Aldarsaga UMSK 1922-2022

384 16 félög á 40 árum Þegar litið er yfir sögu einstakra íþróttagreina innan UMSK síðustu áratugina sker knattspyrnan sig úr að einu leyti. Á 40 ára tímaskeiði, um 1980–2020, hafa 16 félög verið stofnuð á félagssvæði UMSK sem leggja fyrst og fremst áherslu á knattspyrnu og flest þeirra iðka eingöngu knattspyrnu. Sum þeirra eru í samstarfi við knattspyrnudeildir í viðkomandi sveitarfélögum. Hér verður gerð grein fyrir þessum félögum í stuttu máli og stofnár þeirra látið ráða röðinni. Þau hafa ýmist verið aðilar að UMSK allt frá upphafi eða tímabundið og sum þeirra starfa ekki lengur. Knattspyrnufélagið Augnablik – 1981 27. september 1981 stofnuðu nokkrir ungir Kópavogsbúar Knattspyrnufélagið Augnablik í gömlum sumarbústað í Kópavogi sem var þá félagsheimili Breiðabliks.402 Nafnið Augnablik vísar öðrum þræði til Breiðabliks, enda höfðu flestir félagsmennirnir verið í því félagi en vildu skapa nýjan vettvang til að iðka knattspyrnu sér til ánægju. Andrés Pétursson var fyrsti formaður Augnabliks, hann var einnig fyrsti framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks. Augnablik gekk strax í UMSK og tók þátt í Íslandsmótinu í fyrsta skipti árið 1982. Félagsmenn voru 30–40 fyrstu árin. Augnablik lá í dvala um skeið en var endurvakið árið 2006. Félagið hefur tekið þátt í Íslandsmótinu, Lengjubikarnum og Bikarkeppni KSÍ og hafa Augnabliksmenn ævinlega látið léttleikann ráða för. Eitt sinni vöktu þeir athygli á keppnisleik með því að storma um götur Kópavogs, með í för voru tveir gæðingar frá Hestamannafélaginu Gusti, tíu Trabant-bifreiðar og lúðrasveit á pallbíl. Í annað skipti fengu þeir lögregluna í lið með sér sem handtók fyrirliða þeirra um það leyti sem hann var að heilsa fyrirliða andstæðinganna í upphafi keppnisleiks.403 Þegar draumurinn rættist Í sögu Stjörnunnar er greint frá eftirminnilegum knattspyrnuleik í Garðabæ árið 2011: „Það var mikið um að vera í Garðabæ þriðjudagskvöldið 30. ágúst 2011. Fólk streymdi á Stjörnuvöllinn og aldrei áður í sögu kvennaknattspyrnunnar hjá Stjörnunni hafði annar eins fjöldi verið saman kominn á áhorfendapöllunum og raunar taldist það til tíðinda að um 800 manns kæmu til að horfa á kvennaleik. Um leið og leikur hófst kölluðu áhorfendur nær einróma: „Áfram Stjarnan! – Áfram Stjarnan!“ En það sátu ekki allir áhorfendur að leiknum í stúkunni. Skammt frá hliðarlínunni niðri á vellinum sat roskinn maður í hjólastól. Ingvi Guðmundsson, fyrrverandi formaður Stjörnunnar og upphafsmaður að svo mörgu hjá félaginu. „Stærstu sigrarnir voru þeir þegar fólk brosti eftir slæm töp íþróttafólks félagsins því í brosinu fólst ósk um betri tíma – einhverntímann,“ var haft eftir honum þegar hann var beðinn um að rifja upp fyrstu ár Stjörnunnar. Og þarna var hann kominn orðinn sjúkur maður og ekki þarf að efa að hann gerði sér grein fyrir því að nú var möguleiki að hann fengi að upplifa þann draum sem hann og aðrir Stjörnumenn höfðu haft svo óralengi – að sjá félagið landa Íslandsmeistaratitli í knattspyrnu.“400 Umræddur knattspyrnuleikur var gegn Aftureldingu og fór 3–0 fyrir Stjörnustúlkum, sigurinn tryggði þeim Íslandsmeistaratitilinn, jafnvel þótt sjö umferðir væru eftir af mótinu. „Það var að vonum að Stjörnufólk fagnaði lengi og innilega. Sennilega var þó enginn glaðari en Ingvi Guðmundsson sem veifaði sigri hrósandi úr stólnum sínum og kunni vel að meta það þegar Stjörnumenn þyrptust að honum með hamingjuóskum. Löng, löng bið var á enda og það voru valkyrjurnar í félaginu sem bundu endahnútinn og sáu til þess að nýtt nafn, Stjarnan, var skráð á Íslandsbikarinn sem til þessa hafði oftast verið í vörslu þriggja félaga: Breiðabliks, Vals og KR.“401 Ingvi Guðmundsson (f. 1932) var formaður Stjörnunnar í árdaga félagsins og vann þar mikið og gott brautryðjendastarf. Sumarið 2011 lifði hann það að sjá Stjörnustúlkur verða Íslandsmeistara í knattspyrnu í fyrsta skipti. Ingvi andaðist það sama haust.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==