Aldarsaga UMSK 1922-2022

355 Tveir bátanna voru 25 klukkustundir á leiðinni og sá þriðji lenti í hrakningum. Siglingamót yngri flokka 28. ágúst. Siglingaklúbburinn Vogur sá um mótshaldið sem fór fram í hagstæðu veðri í Garðabæ. Keppt var í tveimur aldursflokkum, 8–12 ára og 13–15 ára. Fyrirtækið Ísspor í Kópavogi gaf verðlaunin. Karatemót UMSK 10. október. Þetta var fyrsta héraðsmót UMSK í karate. Það var haldið í Garðabæ og voru keppendur úr Stjörnunni og Gerplu en það voru einu UMSK-félögin sem lögðu stund á karate um það leyti. Þátttakendur voru 36, bæði stúlkur og drengir, en áhorfendur um eitt hundrað. Á mótinu var bæði keppt í „kata“ sem eru formlegar æfingar og „kumite“ sem er frjáls bardagaaðferð. UMSK gaf verðlaunin sem keppt var um á mótinu. Héraðsmót UMSK í handknattleik var einnig haldið. Af þessu má ráða að UMSK stóð föstum fótum í íþróttalífi sambandssvæðisins um þetta leyti og Kristján Sveinbjörnsson, formaður UMSK, kvaddi afmælisárið með þessum orðum: „Nú er á enda runnið 60 ára afmælisár UMSK sem að mörgu leyti hefur verið tímamótaár í sögu sambandsins, einkum vegna þess að starfsemi þess hefur ekki verið jafn mikil og fjölbreytt nú um nokkurt árabil. Það er gleðiefni hversu margir hafa tekið þátt í starfsemi sambandsins, en í eingöngu þeim íþróttamótum sem sambandið hefur haldið, hafa þátttakendur verið yfir 2000. Þá er ótalin öll önnur starfsemi svo sem trimmdagurinn, göngudagur fjölskyldunnar, hjólreiðarnar vegna verkefnisins „eflum íslenskt“ svo og ýmis námskeið og fleira … Starfsemi sambandsins er að miklum hluta sjálfboðavinna en aðeins með mikilli sjálfsboðavinnu fjölda félaga er mögulegt að halda úti félagsskap sem okkar. Þessu fólki vil ég þakka fyrir vel unnin störf á liðnu starfsári.“326 Kennsluskýrslur – starfsskýrslur Lengi var íþróttafélögum landsins gert skylt að fylla út svokallaðar kennsluskýrslur þar sem greint var nákvæmlega frá því hvað margir stunduðu íþróttir innan viðkomandi félags. Tilgangur skýrslnanna var að fá nákvæmar upplýsingar um íþróttaiðkun á hverjum tíma, auk þess voru þær forsenda þess að félögin fengju kennslu- og útbreiðslustyrki frá menntamálaráðuneytinu og einnig svokallaða lottópeninga eftir að þeir komu til sögunnar. Síðar komu svonefndar starfsskýrslur til sögunnar og árið 1982 gaf UMSK út leiðbeiningar til aðildarfélaganna um hvernig útfylla skyldi slíkar skýrslur sem voru bundnar í lögum sambandsins. Reyndar er þessi skýrslugerð einnig í lögum ÍSÍ og í ársskýrslu UMSK fyrir árið 2014 er minnt á þetta mikilvæga atriði: „Samkvæmt 8. grein í lögum ÍSÍ skulu allir sambandsaðilar, íþróttafélög, íþróttahéruð og sérsambönd skila skýrslu inn eigi síðar en 15. apríl ár hvert. Skýrslunum skal skila í Felix – félagakerfi íþróttahreyfingarinnar. Í starfsskýrslum eru upplýsingar um félagsmenn, iðkendur eftir íþróttagreinum, stjórnarmenn og lykiltölur úr ársreikningi. Haldið er utan um þessar upplýsingar fyrir hvert ár, þannig að hægt er að vinna tölfræði úr þessum gögnum og gera samanburð milli ára. Upplýsingarnar eru m.a. mælikvarði á stærð og þróun íþróttagreina og héraða og hefur áhrif á fulltrúafjölda á þingum innan sérsambanda. Þess vegna er afar mikilvægt að senda frá sér áreiðanlegar upplýsingar til að byggja á. Starfsskýrslan skiptist í þrjá hluta sem eru: – Félagatal (félagar og iðkendur). – Ársreikningur fyrir síðastliðið ár. – Nýjustu upplýsingar um stjórnarsetu í félaginu og deildum þess.“327 Þrátt fyrir skýr fyrirmæli gekk ekki alltaf vel að fá starfsskýrslurnar í hús, líkt og lesa má í ársskýrslu UMSK fyrir árið 1986: „Skil á starfsskýrslum var sambandinu til skammar. Skýrslurnar komu seint inn og sum félög voru dæmd í keppnisbann vegna vanskila. Eitt félag er enn í keppnisbanni og hefur því ekki rétt til að senda fulltrúa á þetta þing [ársþing UMSK]. Er þetta mjög bagalegt og félögin verða hreinlega að taka sig til í andlitinu og fylla skýrslurnar út í tíma. Það er sérstaklega mikilvægt einmitt núna að ganga frá skýrslunni því við skiptingu „LOTTÓ gróðans“ verður tekið tillit til þeirra og því eru þau félög sem ekki gera skil í tíma að fyrirgera rétti sínum til „pottsins“.“328 Fjör í Félagsgarði Sveitaböll í félagsheimilum landsins á síðari hluta 20. aldar eru eftirminnilegur þáttur í skemmtanasögu Íslendinga. Þessir dansleikir gátu skapað skjótfenginn gróða, en ekki voru þó allir yfir sig hrifnir af þessum samkomum, að minnsta kosti ekki blaðamaður Tímans sem lýsti dansleik í Félagslundi í Flóa með þessum orðum

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==