Aldarsaga UMSK 1922-2022

358 Æfingaskeið reykvísku stúlknanna stóð stutt yfir eins og fram kemur í endurminningum leikkonunnar Önnu Borg: „Vinkonur mínar og ég höfðum fengið þá ljómandi hugmynd að stofna knattspyrnufélag. „Fyrsta knattspyrnufélag kvenna á Íslandi“, stóð í blöðunum, því þetta voru engin smáræðis tíðindi. Við héldum hvern fundinn á fætur öðrum, og aðalmálið á dagskrá var ævinlega, hvernig knattspyrnubúningar okkar skyldu vera. Á endanum náðist samkomulag um rauðar matrósablússur með bláum kraga hvítbrydduðum, og leikfimisbuxur bláar. Loks gátu æfingar hafizt, ég var framvörður. En smátt og smátt rann móðurinn af Íslands fyrstu knattspyrnukonum – sennilega vegna þess að okkur bárust til eyrna þau geigvænlegu tíðindi, að maður fengi stóra fætur af að vera í fótbolta! Og það var þróun sem engri okkar leizt á. Hver af annarri duttu knattspyrnukempur úr leik, og loks var ein eftir – markvörður! Félagið var lagt niður – knattspyrnuferli mínum var lokið.“338 Fyrsti kappleikurinn í knattspyrnu kvenna fór fram í Reykjavík árið 1968 og þar tókust á handboltastúlkur úr KR og Fram.339 Fyrsta Íslandsmótið í knattspyrnu kvenna innanhúss var haldið í Laugardalshöll árið 1971 og ári síðar var keppt um Íslandsmeistaratitilinn utanhúss.340 Þá hafði kvennaknattspyrnan skotið rótum innan UMSK, fyrst í Kópavogi, og KSÍ samþykkt að kvennaknattspyrna yrði viðurkennd sem keppnisgrein innan sambandsins. Settar voru sérstakar leikreglur fyrir stúlkurnar, meðal annars var þeim eingöngu heimilt að leika í strigaskóm.341 Fyrsti landsleikurinn í kvennaknattspyrnu fór fram árið 1981, var það vináttuleikur á móti Skotum.342 Í þeim leik skoraði Bryndís Einarsdóttir úr Breiðabliki fyrsta markið fyrir íslenska kvennalandsliðið, Ásta B. Gunnlaugsdóttir, einnig úr Breiðabliki, kom Íslendingum yfir í leiknum en Skotar stóðu þó uppi sem sigurvegarar að lokum.343 Það sama ár fór bikarkeppni kvenna fram í fyrsta skipti, þrjú fyrstu árin urðu Breiðabliksstúlkur bikarmeistarar. Hér á eftir verður haldið í fótboltaferð um sambandssvæði UMSK og tæpt á knattspyrnusögu stærstu félaganna síðustu áratugina. Að þessu sinni ræður stafrófsröð þeirra för. Afturelding Um 1970 var frekar dauft yfir knattspyrnumálum hjá Aftureldingu, vallarmál í ógöngum og engin aðstaða innanhúss í Mosfellshreppi. Knattspyrnuneistinn var þó sannarlega til staðar í stækkandi sveitarfélagi, meistaraflokkur karla æfði á malarvellinum á Varmá sem var í misjöfnu ástandi. Árið 1972 var gert við hann fyrir 1,5 milljónir króna.344 Það dugði skammt. Það sama ár tók karlalið Aftureldingar þátt í UMSKmóti og keppti meðal annars við Breiðablik. Lárus H. Jónsson var einn liðsmanna Aftureldingar, löngu síðar rifjaði hann upp þennan leik: „Eftirminnilegasti leikur mótsins var við 1. deildarlið Breiðabliks en hann fór fram á litla malarvellinum við Vallargerði í Kópavogi. Þangað mættum við sveitastrákarnir í hávaðaroki, 12 vindstigum. Að öllu jöfnu hefði átt að fresta leiknum en við vorum ólmir í að spila og dómarinn ákvað að leikurinn skyldi fara fram. Hann kastaði upp peningi, við lentum undan vindi í fyrri hálfleik og tókum Blikana hreinlega í nefið. Staðan í hálfleik var 1–0 fyrir okkur eða Kára gamla og þá kom upp sú skemmtilega hugmynd í herbúðum okkar að mæta ekki til seinni hálfleiks og stela þannig sigrinum. Við sáum fyrir okkur fyrirsagnirnar í dagblöðunum: Afturelding vinnur 1. deildarlið Breiðabliks í fótbolta En við vissum ekki hvernig KSÍ mundi taka þessu gríni, kannski þyrftum við að borga sekt eða yrðum útilokaðir frá Íslandsmótinu. Við mættum því til seinni hálfleiks og lékum þá á móti vindi. Þá snerist taflið heldur betur við, mig minnir að Breiðablik hafi burstað okkur 12–1.“345 Meistaraflokkur Aftureldingar tók fyrst þátt í 3. deild Íslandsmótsins árið 1973 og var oft á þröskuldi þess að komast upp í 2. deild. Árið 1974 var knattspyrnudeild félagsins stofnuð undir formennsku Hafsteins Pálssonar. „Heimilislífið tók stundum mið af félagsstörfunum“, sagði Hafsteinn í viðtali árið 2018. „Foreldrar mínir áttu stóra garðsláttuvél og hún var bæði notuð á Tungubökkum og í Þrastaskógi. Eitt haustið þurfti að fara með hana í viðgerð, viðgerðarmönnunum fannst vélin vera býsna slitin eftir sumarið og spurðu hvort lóðin okkar væri virkilega svona stór! Vélin var alveg búin að vera. Anna Borg leikkona (1903– 1963) og vinkonur hennar höfðu mikinn áhuga á knattspyrnu á unglingsárum sínum í Reykjavík. Minna varð úr æfingum en efni stóðu til af sérstökum ástæðum.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==