Aldarsaga UMSK 1922-2022

357 Knattspyrnan og UMSK 1963–2022 Bolti út um víðan völl Í fyrri hluta bókarinnar er greint frá knattspyrnuiðkun innan UMSK fram á 7. áratuginn þegar Breiðablik og Afturelding drógu knattspyrnuvagninn og enginn minntist á kvennaknattspyrnu. Knattspyrnan átti þá vaxandi fylgi að fagna meðal pilta í Aftureldingu, Stjörnunni, Breiðabliki og Ungmennafélagi Bessastaðahrepps, einnig hófu strákar á Seltjarnarnesi að æfa knattspyrnu undir stjórn Garðars Guðmundssonar, þótt enginn væri þar löglegur knattspyrnuvöllur. Piltar á Álftanesi æfðu á túni sem félagið fékk afnot af, Stjarnan hafði allgóðan malarvöll og Varmárvöllur í Mosfellssveit var af fullri stærð en oft ónothæfur, ýmist vegna ryks eða aurbleytu, var stöðugt reynt að ráða bót á ástandi hans með misjöfnum árangri. Þrátt fyrir aðstöðuleysi á sambandssvæðinu var ljóst að knattspyrnan átti framtíðina fyrir sér innan UMSK, ekki skorti áhugann og efniviðurinn var góður. Með auknum íþróttahúsakosti fjölgaði héraðsmótum í yngri flokkunum innanhúss og fóru þau ýmist fram á Varmá, í Garðabæ, á Seltjarnarnesi eða í íþróttahúsinu á Kársnesi í Kópavogi. Skipulögð knattspyrnuiðkun kvenna hófst um 1970, eftir að íslenskir karlmenn höfðu leikið knattspyrnu í heilan mannsaldur. Þó eru nokkur dæmi um að stúlkur hafi leikið knattspyrnu fyrr á öldinni, á Ísafirði stofnuðu þær Knattspyrnufélagið Hvöt árið 1914.336 Um svipað leyti æfðu reykvískar stúlkur knattspyrnu á Melavellinum í Reykjavík en þar leyndust ljón í veginum: „Ýmsar sögur um óhollustu knattspyrnu fyrir stúlkur komu fram eins og að þær fengju stórar fætur af því að leika knattspyrnu, yrðu útskeifar og knattspyrnuiðkun gæti komið í veg fyrir að stúlkur eignuðust börn.“337 Staðhættir á Þingvöllum henta ekki vel til íþróttakeppni, samt var landsmót UMFÍ haldið þar einu sinni, sumarið 1957. Keppnin fór fram á Völlunum, sem eru handan við Öxará á þessari mynd, þar var meðal annars tekist á í knattspyrnu karla. Lið UMSK var skipað félögum úr Aftureldingu og Breiðabliki og lenti í 2. sæti. Löng bið varð á því að UMSK keppti aftur á landsmóti í knattspyrnu, það var á Sauðárkróki árið 1971. Á landsmótinu á Selfossi sumarið 1978 fór knattspyrnulið UMSK með sigur af hólmi í fyrsta skipti. Ljósmynd: Mats Wibe Lund.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==