Aldarsaga UMSK 1922-2022

327 7. og 8. áratugnum um verslunarmannahelgina, einnig héldu ungmennafélagar hátíðir á Hrafnagili í Eyjafirði og Laugum í Reykjadal. Á árunum 1970–1972 efndi Héraðssambandið Skarphéðinn (HSK) til samkomuhalds á Laugarvatni um þessa mestu ferðahelgi ársins, sumarið 1972 voru mótsgestir 12–13 þúsund, að margra áliti bar þar hæst í dagskránni þegar stórmeistararnir Friðrik Ólafsson og Bent Larsen frá Danmörku tefldu skák með lifandi taflmönnum. Ungmennasambönd drógu sig smám saman út úr skemmtanahaldi á 9. áratugnum enda fengu þau traustara fjárhagsland undir fætur eftir að ágóðinn af lottóinu kom til sögunnar. Á árabilinu 1973–1984 kom UMSK að skipulagningu þriggja útihátíða í Þjórsárdal. Hér verður sú merka saga rakin. Vor í dal – 1973 8.–11. júní 1973 var blásið til mikillar útisamkomu um hvítasunnuna í Þjórsárdal. Mótshaldarar voru UMFÍ, UMSK og HSK en hátíðin fékk nafnið „Vor í dal“, frá henni segir í ársskýrslu UMSK: „Var hér um að ræða einn framkvæmdalið af tillögum Æ.R.R. [Æskulýðsráð ríkisins] til að fyrirbyggja óæskilegar samkomur ungs fólks um þessa helgi, en undanfarin ár hefur viljað brenna við að ungmenni ferðuðust út á landsbyggðina og efndu til óskipulagðs samkomuhalds með misjöfnum málslokum. Þannig hefur oft skapast óbætanlegt tjón bæði á líkama og sálu fólks eða á fósturjörðinni sjálfri. „Vor í dal“ átti að mæta þörf ungmenna til útrásar skemmtanafýsnar sinnar og forða um leið viðkvæmum landssvæðum frá óþarfa átroðningi á óheppilegum tíma.“273 Þessi lýsing átti sannarlega rétt á sér, Þjórsárdalur hafði verið vettvangur fyrir óskipulagðar drykkjusamkomur, til dæmis um hvítasunnuna 1963 eins og lesa mátti í dagblaðinu Vísi: „Nokkur hundruð unglinga komu saman í Þjórsárdal yfir Hvítasunnuhátíðina og héldu þar eina ljótustu útisamkomu, sem haldin hefur verið hér á landi. Unglingarnir ýmist veltust um ofurölvi og ósjálfbjarga eða slógust og rifu fötin hver utan af öðrum. Sumir gengu um alls naktir aðrir hentu sér í Sandá og böðuðu sig fullklæddir.“274 Undirbúningstími fyrir „Vor í dal“ árið 1973 var aðeins einn mánuður, í framkvæmdanefndinni sátu Sigurður Geirdal fyrir hönd UMFÍ, Jóhannes Sigmundsson frá HSK og Guðmundur Gíslason frá UMSK, starfsmenn mótsins voru Hafsteinn Þorvaldsson, formaður UMFÍ, og Pétur Einarsson, síðar flugmálastjóri, auk þess lögðu fjölmargir sjálfboðaliðar hönd á plóg. Veður var heldur kalsasamt á hátíðinni sem einhverjir spaugarar kölluðu „Hor í dal“ af þeim sökum. Veðrið hamlaði þó ekki aðsókninni, um fimm þúsund manns streymdu í Þjórsárdalinn þar sem hljómsveitir á borð við Brimkló, Mána og Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar léku fyrir dansi, auk þess sem Árni Johnsen stjórnaði fjöldasöng. Ýmiskonar afþreying stóð gestum til boða: Íþróttaiðkun, hestaleiga, fjallganga, fjöldasöngur og sundlaugarferð; ölvun var með minna móti eins og fram kom í einu dagblaðanna: „Drykkjuskapur var ekki mikill á mótinu og aðeins áberandi hjá mjög litlum hluta unga fólksins. Stærstur hluti mótsgesta var til fyrirmyndar, en þó sáust 13–14 ára unglingar útúrdrukknir. Lögreglan tók um 50 manns úr umferð af þeim Tjaldlíf á Vori í dal árið 1973.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==