Aldarsaga UMSK 1922-2022

356 sumarið 1959: „Ekki tók betra við þegar inn var komið. Þar slógust hundruð sveittra búka um að stíga dansinn á gólfi sem vart getur talist stærra en sæmilegasta stofugólf. Hávaðinn, öskrin og lætin ætluðu allt að æra. Víða sáust 16 ára ungmenni veifa Svartadauðaflöskum, bjóða upp á slagsmál, og yfir þessu öllu trónaði hljómsveitin [KK sextettinn] og lék hvínandi rokklög.“329 Já, rokkið var komið til Íslands og bítlaæðið og síðan þungarokkið ekki langt undan, félagsheimili fyrir austan Fjall urðu landsfræg fyrir böll, til dæmis Hvoll, Aratunga og Njálsbúð, en einnig Hlégarður í Mosfellssveit og Félagsgarður í Kjós. Árið 1974 leitaði UMSK eftir því að fá Félagsgarð til dansleikjahalds, um það segir í ársskýrslu sambandsins: „Í haust voru haldnir sex dansleikir að Félagsgarði í Kjós, í fjáröflunarskyni fyrir Sambandið. Umf. Drengur lánaði Sambandinu húsið endurgjaldslaust, en félögin sköffuðu sjálfboðaliða. Dansleikirnir tókust mjög vel og er það mikið að þakka hinum fjölmörgu sjálfboðaliðum sem gengu að öllum verkum jöfnum höndum. Og er þeim og Umf. Dreng færðar þakkir fyrir þetta framlag sitt.“330 Íslenska sveitaballamenningin lifði enn góðu lífi á 9. áratugnum, meðal annars efndi Drengur til dansleikja í Félagsgarði í fjáröflunarskyni og um skeið var starfandi sérstök ballnefnd hjá félaginu undir forystu Ólafs Magnússonar í Eyjum.331 Félagsgarður er í eigu Drengs og nú lá mikið við því það skorti tilfinnanlega fé til að klæða húsið að utan. Blásið var til balls í júlímánuði 1980, þar lék hljómsveitin Start undir dansi sem skartaði bæði Pétri Kristjánssyni og Eiríki Haukssyni. Framhald var á þessu dansleikjahaldi næstu árin, þarna léku til dæmis hljómsveitirnar Brimkló, Utangarðsmenn, Fræbblarnir, Stuðmenn, Grýlurnar, Upplyfting og ekki síst hljómsveitin Start. Árið 1981 voru haldnir margir dansleikir í Félagsgarði og Start var þar aðalhljómsveitin, Eiríkur Hauksson, söngvari sveitarinnar, sagði í blaðaviðtali: „Við eigum okkar heimavöll sem er Félagsgarður í Kjós. Þangað kemur alltaf feiknarlegur sterkur kjarni og tekur þátt í þessu með okkur af lífi og sál. Þetta eru krakkar af Akranesi og allt suður til Grindavíkur sem mæta þarna.“332 Árið 1982 voru haldin tíu sveitaböll í Félagsgarði og um verslunarmannahelgina tóku Drengur og UMSK höndum saman og héldu þar danshátíð, hljómsveitin Start lék fyrir dansi þrjú kvöld í röð en einnig kom fram hljómsveitin Pass úr Mosfellssveit. Íþróttavöllurinn við Félagsgarð var nýttur sem tjaldstæði og samkomutjald UMSK sett upp fyrir veitingasölu. Allt var til reiðu fyrir góða skemmtun en löngum hefur verið erfitt að reikna út hvert straumurinn liggur þessa mestu ferðahelgi sumarsins. Svo fór að aðsóknin að danshátíðinni var dræm og hagnaður UMSK því í skötulíki. Meira fjör var á fjölunum í Félagsgarði fáum vikum síðar þegar UMSK fagnaði þar sextugsafmæli sínu með dansleik. Heimamenn úr Dreng önnuðust veitingasöluna en hljómsveitin Stuðmenn lék fyrir dansi. Þeir voru þá að vinna að kvikmynd sinni „Með allt á hreinu“ og hluti af myndinni var tekinn upp í Félagsgarði, meðal annars hið fræga atriði með Sigurjóni digra. Fjölmenni var á dansleiknum sem skilaði afmælisbarninu miklum hagnaði eða 14.587 krónum sem var hátt í 20% af framlagi allra sveitarfélaganna á félagssvæði UMSK til sambandsins það árið.333 Kristján Sveinbjörnsson var þá formaður UMSK, hann sagði um Stuðmannaballið: „Kjósverjar lánuðu okkur Félagsgarð undir ballið, það skilaði dágóðum tekjum sem fóru í að greiða laun framkvæmdastjórans og standa undir kostnaði við mótshald.“334 Vorið 1983 hélt UMSK enn einn dansleikinn í Félagsgarði og þar lék hljómsveitin Upplyfting fyrir dansi. Aðsókn var dræm og hagnaður aðeins 482 krónur. Þar með lauk dansleikjahaldi UMSK í Kjósinni en Drengsmenn létu þó ekki deigan síga og fram til ársins 1985 héldu þeir böll í félagsheimilinu. Þeir dansleikir gengu ekki sem skyldi, jafnvel þótt hinir rómuðu Stuðmenn hefðu leikið á einum þeirra. Þar með lauk langri sveitaballasögu Félagsgarðs í Kjós.335 Sumarið 1982 héldu Ungmennafélagið Drengur og UMSK danshátíð í Félagsgarði í Kjós. Hér má sjá merki Drengs sem Grétar Magnús Guðmundsson, sem kallaði sig Tarnús, teiknaði í tilefni af 60 ára afmæli félagsins árið 1975.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==