður félagsins lagði hart að mér að taka þetta verkefni, enda hugsum við á líkum nótum. Hvar leikur liðið heimaleiki sína? Liðið æfir og leikur í sínum heimabæ, Garðabæ og á Stjörnuvelli. Er liðið í einhverskonar samstarfi við Stjörnuna? Liðið er samstarfsverkefni okkar sem ýttum þessu verkefni af stað og Stjörnunnar. Að auki hefur Íþrótta og Tómstundaráð Garðabæjar stutt þetta framtak. 5 manna stjórn félagsins er jafnframt skipuð 2 fulltrúum frá Stjörnunni, einum frá knattspyrnudeild og öðrum frá aðalstjórn. Hvernig hefur undirbúningstímabili ykkar verið háttað? Hann hefur eingöngu verið hugmyndafræðilegur fram að þessu, enda flestum leikmönnum meinilla við snjó. Hins vegar hefur sést til sólar að undanförnu og því ljóst að leikmenn KFG fara að skríða úr híði sínu hvað og hvenær. Hvernig líst ykkur á riðilinn ykkar í þriðju deildinni í sumar? Hann er auðvitað allt of léttur fyrir okkur, en við vanmetum ekki andstæðinga okkar og mætum því án yfirlætis til leiks. Hvert er markmiðið fyrir sumarið? Að leikir KFG verði baðaðir í sól og logni, enginn sigur verði naumari en 5–0 og að efri deildar liðin sláist um að kaupa leikmenn KFG að loknu leiktímabilinu. Eitthvað að lokum? Já, við KFG menn hvetjum alla unnendur góðrar knattspyrnu til að fjölmenna í Garðabæ í sumar, til að sjá frábæra knattspyrnu, svokallaðan samba fótbolta.“410 Lárus Guðmundsson, þjálfari Knattspyrnufélags Garðabæjar.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==