Aldarsaga UMSK 1922-2022

343 1980 7. júní var starfsdagur í Þrastaskógi, félagar úr Gerplu, Aftureldingu og Ungmennafélagi Kjalnesinga hreinsuðu skóginn undir stjórn Páls Aðalsteinssonar og þáðu síðan veitingar. 1981 Vinnuskóli Mosfellshrepps fór austur í Þrastaskóg til að hreinsa skóginn, safna rusli, fjarlægja dauð tré og lagfæra gangstíga og girðingar. Sumarhúsið var lítið notað, þó gistu félagar úr Aftureldingu og Íþróttafélagi Kópavogs (ÍK) þar og fóru í íþróttir og leiki í skóginum. 1982 Tíu íþróttahópar úr UMSK dvöldu í sumarhúsinu og komust færri að en vildu. Almenn ánægja var með dvölina, þótt hvorki væri rennandi vatn né rafmagn í húsinu. Um sumarið vann Vinnuskóli Mosfellshrepps við að snyrta kringum sumarhúsið. 1983 Mikil ásókn var í sumarhúsið og unnið að úrbótum þar, tjaldsvæði útbúið við húsið og rafmagn og vatn leitt um skóginn. 1984 Heimsóknir í skóginn með minna móti, íþróttavöllurinn var blautur og sumarhúsið lítið notað. Þó nýttu félagar úr Gerplu húsið fyrir íþróttaskóla og einnig félagar úr Stjörnunni og Breiðabliki. 1985 Unnið að gróðursetningu í skóginum; Katrín Gunnarsdóttir, formaður UMSK, ritaði í UMSK-blaðið: „Mörg félög innan UMSK hafa notfært sér þá aðstöðu sem þegar er fyrir hendi og líkað vel enda stórkostlegt útivistarsvæði fyrir börn og unglinga.“302 Heimsóknir UMSK-fólks í Þrastaskóg runnu sitt skeið á enda en tjaldsvæðið var notað áfram af almenningi, til dæmis af fólki í vinnustaðaferðum. Einnig hófst samvinna við Landsvirkjun um fegrun og umhirðu skógarins. Af sumarhúsi UMSK í skóginum er það að segja að með tímanum minnkaði notkun þess, viðhaldi var ekki sinnt sem skyldi, það var orðið mjög illa farið og hætta á að það fyki. Samkvæmt efnhagsreikningi UMSK árið 2020 var það bókfært á 30.000 krónur. Það sama haust tók UMSK þá ákvörðun að rífa húsið og var það gert.303 Landshlaup FRÍ 1979 Í júnímánuði 1979 fór fram eftirminnilegt hlaup sem teygði anga sína víða um vegakerfi landsins. Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) skipulagði landshlaup með þátttöku heimamanna á hverjum stað, þeir skiluðu fallega útskornu boðhlaupskefli í næsta áfangastað þar sem óþreyttir tófusprengir úr næsta sveitarfélagi tóku við gripnum. Landshlaupið hófst á Laugardalsvelli á þjóðhátíðardaginn og endaði þar tíu dögum síðar. Vegalengdin var 2500 kílómetrar og alls tóku um 6000 hlauparar þátt í þessu skemmtilega verkefni. Þetta var fimm árum eftir að hringvegurinn var opnaður en auk hringvegarins var hlaupið um Reykjanes, Vestfirði og Tröllaskaga. Lögð var áhersla á að virkja sem flest íþrótta- og ungmennafélög; hlaupið var þaulskipulagt og einstaklega vel heppnað, víða var efnt til viðburða í áfangastað. Klukkan 3:05 aðfaranótt 26. júní skiluðu Borgfirðingar keflinu inn á félagssvæði UMSK í Hvalfjarðarbotni. Um 50 manns tóku á móti hlaupurunum þessa björtu sumarnótt sem Ingólfur Árnason, formaður Aftureldingar, lýsti með þessum orðum: „… á vegum UMFA fóru aðilar úr skólahljómsveit Mosfellshrepps alla leið upp í Hvalfjarðarbotn til að taka á móti keflinu inn á svæði U.M.S.K., léku þeir þar af miklum dugnaði, og trúi ég því að það mun seint gleymast, þeim sem að voru staddir þarna. Sú fegurð og kyrrð sem ríkti, það eru svona stundir sem að gera það að verkum að maður gleymir öllum erfiðleikum í starfinu.“304 Eftir stuttan stans á sýslumörkunum hlupu Kjósverjar á aldrinum 6–62 ára 32 km leið að næstu hreppamörkum sem voru við Kiðafellsá. Þar tóku félagar úr Ungmennafélagi Kjalnesinga við keflinu kl. 5:30 um morguninn, margir biðu í bílum sínum í Kollafirði til að fylgjast með þegar þessum mikla hlaupahring yrði lokað. Mosfellingar tóku við keflinu á hreppamörkum við Leirvogsá og það var vaxandi spenna í lofti þegar hlauparar nálguðust borgarmörkin þar sem árrisulir Reykvíkingar biðu þeirra. Landshlaupsmerkið sem Þorvaldur Jónasson, stjórnarmaður í Frjálsíþróttasambandi Íslands, teiknaði.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==