324 Sumar af þessum hugmyndum voru framkvæmdar en aðrar voru ekki reyndar vegna tímaskorts þess fámenna hóps sem nennir að leggja eitthvað af mörkum. Nú er nýútkomið auglýsingablað sem helgað er sigri okkar á Landsmótinu s.l. sumar. Er áætlað að það muni gefa á milli 5 til 700.000.00 þús. krónur. Styrkir sveitarfélaganna hækkuðu nokkuð í krónutölu en ekki í hlutfalli við verðbólgu sem hefur verið mikil.“267 Íþróttafélag Kópavogs (ÍK) Samhliða því að Ungmennafélagið Breiðablik óx og dafnaði myndaðist svigrúm fyrir ný félög í ört vaxandi Kópavogsbæ. HK, Gerpla og Siglingafélagið Ýmir eru dæmi um slík félög og einnig Íþróttafélag Kópavogs (ÍK) sem var stofnað árið 1976 og gekk sama ár í UMSK. Félagið starfaði einkum í norðurhluta Kópavogs, sinnti mest knattspyrnuiðkun en einnig starfaði þar tennisdeild um skeið. Um 1980 voru fjórar deildir innan ÍK: Knattspyrnudeild, tennisdeild, styrktardeild og kvennadeild. Iðkendur skiptu nokkrum hundruðum þegar mest var, ágætur árangur náðist á knattspyrnuvellinum, félagið tók þátt í mótum, þar á meðal í knattspyrnumótum UMSK. Félagsbúningurinn var hvítar buxur og þverröndóttar hvítar og grænar treyjur. Haldin voru knattspyrnunámskeið fyrir börn og einnig gekkst félagið fyrir hlaupakeppni á sumardaginn fyrsta fyrir börn og unglinga. ÍK hafði yfir að ráða litlu húsi í austanverðum Kópavogi sem hét Fagrihvammur, það stóð í grennd við Heiðarvöll sem var lítill íþróttavöllur sunnan við Álfhólsveg. Í Fagrahvammi voru haldnar ýmiss konar samkomur, meðal annars voru sýndar þar kvikmyndir og oft var þar þröng á þingi. Árið 1978 var lögð hitaveita í húsið sem var áður kynt með olíu. Árið 1991 dró til tíðinda í sögu ÍK, það var lagt niður og um svipað leyti var knattspyrnudeild stofnuð innan HK. En aldarfjórðungi síðar, síðla árs 2015, var félagið vakið til lífsins á ný og var það mörgum eldri ÍK-ingum fagnaðarefni. Í Kópavogsblaðinu birtist eftirfarandi frétt um endurreisnina undir liðnum „Stórtíðindi“: „ÍK, Íþróttafélag Kópavogs, hefur verið stofnað á nýjan leik. ÍK var fyrst stofnað árið 1976 en var lagt niður árið 1991 og knattspyrnudeild HK stofnuð. Í byrjun verður áhersla lögð á iðkun knattspyrnu bæði drengja og stúlkna ásamt meistaraflokki og verður félagið þátttakandi á Íslandsmótinu 2016, samkvæmt upplýsingum Kópavogsblaðsins. Þá verða einmitt 40 ár frá því félagið var fyrst stofnað. Merki félagsins og þverröndóttu grænu og hvítu búningarnir verða þeir sömu og áður. ÍK hyggst sækja um æfinga- og félagsaðstöðu í Fagralundi í Fossvogsdal og vera virkur aðili í íþróttaþjónustu við bæjarbúa í nærumhverfinu í norðurhluta Kópavogs nú þegar HK er að flytja í Kórinn. ÍK hafði einmitt fengið það svæði úthlutað á sínum tíma. Mikil ánægja ríkir meðal gamalla ÍK-inga með endurkomu félagsins enda eiga margir góðar minningar frá ÍK árunum. Efnt verður til framhaldsaðalfundar fljótlega á nýju ári þar sem gamlir og nýir félagsmenn eru velkomnir að gerast stofnfélagar. Formaður ÍK er Sigvaldi Einarsson.“268 Þess má geta að ÍK hefur ekki gerst aðili að UMSK á nýjan leik. Húsið Fagrihvammur í austanverðum Kópavogi var athvarf og félagsmiðstöð Íþróttafélags Kópavogs. Húsið og fánastöngin voru máluð í hvítum og grænum lit sem voru búningalitir félagsins.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjQwMzI0OQ==